Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 7. nóvember 2007
Flótti unga fólksins
Á dögunum kom út fróðleg skýrsla um áhrif aflasamdráttar í þorski á fjárhag sveitarfélaga. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um íbúaþróun á nokkrum stöðum á landsbyggðinni síðastliðin 10 ár. Þar er sérstaklega horft til þess hve mikið íbúum yngri en 40 ára hefur fækkað á tímabilinu og þar koma í ljós skuggalegar tölur.
Í skýrslunni er Bolungarvík ekki tekin sérsktlega fyrir en ég gerði mína eigin útreikninga á íbúaþróun síðustu 10 ára í Bolungarvík. Þar kemur í ljós að Bolvíkingum hefur fækkað um 191 á tímabilinu eða um 17,5%. Ef aðeins er horft til aldursflokksins yngri en 40 ára þá er fækkunun þar 209 manns eða heil 29,4% - það er einfaldlega kallað hrun. Af þessu leiðir að Bolvíkingum 40 ára og eldri hefur fjölgað um 18 á þessum 10 árum sem þýðir 4,7% fólksfjölgun í aldurshópnum.
Þessi þróun er grafalvarlegt mál og öllum má vera ljóst að slík íbúaþróun mun á endanum ganga frá viðkomandi sveitarfélögum. Ég ætla að leyfa mér að birta stuttan kafla úr fyrrgreindri skýrslu þar sem fjallað er um þessa íbúaþróun.
Unga fólkið fer ýmist í skóla sem eru annars staðar á landinu eða fær vel launað vinnu á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Að námi loknu er það fátt sem dregur fólk aftur til heimahaganna. Ástæða þess er bæði það að fá störf við hæfi eru í boði og einnig að þjónusta er takmörkuð. Eldra fólkið er bundið traustari böndum við heimaslóðir. Þar kann átthagatryggð að ráða nokkru en einnig kann að skipta máli að þetta fólk hefur komið sér upp húsnæði sem lítið fengist fyrir miðað við jafnstórt húsnæði á Reykjavíkursvæðinu. Hröð fækkun ungs fólks veldur því að búast má við að fólki haldi áfram að fækka á þessum stöðum á komandi árum. Að því kemur að fólki á vinnualdri fer að fækka mjög hratt. Sífellt færri verða eftir til að standa undir rekstri bæjarfélaganna og borga skuldir þeirra.
Það þarf að stöðva flótta ungs fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Flóttinn verður ekki stöðvaður nema að til komi umfangsmiklar samstilltar aðgerðir. Samgöngur og fjarskipti þurfa að vera í sama klassa og á höfuðborgarsvæðinu og ungu fólki þarf að standa til boða margvísleg tækifæri í eigin heimabyggð. Þar þurfa til dæmis að vera til staðar tækifæri til menntunar, tækifæri til afþreygingar auk góðra atvinnutækifæra.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 5. júní 2007
Hin döpru vísindi
Það var mannfjöldakenning hagfræðingsins Malthusar og svartsýn lífsskoðun hans sem varð til þess að hagfræðin fékk á sig stimpilinn "hin döpru vísindi". Mannfjöldakenningin gekk út á fólkfjölgun væru verulegar skorður settar og að "lestir og eymd" takmarki mannfjölda að fæðuframboði. Á grundvelli þessarar kenningar var því m.a. haldið fram að Ísland gæti einungis brauðfætt 50 þúsund manns. Þetta mun hafa verið almenn skoðun erlendra sem innlendra fyrirmanna fyrir um 200 árum síðan. Nú eru Íslendingar rúmlega 300 þúsund talsins og löngu ljóst að sérfræðingar þess tíma höfðu rangt fyrir sér.
Ég hef áhyggjur af því að fiskifræðin standi á veikum grunni í dag. Hingað til hefur verið talið að í lagi sé að veiða árlega 25% af mældum þorskstofni á Íslandsmiðum en nú breytast vísindin allt í einu þannig að einungis er talið að veiða megi 20% af stofninum. Við slíkar breytingar er eðlilegt að líta hlutina gagnrýnum augum og spyrja: Getur ekki alveg eins verið í lagi að veiða 30% af stofninum? Eða eru 15% kannski nærri lagi? Á hverju grundvallast þetta mat eiginlega?
Ég vildi ekki standa í sporum fiskifræðinga í dag. Mér finnst eins og þeir standi frammi fyrir því að kenningarnar sem þeir starfa eftir ganga ekki upp - líkt og raunin varð með mannfjöldakenningu Malthusar á sínum tíma.
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, lét eftirfarandi orð falla á Alþingi í vor: "Drengir, sjáiði ekki veisluna!" Ég sé veisluna en sérfræðingarnir á Hafró sjá hana greinilega ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 13. maí 2007
Kosningasigur Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegari Alþingiskosninganna. Flokkurinn er áfram stærsti stjórnmálaflokkur landsins og bætir við sig 3% fylgi og 3 þingmönnum. Ríkisstjórnin hélt einnig velli en þó með minnsta möguleg mun, 32 þingmenn á móti 31 þingmanni stjórnarandstöðunnar. Sjálfstæðisflokkurinn á 1. þingmann í öllum kjördæmum og hefur yfir að ráða 25 af 63 þingsætum en sá flokkur sem kemur næst er Samfylkingin með 18 þingsæti.
Í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, tapar Sjálfstæðisflokkurinn örlitlu fylgi en heldur sínum 3 mönnum og eru þeir allir kjördæmakjörnir. Jöfnunarsætið kom í hlut Frjálslynda flokksins og þar með er ljóst að Kristinn H Gunnarsson verður á þingi næstu 4 árin. Að mínu mati er Kristinn að vinna persónulegan sigur og sýnir framsóknarmönnum fram á að hann hafi tekið frá þeim töluvert fylgi og það sem mestu máli skiptir fyrir hann, tekið af þeim þingsæti.
Laugardagur, 12. maí 2007
Alþingiskosningar
Í dag er kosið til Alþingis. Þar kjósum við þá stjórnmálaflokka og um leið þá einstaklinga sem við teljum best til þess fallna að stýra íslensku þjóðarskútunni næstu fjögur árin. Ég er búinn að fara á kjörstað og kaus samkvæmt minni sannfæringu - ég kaus D-lista Sjálfstæðisflokksins.
Ég vona að sem flestir fari á kjörstað í dag og nýti sér þann lýðræðislega rétt að kjósa - eftir sinni sannfæringu.
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Tannheilsa Samfylkingarinnar
Mikið er ég feginn að heyra þetta, nú get ég gleymt því að ég hafi borðað of mikið af sætindum og sleppt tannburstun á barnsaldri. Ég skelli bara skuldinni á yfirvöld, það er víst þeirra að borga fyrir syndir mínar... eða svo segir Samfylkingin.
En ég trúi ekki á svona kosningaloforð, ég gæti aldrei hugsað mér að láta skattgreiðendur borga fyrir að ég hafi tekið slæmar ákvarðanir í lífinu - það er mitt að axla ábyrgðinni af eigin gjörðum og einmitt þess vegna kýs ég ekki Samfylkinguna.
X-D er það eina er það eina rétta í stöðunni.
Föstudagur, 20. apríl 2007
Sægreifar fái 100 Óshlíðargöng
Nánar til tekið var eftirfarandi spurning lögð fyrir Össur Skarphéðinsson, þingmann og frambjóðanda Samfylkingarinnar: "Hvers mega þær útgerðir vænta sem fjárfest hafa í kvóta fyrir stóra peninga á undanförnum árum ef þið komist til valda?" Svar Össurar var á þá leið að "engin réttindi verði tekin af neinum nema að bætur komi fyrir". Ef notaðar eru tölur frá Grétari Mar Jónssyni, frambjóðanda Frjálslynda flokksins, um verðmæti aflaheimilda nema væntanlegar bætur fyrir þorskkvótann einan og sér hátt í 500 milljörðum króna.
Það er því andvirði rúmlega 100 Óshlíðarganga sem kvótaeigendur munu fá frá skattgreiðendum þessa lands komist Samfylkingin til valda.
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Atvinnulíf á Vestfjörðum
Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem ég tek atvinnulíf á Vestfjörðum til umfjöllunar. Fyrir tæpri viku síðan átti Vestfjarðanefndin svokallaða að skila af sér vinnu sinni til forsætisráðuneytisins en eins og flestir vita átti nefndin að koma með tillögur að leiðum til eflingar atvinnulífs á Vestfjörðum. Nefndinni bárust hátt í eitt hundrað tillögur sem áttu það sammerkt að geta bætt atvinnuástand á Vestfjörðum. Margir hafa því lagt hönd á plóg til að auðvelda nefndinni vinnu sína.
Líklega eru þær tillögur sem nefndinni bárust af ýmsum toga og má þar eflaust finna góð sóknarfæri fyrir atvinnulíf á Vestfjörðum. Eitt af því sem ég óttast er að þær hugmyndir sem eiga eftir að hljóta náð fyrir augum fólks verði óraunhæfar og óframkvæmanlegar. Okkur mannfólkinu hættir nefnilega til að gleyma okkur í eigin draumum. Sumar hugmyndir eru frumlegar og sniðugar en það er ekki endilega víst að þær séu hentugar. Ég vil raunhæfar lausnir - enga villta drauma.
Það er að mörgu að hyggja í þessum málum en að mínu mati þarf að huga vandlega að einu atriði, vinnumarkaðnum á Vestfjörðum. Mikið hefur verið rætt um að fjölga þurfi opinberum störfum á Vestfjörðum til jafns við aðra landsfjórðunga. Þá kviknar strax spurningin, hvernig störf á hið opinbera að bjóða á Vestfjörðum? Í mínum huga er svarið einfalt - störf fyrir venjulegt fólk. Við þurfum því að horfa til framboðs á vinnuafli á svæðinu því það þarf að bjóða upp á verkefni sem hinn almenni borgari getur leyst af hendi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 14. apríl 2007
Landsfundir
Tveir íslenskir stjórnmálaflokkar halda landsfundi sína nú um helgina. Ég átti sæti á landsfundi Sjálfstæðisflokksins en taldi að tíma mínum væri að þessu sinni betur varið í að sinna konu og vinnu - svo má maður auðvitað ekki missa af þverpólitíska fótboltanum í íþróttahúsinu á laugardögum Ég get þó að einhverju leyti fylgst með fundarstörfum hjá mínu fólki í gegnum beina útsendingu á netinu en þar er að vísu ekki hægt að fylgjast með nefndarstörfum en umræður í hinum ýmsu málefnanefndum eru ætíð fjörugar og skemmtilegar.
Ég leit yfir drög að ályktunum beggja landsfundanna og þar að margt gott að finna en þú ýmislegt slæmt líka. Það væri auðvelt að koma fram með gagnrýni á drögin en ég ætla að bíða með það þar til lokaafurðirnar koma frá landsfundunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Fjármagnstekjur og atvinnustarfssemi
Dæmi 1
Einstaklingur á 100 millj.kr. og ávaxtar þær í almennum innlánum - þ.e. leggur peninginn inn á bók - og fær 13% vexti á ári. Vaxtatekjur eru því 13 millj.kr. og af þeim eru greiddar 1,3 millj.kr. í fjármagnstekjuskatt.
Dæmi 2
Einstaklingur á 100 millj.kr. og felur verðbréfafyrirtæki að sjá um að ávaxta féð. Ársávöxtun verður 13% þannig að fjármagnstekjurnar verða 13 millj.kr. og af þeim greiðast 1,3 millj.kr. í fjármagnstekjuskatt. Verðbréfafyrirtækið tekur 700 þús.kr. í þóknun fyrir að sýsla með eignirnar.
Dæmi 3
Einstaklingur á 100 millj.kr. og ákveður að höndla sjálfur með þá fjárhæð. Eftir allt brask ársins kemur í ljós að ávöxtunin er 13%. Fjármagnstekjur eru því 13 millj.kr. og af þeim eru greiddar 1,3 millj.kr. í fjármagnstekjuskatt.
Í öllum tilvikunum eru þetta einu tekjur einstaklinganna, þeir fá einnig jafn háa ávöxtun og greiða því jafn háan fjármagnstekjuskatt til ríkisins. Þeir leggja hins vegar mismikið á sig til að ná árangri.
Nú kemur að spurningunni góðu, eiga þessir þrír einstaklingar að reikna sér laun vegna þessara fjármagnstekna? Í framhaldinu vakna fleiri spurningar. Hve há eiga launin að vera? Eiga launin að vera ákveðið hlutfall af fjármagnstekjum? Eiga þeir sem kaupa þjónustu af verðbréfafyrirtækjum að reikna sér laun þrátt fyrir að vera þegar búnir að greiða öðrum fyrir vinnuna? Skiptir það máli hvort fjármagnstekjurnar séu tilkomnar vegna viðskipta með verðbréf eða vegna innistæðu á bankareikningi?
Í mínum huga gengur þessi hugmynd ekki upp. Með því að segja að viðkomandi einstaklingar eigi að reikna sér laun vegna fjármagnstekna er í raun verið að segja að um sé að ræða atvinnutekjur en ekki fjármagnstekjur. Þar með gilda almennar reglur um slíka atvinnustarfsemi og um leið fellur hugmyndin um sjálfa sig.
Hugmyndin um að skylda þá sem hafa eingöngu fjármagnstekjur til að reikna sér laun mun einungis flækja skattkerfið okkar ennþá meira - og er það nú nógu flókið fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Vestfjarðanefndin
Það líður að því að nefndin sem skipuð var til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum skili af sér. Nánar til tekið á nefndin að skila tillögum sínum til forsætisráðuneytis fyrir 11. apríl 2007.
Það verður fróðlegt að sjá í hverju tillögur nefndarinnar muni felast, mun nefndin leggja til almennar leiðir til lausnar vandanum eða verður áhersla lögð á sértækar aðgerðir?
Ég vænti þess að vinna nefndarinnar verði árangursrík og eigi eftir að færa okkur Vestfirðingum aukin tækifæri. Það er svo okkar að nýta þau tækifæri okkur til framdráttar.