Neyðarlögin

Ég mætti í spjall á Lífæðinni í seinna fallinu síðastliðið laugardagskvöld. Þetta var lokakvöld Lífæðarinnar og því ærið tilefni til að eiga góða stund með útvarpsstjóranum Tóta Vagns og öðrum aðstandendum útvarpsstöðvarinnar.

Dr. Lýður mætti með kapteininn í hljóðverið og gerði heiðarlega tilraun til að kenna mér að drekka þann gyllta eðaldrykk án þess að út í væri bætt gosdrykkjum. Læknirinn gaf mér einnig loforð um að timburmenn myndu ekki heimsækja mig morgunin eftir ef ég drykki að hans ráðum. Það er óhætt að upplýsa að honum skjátlaðist illilega.

Þar sem ég var nú mættur í hljóðver Lífæðarinnar fannst mér við hæfi að lofa hlustendum að njóta hæfileika minna á sviði tónsmíða og fengu tvö afbragðs lög að heyrast á öldum ljósvakans. Lögin voru af disknum "Neyðarlögin" sem gefinn var út löngu fyrir tíð útrásarvíkinga og Icesave-reikninga.

Sagan á bakvið nafngiftina "Neyðarlögin" er einhvern veginn á þann veg að við könnumst öll við þau augnablik þegar við erum komin með leið á öllu geisladiskasafninu okkar og eigum hreinlega enga góða tónlist til að hlusta á - það er sem sagt orðið neyðarástand á heimilinu. Einmitt þá er rétti tíminn til að setja "Neyðarlögin" í græjurnar og hækka allt í botn. Og viti menn, það þarf ekki að hlusta á nema eitt lag af disknum - valið af handahófi - og þá rennur upp fyrir þér að allir gömlu og útspiluðu geisladiskarnir þínir eru ekki sem verstir og gætu vel dugað í nokkrar hlustanir í viðbót. "Neyðarlögin" geta því komið í góð not á flestum heimilum og endurnýjað lífdaga geisladiskasafna um víða veröld.

Þessar yndisfögru og hámenningarlegu tónsmíðar mínar virtust koma tónlistarspekúlöntum þeim sem staddir voru í hljóðveri Lífæðarinnar verulega á óvart og var það mál manna að e.t.v. væri hér á ferð óuppgötvað undrabarn í tónlistarheiminum.

Því stendur sá sem þetta ritar nú frammi fyrir þeirri áleitnu spurningu hvort hann eigi að leggja pólitíkina á hilluna í skiptum fyrir drauminn um frægð og frama í poppbransanum.

Ætli það sé ekki við hæfi að gefa sér nokkra daga til að íhuga málið og kanna hvort fólk telji að hæfileikum undirritaðs sé betur varið í tónsmíðar eða bæjarpólitíkina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband