Draumahringurinn

Ég hef sjaldan eða aldrei spilað jafn gott golf og í kvöld. Veðrið var mjög gott, milt veður og nær enginn vindur. Þetta var samt ekki alveg löglegur hringur þar sem ég var bara einn að spila og notaðist í flestum tilvikum við styttri teigana. En þar sem þetta var bara æfingahringur þá skiptir það engu máli, mestu máli skiptir að ég hafði gaman af golfinu og sýndi sjálfum mér fram á að ég get spilað frábært golf á góðum degi. Járnahöggin voru svo til óaðfinnanleg í dag, teighöggin með drivernum voru ekki sem best og ég var ekki að gera nein mistök í púttunum.

En svona var spilamennskan í nokkrum orðum.

1. hola: Upphafshöggið hafnaði inn á 2. braut, sló með 8 járni beint á pinna og 4 metra pútt upp að holu tryggði parið.


2. hola: Upphafshöggið lenti rétt utan brautar, fyrir fram sandglompuna hægra megin. Innáhöggið hafnaði í stönginni og boltinn rúllaði út fyrir flötina. Púttaði inn á flötina og þurfti svo 2 pútt til viðbótar til að klára holuna á skolla.


3. hola: Sló fallegt högg beint á pinna með 7 járni og stoppaði boltinn á neðri pallinum en holan var á efri pallinum á flötinni. Púttaði örugglega að holunni og fékk auðvelt par.


4. hola: Tók upphafshöggið með drivernum og endaði boltinn 7-8 metrum frá gríninu, vel vinstra megin í brautinni. Sló létt högg með 7 járni að holunni. Púttaði fyrir fugli en þurfti að sætta mig við par.


5. hola: Sló með fleygjárni inn á flötina, boltinn lenti frekar framarlega og vinstri megin á flötinni. Þurfti að pútta 10-12 metra og náði að tryggja auðvelt par.


6. hola: Upphafshöggið var ekkert sérstakt en var þó inn á braut og stoppaði boltinn um 10 metrum fyrir innan 150 metra hælinn. Ég reyndi að slá inn á flötina með 7 járni en það tókst ekki betur til en svo að boltinn endaði í röffinu hægra megin við brautina, um 10 metrum fyrir utan grínið. Ég átti svo "misheppnað" innáhögg, boltinn flaug lágt en rúllaði svo upp að holu. Ég setti svo meters pútt ofan í fyrir parinu.


7. hola: Upphafshöggið var illa slegið en samt hékk boltinn inn á brautinni þannig að ég átti um 130 metra eftir að flötinni. Tók þá upp 7 járnið og sló inn á flötina. Púttaði 5 metra fyrir fugli en þurfti að sætta mig við parið.


8. hola: Upphafshöggið hafnaði í röffinu milli 7. og 8. brautar, líklega 170-180 metra frá holu. Ég ákvað þá að taka sénsins og freista þess að ná yfir lækinn í 2. höggi. Eftir nokkra umhugsun valdi ég 4 járnið í verkið og höggið heppnaðist vonum framar og endaði boltinn inn á gríni og aðeins 3-4 metrum frá holunni. Ég reyndi að sjálfsögðu við fuglinn en þurfti eins og svo oft áður að sætta mig við parið.


9. hola: Upphafshöggið var þokkalegt en endaði þó í háu grasi vinstra megin í "hólnum". Þá var lítið annað að gera en að taka upp 7 járnið og slá létt högg upp úr grasinu. Því næst tók ég upp 4 járnið og sló fram eftir brautinni og stoppaði boltinn vinstra megin í brautinni, um 60 metra frá flötinni. Innáhöggið var ekki nógu gott en þó hékk boltinn í röffinu í kantum vintra megin við flötina. Ég púttaði upp úr grasinu og í áttina að holunni og átti svo meters pútt fyrir skolla ofan í holuna.

Þessi spilamennska gerir 37 högg eða 2 högg yfir pari vallarins. Nú er bara að vona að ég verði duglegur að spila í sumar og nái að lækka mig eitthvað í forgjöf í sumar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband