Hin döpru vísindi

Hagfræðin var hér áður fyrr kölluð "hin döpru vísindi". Í dag má segja að fiskifræðin hafi tekið við þessum fráhrindandi titli. Á hverju vori bíða Íslendingar eftir enn einni "svörtu skýrslunni" frá Hafrannsóknarstofnun þar sem okkur er sagt að það þurfi að draga stórkostlega úr veiðum til að forðast hrun þorskstofnsins. Okkur hefur verið seld sú hugmynd að það eina sem skili okkur betri tíð til frambúðar sé að herða sultarólina enn frekar. Slíkt er kallað ábyrg fiskveiðistjórnun. Það hvarflar ekki að sérfræðingunum að ólin sé nú þegar of fast hert og að lausnina sé e.t.v. að finna í því að losa um og auka sóknina í þorskstofninn.

Það var mannfjöldakenning hagfræðingsins Malthusar og svartsýn lífsskoðun hans sem varð til þess að hagfræðin fékk á sig stimpilinn "hin döpru vísindi". Mannfjöldakenningin gekk út á fólkfjölgun væru verulegar skorður settar og að "lestir og eymd" takmarki mannfjölda að fæðuframboði. Á grundvelli þessarar kenningar var því m.a. haldið fram að Ísland gæti einungis brauðfætt 50 þúsund manns. Þetta mun hafa verið almenn skoðun erlendra sem innlendra fyrirmanna fyrir um 200 árum síðan. Nú eru Íslendingar rúmlega 300 þúsund talsins og löngu ljóst að sérfræðingar þess tíma höfðu rangt fyrir sér.

Ég hef áhyggjur af því að fiskifræðin standi á veikum grunni í dag. Hingað til hefur verið talið að í lagi sé að veiða árlega 25% af mældum þorskstofni á Íslandsmiðum en nú breytast vísindin allt í einu þannig að einungis er talið að veiða megi 20% af stofninum. Við slíkar breytingar er eðlilegt að líta hlutina gagnrýnum augum og spyrja: Getur ekki alveg eins verið í lagi að veiða 30% af stofninum? Eða eru 15% kannski nærri lagi? Á hverju grundvallast þetta mat eiginlega?

Ég vildi ekki standa í sporum fiskifræðinga í dag. Mér finnst eins og þeir standi frammi fyrir því að kenningarnar sem þeir starfa eftir ganga ekki upp - líkt og raunin varð með mannfjöldakenningu Malthusar á sínum tíma.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, lét eftirfarandi orð falla á Alþingi í vor: "Drengir, sjáiði ekki veisluna!" Ég sé veisluna en sérfræðingarnir á Hafró sjá hana greinilega ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Atli Magnússon

Það sem er kannski verst við ráðgjöf Hafró er að það virðist ekkert standast hjá þeim. Kvótinn hefur ítrekað verið minnkaður "tímabundið" án þess að sá tími hafi nokkur sinni liðið hjá.

Annað hvort vita sérfræðingar Hafró ekkert um það sem þeir eru að spá eða þeir viti það alveg og þeir séu að leiðrétta kvótaráðgjöf gagnvart svindli sem sumir vilja meina að sé mikið og útbreytt. 

Jón Atli Magnússon, 5.6.2007 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband