Stærðfræði

Það þykir eflaust mjög nördalegt að taka þátt í keppni þar sem færni í stærðfræði ræður úrslitum. Á mínum yngri árum þótti ég frekar sterkur í stærðfræðinni og tók m.a. þátt í stærðfræðikeppni framhaldsskólanna og komst þar í úrslit eitt árið. Ég var og er afskaplega stoltur af þessum árangri en því miður dofnaði áhuginn á stærðfræðinni með árunum.

Þegar ég fletti Mogganum í dag fylltist ég stolti því þar sá ég frétt um góðan árangur nemenda í Digranesskóla í norrænni stærðfræðikeppni grunnskólabarna en með fréttinni fylgdi mynd af bróðurdóttur minni, Fríði Halldórsdóttur, sem var ein þeirra sem tók þátt í keppninni. Það sem vakti hvað mesta athygli í verkefni 9. E í Digranesskóla var að þau komust að því að það þarf 100 (80 ára gömul og 23 metra há) eikartré til að búa til parket fyrir íþróttahús sem er 42 x 42 metrar að stærð. 

Þegar Fríður var spurð að því hverju hún þakkaði árangurinn í keppninni var hún með svarið á hreinu - góður stærðfræðikennari gerði gæfumuninn. Það verður seint efast um mikilvægi góðrar stærðfræðikennslu í skólum landsins, ég þekki það af eigin raun að færni í stærðfræði opnar dyrnar að endalausum möguleikum í námi og starfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband