Fjármagnstekjur og atvinnustarfssemi

Að undanförnu hefur verið rætt um hvort skylda eigi einstaklingar sem hafa eingöngu fjármagnstekjur (og þ.a.l. engar launatekjur) til að reikna sér laun líkt og einstaklingar í eigin atvinnurekstri. Um leið þarf að skilgreina við hvaða skilyrði tekjur af fjármagni teljast atvinnustarfssemi. Til að nálgast viðfangsefnið setti ég upp þrjú mismunandi dæmi um hvernig einstaklingar ávaxta jafn háa fjárhæð.

Dæmi 1

Einstaklingur á 100 millj.kr. og ávaxtar þær í almennum innlánum - þ.e. leggur peninginn inn á bók - og fær 13% vexti á ári. Vaxtatekjur eru því 13 millj.kr. og af þeim eru greiddar 1,3 millj.kr. í fjármagnstekjuskatt.

Dæmi 2

Einstaklingur á 100 millj.kr. og felur verðbréfafyrirtæki að sjá um að ávaxta féð. Ársávöxtun verður 13% þannig að fjármagnstekjurnar verða 13 millj.kr. og af þeim greiðast 1,3 millj.kr. í fjármagnstekjuskatt. Verðbréfafyrirtækið tekur 700 þús.kr. í þóknun fyrir að sýsla með eignirnar.

Dæmi 3

Einstaklingur á 100 millj.kr. og ákveður að höndla sjálfur með þá fjárhæð. Eftir allt brask ársins kemur í ljós að ávöxtunin er 13%. Fjármagnstekjur eru því 13 millj.kr. og af þeim eru greiddar 1,3 millj.kr. í fjármagnstekjuskatt.

Í öllum tilvikunum eru þetta einu tekjur einstaklinganna, þeir fá einnig jafn háa ávöxtun og greiða því jafn háan fjármagnstekjuskatt til ríkisins. Þeir leggja hins vegar mismikið á sig til að ná árangri.

Nú kemur að spurningunni góðu, eiga þessir þrír einstaklingar að reikna sér laun vegna þessara fjármagnstekna? Í framhaldinu vakna fleiri spurningar. Hve há eiga launin að vera? Eiga launin að vera ákveðið hlutfall af fjármagnstekjum? Eiga þeir sem kaupa þjónustu af verðbréfafyrirtækjum að reikna sér laun þrátt fyrir að vera þegar búnir að greiða öðrum fyrir vinnuna? Skiptir það máli hvort fjármagnstekjurnar séu tilkomnar vegna viðskipta með verðbréf eða vegna innistæðu á bankareikningi?

Í mínum huga gengur þessi hugmynd ekki upp. Með því að segja að viðkomandi einstaklingar eigi að reikna sér laun vegna fjármagnstekna er í raun verið að segja að um sé að ræða atvinnutekjur en ekki fjármagnstekjur. Þar með gilda almennar reglur um slíka atvinnustarfsemi og um leið fellur hugmyndin um sjálfa sig.

Hugmyndin um að skylda þá sem hafa eingöngu fjármagnstekjur til að reikna sér laun mun einungis flækja skattkerfið okkar ennþá meira - og er það nú nógu flókið fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband