Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Íslandshreyfingin

Ég gaf tölvunni frí yfir páskana og tók fjölskylduna fram yfir internetið. Gaf mér þó tíma í kvöld til að taka smá bloggrúnt til að sjá hvað er í umræðunni þessa dagana. Fyrir tilviljun datt ég inn á heimasíðu Íslandshreyfingarinnar og sökum forvitni minnar smellti ég á hnappinn "Þetta viljum við" og þá kom þetta í ljós...

islandshreyfingin

Þetta þykir mér ansi klaufalegt hjá Ómari og félögum, samkvæmt heimasíðunni vilja þau ekki neitt og það kann ekki góðri lukku að stýra hjá nýju framboði.


Það er ekkert grín að vera svín

Í aðdraganda kosninga virðist sem að fólk leggist oft lágt til að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína. Þessi aðferð þekkist bæði í sveitarstjórnarkosningum og í Alþingiskosningum. Þessa dagana má heyra ýmislegt misjafnt um þá stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis í vor. Til dæmis er einn flokkur sakaður um útlendingahatur og stuðningsmönnum annars flokks er líkt við svín sem grillað er á teini. Það er því eins gott að fólk hafi harðan skráp ætli það sér frama í stjórnmálum því hún getur verið óttaleg tík þessi pólitík.

Fiskistofa til Bolungarvíkur?

Ég skil vel að Hafnfirðingar vilji ekki hafa stórt og ljótt álver í bæjarfélaginu sínu. Mér finnst það líka bera vott um hugrekki að þora að hafna auknum störfum og auknum tekjum bæjarfélagsins af slíkri starfssemi. Í gær kom sem sagt í ljós að það er ekki eftirspurn eftir álveri meðal íbúa Hafnarfjarðar. En framboðið af nýjum álverum virðist vera nægt ef marka má áhyggjur umhverfisverndarsinna. Þá virðist líka vera ljóst að það er eftirspurn eftir álverum hjá íbúum annarra bæjarfélaga á Íslandi. Þar hafa meðal annars verið nefnd bæjarfélögin Húsavík og Reykjanesbær. Eins og á öðrum sviðum hlýtur framboðið að elta eftirspurnina uppi.

Þar sem Hafnfirðingar virðast vera áhugasamir um að kjósa um framtíð einstakra vinnustaða í bæjarfélaginu er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvort Fiskistofa gæti ekki verið næst á dagskrá. Það er þekkt að eitt síðasta verk Hafnfirðingsins Árna M. Mathiesen í starfi sjávarútvegsráðherra hafi verið að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Það er ekki víst að allir Hafnfirðingar hafi verið ánægðir með þessa ákvörðun ráðherra - væri þá nokkuð úr vegi að leyfa þeim að kjósa um hvort þeir vilji þessa starfssemi Fiskistofu í bæjarfélaginu? Ef Hafnfirðingar vilja ekki Fiskistofu þá get ég fullvissað ráðamenn um að Bolvíkingar myndu taka við starfsemi Fiskistofu fegins hendi.

En það er líklega ekki hægt að ætlast til að Hafnfirðingar láti frá sér gullmola á borð við Fiskistofu, starfsemi Fiskistofu telst ekki til stóriðju og mengar umhverfið ekkert. Það er nefnilega svoleiðis starfssemi við þurfum til Bolungarvíkur því Vestfirðir hafa jú gefið sig út fyrir að vera stóriðjulaus landshluti. Við Bolvíkingar getum ekki tekið við álveri en við getum tekið við Fiskistofu - og hvar annars staðar en í elstu verstöð landsins ætti Fiskistofa betur heima?


Norðvesturkjördæmi

Norðvesturkjördæmi var á dagskrá í kosningaumfjöllun Stöðvar 2 í kvöld. Þar sátu oddvitar stjórnmálaflokkana í kjördæminu fyrir svörum. Mér fannst þeir ekkert vera að brillera en það kom mér verulega á óvart hve lítið Jón Bjarnason, sem leiðir lista VG, hafði til málanna að leggja. Þegar hann var spurður um leiðir til aukinnar atvinnusköpunar á Vestfjörðum var hann gjörsamlega innistæðulaus. Ef marka má frammistöðu oddvitanna í kvöld gæti ég trúað að bæði Samfylking og Frjálslyndir eigi eftir að auka við sig á kostnað VG. Svo má reyndar ekki gleyma Íslandshreyfingunni, en heyrst hefur að þar á bæ verði kona í 1. sætinu en slíkt gæti verið sterkur leikur hjá þeim þar sem allir hinir oddvitarnir eru karlkyns.


Opinber störf á Vestfjörðum

Í samanburði við aðra landshluta hafa Vestfirðir orðið undir hvað varðar aukningu í opinberum störfum. Það er því eðlilegt að Vestfirðingar krefjist aukinna opinberra starfa í fjórðungnum. Óháð því hvort við teljum að ríkið sé með of mikla eða of litla starfsemi á sínum snærum, verður það að teljast eðlileg krafa okkar að hið opinbera sé jafn virkur þátttakandi í atvinnulífi á Vestfjörðum og það er í öðrum landshlutum. Við erum ekkert að fara fram á að vera tekin fram fyrir aðra íbúa landsins heldur viljum við einungis fá að standa jafnfætis öðrum landsmönnum hvað opinbera starfsemi varðar.

Ég velti því stundum fyrir mér hvaða raddir eiga eftir að heyrast ef að ríkisstjórnin ákveður að fjölga opinberum störfum á Vestfjörðum. Ef ný störf verða búin til fáum við eflaust þá gagnrýni að verið sé að þenja ríkisbáknið út að óþörfu. En ef störf verða flutt frá t.d. höfuðborgarsvæði til Vestfjarða má búast við þeirri gagnrýni að verið sé að taka af einum til að færa öðrum. Við megum alltaf eiga von á einhverri gagnrýni - hvernig sem fer - en við verðum bara láta það sem vind um eyru þjóta. Við erum í fullum rétti að þessu sinni, hvernig sem á málin er litið.


Efling atvinnulífs á Vestfjörðum - Umhverfisstofnun

Fjórða tillaga okkar sjálfstæðismanna til eflingar atvinnulífs á Vestfjörðum snertir starfsemi Umhverfisstofnunar og Náttúrustofu Vestfjarða. Að gefnu tilefni má geta þess að í okkar huga er það algjört lykilatriði að þær hugmyndir sem fram koma í þeirri vinnu sem nú fer fram á vegum nefndar um eflingu atvinnulífs á Vestfjörðum nýtist ekki eingöngu byggðinni í Skutulsfirði, heldur komi einnig til góða byggðarlögunum í kring.

"Nú stefnir í að Vestfirðir verði eini landshlutinn þar sem ekki verður rekin stóriðja.  Vestfirðir hafa verið að marka sér sérstöðu sem svæði með ósnortna náttúru.   Í 1. gr. laga nr. 90/2002 um Umhverfisstofnun segir:  "Ríkið starfrækir stofnun sem nefnist Umhverfisstofnun. Stofnunin hefur aðsetur á höfuðborgarsvæðinu en getur rekið hluta af starfsemi sinni annars staðar á landinu."

Eðlilegt væri því að skoða hvort ákveðnir þættir í starfsemi Umhverfisstofnunar (UST) ættu ekki heima á Vestfjörðum.    Hér verða ekki talin upp öll þau verkefni sem gætu verið unnin jafnvel í deild á vegum UST á Vestfjörðum.  Í þessu sambandi má þó nefna sem dæmi verkefni sem tengjast náttúruvernd, verkefni tengd friðlöndum og þjóðgörðum landsins.  Benda má á að í Bolungarvík er starfrækt Náttúrustofa Vestfjarða, sem hefur verið á forræði Bolungarvíkurkaupstaðar en er nú að verða samstarfsverkefni sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum.  Þar hafa m.a. verið unnin ýmis verkefni sem lúta að mati á umhverfisáhrifum og rannsóknarvinnu hverskonar svo eitthvað sé nefnt.  Því mætti kanna hvort Náttúrustofa Vestfjarða gæti sinnt þessum verkefnum til viðbótar ákveðnum þáttum í starfsemi UST."


Efling atvinnulífs á Vestfjörðum - Verkefni Ríkisendurskoðunar

Þriðja tillagan okkar til eflingar atvinnulífs á Vestfjörðum tengist verkefnum Ríkisendurskoðunar og er svohljóðandi:

"Í dag sinnir Ríkisendurskoðun ýmsum verkefnum fyrir opinberar stofnanir, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem á landsbyggðinni.  Mörg þessara verkefna gætu auðveldlega verið unnin af einkaaðilum sem gætu sérhæft sig í ákveðnum málaflokkum.

Hægt væri að taka þá stefnumarkandi ákvörðun að jafnan yrði leitað fyrst til aðila utan Reykjavíkursvæðisins með slík verkefni.  Sem dæmi má nefna að á norðanverðum Vestfjörðum eru nú starfandi þrjár endurskoðunarstofur.  Rétt er að benda á að eitt vinsælasta námið í fjarnámi frá Vestfjörðum hefur einmitt verið nám í viðskipta- og rekstrarfræðum og eru því margir á svæðinu með slíka menntun."


Efling atvinnulífs á Vestfjörðum - Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar

Önnur tillaga okkar sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Bolungarvíkur til eflingar atvinnulífs á Vestfjörðum tekur á verkefnum þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar og er á þessa leið:

"Verkefni þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar dreifast á landið og miðin og eru kannski síst bundin þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins.  Það er því eðlilegt að horft sé til þess að staðsetning þyrlusveitarinnar sé ekki bundin við Reykjavík eingöngu.  Auðvelt er að sína fram á að meðalferðatími á slysstað styttist ef þyrlur eru staðsettar á fleiri stöðum á landinu.

Það sem mælir með því sérstaklega að staðsetja þyrlu á Vestfjörðum eru þættir eins og nálægð við fiskimið, þar sem stór floti stundar reglulega veiðar.  Þá er ljóst að erfiðar samgöngur á Vestfjörðum á landi og tímafrekar samgöngur á sjó mæla með því að í neyð séu samgöngur í lofti meira nýttar en nú er t.d. fyrir sjúkraflug frá sunnanverðum Vestfjörðum til Ísafjarðar.  Í raun má ætla að staðsetning þyrlu á Ísafirði gæti orðið til þess að annað sjúkraflug en með þyrlu væri óþarft fyrir Vestfirði, þar sem þyrlan getur jafnan athafnað sig betur við erfiðar aðstæður en sjúkraflugvél.  Augljóst er að eftir sameiningu lögregluumdæma á Vestfjörðum þá getur verið af því hagræði að hægt sé með skömmum fyrirvara að færa til lögreglumenn eða koma þeim á vettvang á hvoru svæðinu sem er, án þess að aka þurfi um ríflega 600 km langan veg.  Það sama gildir um hjálparsveitir á Vestfjörðum sem hafa átt farsælt samstarf við Landhelgisgæsluna.

Reikna má með að um gæti verið að ræða allt að 15 störf sem tengdust því að hafa eina þyrlu staðsetta á Ísafjarðarflugvelli.  Þá má nefna að á Ísafirði er stórt og mikið flugskýli sem að öllum líkindum myndi henta starfseminni vel.

Störf tengd staðsetningu þyrlu á Vestfjörðum gætu að nokkru leyti komið í stað þeirrar fækkunar á störfum sem orðin er vegna minnkandi umsvifa Ratsjárstofnunar."


Efling atvinnulífs á Vestfjörðum - Skattstofan

Á fundi í bæjarráði Bolungarvíkur í morgun kynnti ég tillögur sem aðal- og varabæjarfulltrúar D-listans í bæjarstjórn Bolungarvíkur hafa sent inn til nefndar um eflingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Tillögurnar sem um ræðir eru viðbót við áður framkomnar hugmyndir sem settar voru fram sameiginlega af forráðamönnum sveitarfélaga á Vestfjörðum nýverið og fleiri góðar tillögur sem fram hafa komið í fjölmiðlum.

Fyrsta tillagan snertir eflingu Skattstofunnar í Vestfjarðaumdæmi og er svohljóðandi:

"Skattstjórinn í Vestfjarðaumdæmi (SV), er stofnun sem vinnur úr skattframtölum einstaklinga og fyrirtækja á Vestfjörðum.  Ætla verður að þar sé unnið eftir sömu lögum og reglum og annarsstaðar á landinu.  Þar er því til staðar þekking til að vinna úr framtölum hvaðan sem er á landinu.

Því er lagt til að Skattstofan í Vestfjarðaumdæmi taki að sér aukin verkefni.  Verkefnin verði færð frá Skattstjóranum í Reykjavík (SR).  Stefnt verði að því að strax á þessu ári verði verkefni SV tvöfölduð að umfangi og starfsmönnum fjölgað í samræmi við það.  Á næstu fjórum árum verði stefnt að því að færa alla vinnu vegna skattframtala einstaklinga frá SR til SV.

Ef upp koma hugmyndir um að gera landið að einu skattaumdæmi og vinna öll skattframtöl á einum stað, þá verði sú starfsemi höfð á Ísafirði og í nágrenni.

Ljóst má vera að þetta þýðir breytingar fyrir starfsmenn SR og því nauðsynlegt að huga að því að þeir gangi fyrir í önnur störf sem stofnað er til á vegum ríkisins í Reykjavík.  Það mun þó auðvelda tilfærsluna að skv. könnun Samtaka atvinnulífsins þá er starfsmannavelta í opinbera geiranum nálægt 10% á ári.

Slík starfsemi gæti stutt við væntanlegan Háskóla Vestfjarða á Ísafirði, þar sem vel mætti hugsa sér að koma á fót námi í skattarétti.  Starfsmenn gætu þar með átt þátt í að byggja upp það nám við væntanlegan Háskóla Vestfjarða.

Vissulega fylgir því kostnaður að færa til verkefni.  Á það ber þó að líta að við slíkan flutning losnar húsnæði á dýrasta svæði á Íslandi.  Sala á slíku húsnæði gæti því greitt kostnað við flutninginn og jafnvel meira til."


Íbúaþróun á Vestfjörðum 1901-2006

Fyrir sex árum síðan var ég að skrifa lokaritgerðina mína í viðskiptafræðinni í Háskóla Íslands. Ritgerðin fjallaði um smábátaútgerð á Vestfjörðum og var einn kafli hennar tileinkaður búsetuþróun á Vestfjörðum. Í tengslum við þau skrif safnaði ég ýmsum upplýsingum um íbúaþróun á svæðinu. Sumar þessara upplýsinga hef ég uppfært til dagsins í dag. Það þjónar í sjálfu sér engum sérstökum tilgangi að setja þessar tölur hér fram en ef til verða þær einhverjum til gagns og gamans.

Íbúaþróun á Vestfjörðum 1901-2006

ÁrFjöldi
íbúa
Hlutfall af íbúum
landsins
190112.44715,86%
191013.38615,71%
192013.39714,15%
193013.07112,01%
194012.95310,66%
195011.1667,76%
196010.5075,93%
197010.0504,91%
198010.4794,57%
19909.7983,83%
20008.1502,88%
20067.4702,43%

Taflan hér að ofan ætti að skýra sig að mestu leyti sjálf, ártal er í fyrsta dálkinum því næst kemur mannfjöldi í lok viðkomandi árs og síðasti dálkurinn sýnir hlutfall Vestfirðinga af heildarfjölda íbúa landsins, þ.e. íbúafjöldi á Vestfjörðum deilt með íbúafjölda á Íslandi.

Breytingar á fjölda íbúa á Vestfjörðum 1901-2006

TímabilBreyting á tímabiliHlutfallsleg breyting
1901-19109397,54%
1910-1920110,08%
1920-1930-326-2,43%
1930-1940-118-0,90%
1940-1950-1.787-13,80%
1950-1960-659-5,90%
1960-1970-457-4,35%
1970-19804294,27%
1980-1990-681-6,50%
1990-2000-1.648-16,82%
2000-2006-680-8,34%

Í töflunni hér að ofan er tekin út breyting á íbúafjölda á Vestfjörðum yfir gefin tímabil. Þar má sjá að Vestfirðingum fjölgar fyrstu tvo áratugi 20. aldar en svo fer að halla undan fæti og á 5. áratugnum fækkar íbúum fjórðungsins verulega eða að jafnaði um nærri 180 manns á ári. Næstu tvo áratugi heldur Vestfirðingum áfram að fækka en aðeins hægar en á 5. áratugnum. Á 8. áratugnum var mikil uppsveifla í sjávarþorpum Vestfjarða og skilaði það sér í fólksfjölgun milli áranna 1970 og 1980. En síðan þá hefur íbúum Vestfjarðakjálkans fækkað verulega, 10. áratugurinn var sérstaklega slæmur en þá fækkaði Vestfirðingum um tæp 17%. Frá árinu 2000 hefur hins vegar hægt á fækkuninni en við viljum auðvitað snúa þessari þróun við og fara að sjá jákvæðar tölur á 21. öldinni.

Samantektin hér að ofan byggist á á bláköldum staðreyndum, þetta er fortíð sem við getum ekki flúið. Verkefni okkar er hins vegar að sjá til þess að framtíðin verði á öðrum og jákvæðari nótum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband