Efling atvinnulífs á Vestfjörðum - Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar

Önnur tillaga okkar sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Bolungarvíkur til eflingar atvinnulífs á Vestfjörðum tekur á verkefnum þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar og er á þessa leið:

"Verkefni þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar dreifast á landið og miðin og eru kannski síst bundin þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins.  Það er því eðlilegt að horft sé til þess að staðsetning þyrlusveitarinnar sé ekki bundin við Reykjavík eingöngu.  Auðvelt er að sína fram á að meðalferðatími á slysstað styttist ef þyrlur eru staðsettar á fleiri stöðum á landinu.

Það sem mælir með því sérstaklega að staðsetja þyrlu á Vestfjörðum eru þættir eins og nálægð við fiskimið, þar sem stór floti stundar reglulega veiðar.  Þá er ljóst að erfiðar samgöngur á Vestfjörðum á landi og tímafrekar samgöngur á sjó mæla með því að í neyð séu samgöngur í lofti meira nýttar en nú er t.d. fyrir sjúkraflug frá sunnanverðum Vestfjörðum til Ísafjarðar.  Í raun má ætla að staðsetning þyrlu á Ísafirði gæti orðið til þess að annað sjúkraflug en með þyrlu væri óþarft fyrir Vestfirði, þar sem þyrlan getur jafnan athafnað sig betur við erfiðar aðstæður en sjúkraflugvél.  Augljóst er að eftir sameiningu lögregluumdæma á Vestfjörðum þá getur verið af því hagræði að hægt sé með skömmum fyrirvara að færa til lögreglumenn eða koma þeim á vettvang á hvoru svæðinu sem er, án þess að aka þurfi um ríflega 600 km langan veg.  Það sama gildir um hjálparsveitir á Vestfjörðum sem hafa átt farsælt samstarf við Landhelgisgæsluna.

Reikna má með að um gæti verið að ræða allt að 15 störf sem tengdust því að hafa eina þyrlu staðsetta á Ísafjarðarflugvelli.  Þá má nefna að á Ísafirði er stórt og mikið flugskýli sem að öllum líkindum myndi henta starfseminni vel.

Störf tengd staðsetningu þyrlu á Vestfjörðum gætu að nokkru leyti komið í stað þeirrar fækkunar á störfum sem orðin er vegna minnkandi umsvifa Ratsjárstofnunar."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband