Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Byggðamál

Byggðamál hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni hér á Vestfjörðum að undanförnu. Þessi umræða er eðlileg enda hefur íbúaþróun á Vestfjörðum verið neikvæð undanfarin ár. Í hinum ýmsu skýrslum hafa verið nefndar mögulegar ástæður þessarar þróunar og sýnist þá sitt hverjum. Margir kenna kvótakerfinu og ríkisstjórnum síðustu ára um slæma stöðu Vestfjarða en aðrir telja að þróunin sé aðeins hluti af almennum breytingum á atvinnuháttum landsmanna, þ.e.a.s. breytingum úr frumvinnslu yfir í úrvinnslu og þjónustu. Fleiri áhrifaþættir hafa einnig verið nefndir sem ástæður búsetuþróunar síðustu ára en það er of langt mál að fara út í þá þætti að þessu sinni.

Við Vestfirðingar eigum okkur sameiginlegt markmið, við viljum treysta byggð á Vestfjörðum. Okkur getur þó greint á um hvaða leiðir við viljum fara til að ná markmiðinu. Ég vil leita nýrra leiða til að ná þessu markmiði, þar er þörf á nýrri hugsun – við þurfum að nálgast viðfangsefnin frá öðrum sjónarhornum en áður.

Við megum ekki einblína of mikið á fortíðina ef við ætlum að breyta þróun mála hér á Vestfjörðum. Það er ekki víst að í orsökum fólksfækkunar felist lausnir sem leiða til fólksfjölgunar. Sumir halda því fram að hægt sé að leysa megi vanda Vestfjarða að hluta til með auknum byggðakvóta í stað þeirra aflaheimilda sem seldar hafa verið af svæðinu. Ég trúi ekki á slíkar lausnir og vísa þar meðal annars til reynslu okkar Bolvíkinga af kvótamálum. Héðan fór kvótinn og fólki fækkaði, hingað var keyptur kvóti en fólki hélt áfram að fækka.

Það kannast líklega flestir við þær raddir að útgjöldum ríkisins eigi að skipta niður á svæði miðað við höfðatölu. Það ætti engum að koma á óvart að slíkar raddir koma yfirleitt frá þéttbýlasta svæði landsins. Á sama tíma vill enginn kannast við að skipta beri tekjum ríkisins eftir sama mælikvarða. Það væri til dæmis fróðlegt að sjá hve miklu Vestfirðingar hafa skilað til samfélagsins í gegnum tíðina, ég hugsa að við getum borið höfuðið hátt í þeim efnum. Slíkir talnaleikir skila okkur að öllum líkindum réttlætingu á því að hið opinbera eigi að verja ákveðnum hluta hinnar svokölluðu samneyslu innan Vestfjarðakjálkans. Það er svo alltaf spurning hve stór sá hluti eigi að vera. Aftur á móti er það eðlileg krafa okkar að ríkið sé jafn virkur þátttakandi í atvinnulífi á Vestfjörðum og það er í öðrum landshlutum. Á grundvelli þessa ætti engan að undra að við förum fram á fjölgun opinberra starfa á Vestfjörðum.

Það er af mörgu að taka þegar umræða um byggðamál og Vestfirði er annars vegar, atriðin hér að ofan eru aðeins hluti þess sem ég hef fram að færa í þessum efnum. Ég læt þetta hins vegar nægja að sinni en get lofað að ég hef ekki sagt mitt síðasta orð um byggðamál.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband