Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 5. maí 2007
Islantilla: Dagur átta
Eftir að hafa spilað vel í golfinu síðustu daga kom auðvitað einn slæmur dagur í gær. Texas Scramble leikurinn gekk ekki nógu vel og ég þarf ekkert að hafa áhyggjur af því að komast á verðlaunapall í þetta skiptið.
Þegar illa gengur er oft gott að fara á æfingasvæðið og reyna að finna taktinn aftur. Það gerði ég í gær með þeim árangri að síðustu 9 holurnar (10-18) fór ég á 45 höggum og fékk 4 pör, 3 skramba og 1 sprengju.
Í dag fengum við að sofa út en íslenski hópurinn á ekki rástíma fyrr en eftir hádegið. Það verða því aðeins leiknar 18 holur í dag og mun ég spila holur 1-9 og 19-27 að þessu sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Islantilla: Dagur sjö
Dagurinn í dag var alveg magnaður og ég var að brillera í golfinu. Í morgunsárið héldum við yfir landamærin til Portúgal og tókum þar 18 holur á Quinta da Cima golfvellinum. Ég lék á 96 höggum - 72 með forgjöf - og fékk 36 punkta, þ.a. ég var alveg við það að lækka mig í forgjöf.
Quinta da Cima golfvöllurinn þykir erfiður sökum þess hve langur hann er en hann er þó frekar flatur þannig að hann er auðveldur yfirferðar. Þá eru óteljandi sandgryfjur á vellinum, líklega um 7-10 að meðaltali á hverri braut. Grínin eru með miklu landslagi auk þess að vera mjög hröð en mér finnst alltaf spennandi að spila við slíkar aðstæður.
Ég spilaði fyrri 9 holurnar á 49 höggum en hóf seinni 9 með miklum látum, fékk fyrst par, svo skolla og loks fugl á 12. holu sem er 450 metra löng par 5 hola. Þriðji fuglinn í ferðinni er sem sagt kominn í hús. Skorið á seinni 9 var 47 högg og hefði vel getað orðið lægra ef ég hefði ekki misst taktinn á síðustu þremur holunum.
Eftir frægðarförina til Portúgals voru leiknar 9 holur (10-18) hér á Islantilla. Mér gekk bölvanlega til að byrja með og var kominn með 22 högg eftir aðeins 3 holur. Síðustu 6 holurnar lék ég á 26 höggum (3 pör og 3 skollar) og endaði því á 48 höggum. Skorið er allt að batna hjá mér og gefur það mér góðar vonir fyrir golfsumarið á Íslandi.
Á morgun verður svokölluð "hjóna-, para- og hommakeppni" en þar verður leikinn hefðbundinn Texas Scramble. Að sjálfsögðu stefni ég á sigur á morgun og ætla að leggja mig allan fram til að svo geti orðið.
Að lokum get ég glatt ykkur með því að ég er loksins að taka einhvern lit hérna úti í sólinni. Liturinn er þó ekkert sérstaklega brúnn en ég get allavega sagt að bláa höndin sé heldur betur farin að roðna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 2. maí 2007
Islantilla: Dagur sex
Fyrstu 6 holurnar voru ansi blautar í dag en á 7. holu stytti loksins upp. Spilamennskan hjá mér var frekar óstöðug í dag enda aðstæður ekki upp á það besta en þó náði ég að spila á 98 höggum. Fyrri hringinn fór ég á 49 höggum og fékk þá 2 pör en seinni hringinn fór ég einnig á 49 höggum en var þá með 3 pör. Það var sem sagt enginn fugl hjá mér í dag þrátt fyrir nokkra sénsa.
Á morgun verður haldið til Portúgals og leikið á Quinta de Cima vellinum sem mun vera mjör erfiður og er rúmlega 6 km af gulum teigum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 2. maí 2007
Islantilla: Dagur fimm
Golfið var upp á sitt besta hjá mér í gær, það gekk eiginlega allt upp hjá mér. Drævin voru í flestum tilfellum yfir 200 metrana og þar að auki þráðbein og á braut. Það er nefnilega mikilvægt að hitta brautirnar hér á Islantilla því annars er maður bara út í skógi. Járnahöggin og stutta spilið eru að batna og púttin eru alveg í lagi.
Ég gekk 27 holur í gær og er farinn að sjá að ég spila mikið betur gangandi heldur en þegar ég er á golfbíl. Fyrstu 18 holurnar í gær voru Texas Scramble holukeppni sem gekk mjög vel og vannst 3/2. Við spiluðum 19.-27. holu og 1.-9. holu og gerði ég út um leikinn með fugli (þar sem ég átti öll höggin sjálfur) á 6. holu þar sem við komumst 3 holum yfir, svo féll 7. holan og þá var sigurinn í höfn.
Síðustu 9 holurnar (10.-18. hola) voru leiknar í punktakeppni. Ég held að þar hafi ég spilað minn besta hring á Islantilla til þessa en ég var á 44 höggum eða 20 punktum. Skorið samanstóð af 3 skrömbum, 3 skollum, 2 pörum og einum fugli sem kom á 17. holu.
Ég fékk sem sagt tvo fugla í dag og þar með er öðru markmiði ferðarinnar náð, nú á ég aðeins eftir að spila 18 holur á innan við 100 höggum. Ef spilamennskan verður í sama klassa og í gær er næsta víst að ég nái því markmiði.
Pistilinn byrjaði á umfjöllun um leik Liverpool og Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildinnar og er við hæfi að enda á sömu nótum. Það er skemmst frá því að segja að leiknum lauk með glæsilegum sigri Liverpool og því munu strákarnir frá Bítlaborginni leika um Evrópumeistaratitilinn við annað hvort Manchester United eða AC Milan sem eigast einmitt við í kvöld. Ég mun halda með Manchester United í kvöld en það er ekki á hverjum degi sem slíkt gerist. Ástæðan er ekki sú að ég telji að Man.Utd. sé auðveldari andstæðingur en AC Mílan, heldur að það verður mikið skemmtilegra að vinna erkifjendurnar frá Manchester heldur en súkkulaðistrákana frá Mílanó. Hins vegar væri mér alveg sama fyrir hvoru liðinu við myndum tapa.
Það er nóg komið af monti frá mér í dag og þessi pistill orðin nógu langur. Það rignir hér í dag og er golfvöllurinn lokaður a.m.k. fram að hádegi. Þetta eru engar smáskúrir eins og við þekkjum fyrir vestan heldur er hér um að ræða svokallað skýfall eða hellidemba. Ég er frekar svartsýnn á að okkur verði hleypt út á völlinn í dag. Á morgun er á dagskránni að fara til Portúgals og spila á Quinta de Cima golfvellinum - vonandi verður þá búið að stytta upp.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. apríl 2007
Islantilla: Dagur fjögur
Afmælismót Rikka Há var í dag þar sem leikinn var 4 manna Texas Scramble. Strax á fyrstu holu kom í ljós að það var góður andi í mínu liði. Við náðum pari á fyrstu tveimur holunum en fyrsti fugl dagsins leit dagsins ljós á 3. holu. Nætu þrjár holur voru leiknar á pari en á 7. og 8. holu komu tveir fuglar, sá seinni var afar glæsilegur en þá munaði minnstu að liðstjórinn okkar færi holu í höggi. 9. holu fórum við á pari þannig að eftir fyrri hringinn vorum við á 3 undir pari. Seinni hringurinn byrjaði á fugli á 10. braut en svo tóku við 3 pör í röð. Næsti fugl kom á 14. braut en eini skolli dagsins var á 15. braut og var það algjör klaufaskapur. Síðustu 3 holurnar voru leiknar á pari þannig að við enduðum á 4 undir pari eða 9 undir pari með forgjöfinni og dugði það til sigurs.
Eftir mótið spilaði ég 9 holu til viðbótar með Olla, Eygló og Grími, ég spilaði ágætlega að frátaldri slæmri byrjun á fyrstu þremur holunum. Púttin duttu loksins og drævin voru upp á sitt besta. Ég endaði á 49 höggum en Grímur var á 48 og Olli á 50 höggum.
Eftir að hafa gengið 27 holur í dag var gott að komast á Mandarin veitingastaðinn í Lepe, maturinn þar er ávallt góður og á mjög góðu verði. Í kvöld kostaði fyrsta flokks 6 rétta máltíð með fordrykk, borðvíni og þjórfé aðeins 20 evrur á mann eða um 1.800 krónur... sem er í raun algjör brandari.
Á morgun tekur við hefðbundinn höggleikur og verða væntalega leiknar 27 holur. Annað kvöld er svo frátekið fyrir Meistaradeildina í fótbolta þar sem Liverpool tekur á móti Chelsea... það verður leikur sem tekur á taugarnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Á Spáni er gott að djamma og djúsa
Fyrir rúmlega ári síðan hélt ég upp á þritugsafmæli mitt hér á Islantilla á Spáni. Tímamótunum var að sjálfsögðu fagnað að vestfirskum hætti - með djammi og djörfum dansi. Það sem var eftirminnilegast frá þesum hátíðarhöldum var fræg gönguferð frá Lepe til Islantilla. Hér er endurbirt ársgömul frásögn af gönguferðinni...
Ég held ég gangi heim
Ég fór ásamt félögum mínum í ansi skemmtilega ferð á djammið í bænum Lepe á meðan ég var á Islantilla. Við þurftum að taka leigubíl frá hótelinu á Islantilla yfir til Lepe og á þessum slóðum þarf maður að panta bílinn báðar leiðir ef maður ætlar sér að fá far tilbaka því það er ekki boðið upp á leigubílaþjónustu að næturlagi. Leigubílstjórinn keyrði okkur að besta diskótekinu í bænum sem mig minnir að hafi heitið "Habinas" og við báðum um að verða sóttir aftur klukkan þrjú.
Það er skemmst frá því að segja að ég skemmti mér konunglega á Habinas diskótekinu og var auðvitað eins og kóngur í ríki mínu á dansgólfinu umkringdur spænskum senjorítum ;o) Þegar klukkan var orðin þrjú var ég ekkert á því að fara heim en að lokum náði Stjáni að draga mig útaf dansgólfinu og útaf af diskótekinu. Þegar út var komið var farið að tékka á leigubíla málunum og auðvitað var engan leigubíl að fá. Þá voru góð ráð dýr. Ég var fljótur að sjá lausn á vandunum, ég ætlaði bara að ganga heim á hótel. Ég sannfærði Stjána um að þetta væri ekki nema svona 10-15 mínúta göngutúr og við héldum af stað. Það hefur eflaust verið fyndið að sjá okkur á röltinu þarna í vegarkantinum á myrkvuðum þjóðvegi "in the middle of nowhere". Þegar upp var staðið varð þetta rúmlega eins og hálftíma göngutúr og ég held að Stjáni blóti mér enn fyrir þessa vitleysu.
Það var auðvitað mikið hlegið að okkur daginn eftir en ég var nú bara stoltur af því að hafa gert þetta, maður leggur nú ýmislegt á sig til að komast á gott diskótek ;o) Eftir þessa frægðarför fékk ég gamalt íslenskt popplag á heilann og ég held að það eigi bara vel við í þessu tilfelli....
Þetta er búið að vera eitt brjálæðislegt geim.
Ég held ég gangi heim, held ég gangi heim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Islantilla - Dagur þrjú
Eftir að hafa verið á golfbíl fyrsta daginn var kominn tími til að ganga í dag. Ég gekk 18 holur í hitanum og það tók verulega á enda er Islantilla völlurinn erfiður fyrir gangandi kylfinga vegna mikils hæðarmismuns og langra vegalengda milli teiga. Ég hef líklega ekki gengið jafn mikið á Spáni frá því að ég gekk frá diskótekinu í Lepe til Islantilla fyrir rösku ári síðan.
Ég spilaði 4. holuna á 6 höggum í dag en 4 högganna voru með pútternum. Það var samt ekki svo gott að ég hafi verið á 2 höggum inn á grini heldur var ég út í skógi þegar kom að því að taka þriðja höggið. Það er nefnilega stundum nauðsynlegt að halda boltanum niðri þegar slegið er út á milli trjána og þá koma pútterinn og driverinn oft að góðum notum. En slíkt var einnig upp á teningnum á 5. braut en þar átti ég fullkomið upphafshögg, þráðbeint högg sem endaði þó fyrir framan tré. Það voru 150 metrar að grini og ljóst að ég gæti ekki náð að lyfta boltanum yfir tréð. Því tók ég driverinn upp og náði að rúlla boltanum alveg upp að gríni - reyndar endaði hann í bunkernum vinstra megin við flötina en það kom ekki að sök, ég átti gott högg inn á flötina og reddaði mér á skolla.
Ég var víst búinn að lofa skorum hér í dag, því miður var erfitt að fá menn til að skila inn skortkortum - líklega vegna of hárra talna því mig grunar að enginn hafi verið í tveggja stafa tölu dag. Einn fugl kom þó í dag en hann kom í hlut Svenna.
Á morgun er 50 ára afmælismót Ríkharðs Hrafnkelssonar en hann er formaður Golfklúbbsins Mostra í Stykkishólmi. Að þessu sinni er leikinn 4 manna Texas Scramble og mér skilst að ég sé í sigurstranglegu liði þar sem liðstjórinn minn er 12 ára gamall Borgnesingur, Bjarki Pétursson, sem er mjög efnilegur kylfingur. Bjarki er með 12 í forgjöf og var klúbbmeistari í Borgarnesi á siðasta ári og er til alls líklegur á Islantilla í ár. Við munum spila til sigurs á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 28. apríl 2007
Islantilla: Dagur tvö
Það var sól og blíða á Islantilla í dag. Þó var frekar svalt fyrst í morgun og á köflum var töluverð hreyfing á logninu. Völlurinn hefur aldrei verið betri frá því ég fór að sækja Islantilla heim og eru það hrein forréttindi að fá að spila golf við svo góðar aðstæður.
Þrátt fyrir að spilamennskan hjá mér hafi ekki verið eins og hún gerist best get ég fullyrt að þetta er besti "fyrsti dagur" hjá mér til þessa. Það var ekki að sjá að ég hefði ekki snert golfkylfu í marga mánaði þegar ég sló fyrsta höggið af 10. teig kl. 8.48 í morgun.
Einn fugl leit dagsins ljós í dag og það var Grímur sem fékk hann á 15. braut þegar hann setti niður 10 metra pútt. Frekari upplýsingar um skorið hjá okkur verða birtar á morgun.
Þegar ég horfi tilbaka og met spilamennsku dagsins hjá mér má segja að eftirfarandi setning eigi vel við: "Það er betra að vera dautt ljón en lifandi hundur" - það var sem sagt ekkert skynsemisgolf spilað í dag.
Það er rástími hjá mér kl. 10.10 í fyrramálið og þar fæ ég að spila með einum fyrrverandi Íslandsmeistara í golfi... ég vona að hann geti gefið mér einhver ráð sem geta bætt spilamennskuna hjá mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. apríl 2007
Islantilla: Fyrsti dagurinn
Það er föstudagurinn 27. apríl í dag og ég er kominn til Spánar, nánar til tekið er ég staddur í smábænum Islantilla í Andalúsíu. Þar sem flugið var frekar seint í dag þá gafst ekki tími til að spila golf í sólarblíðunni sem heilsaði okkur á Spáni í dag. Þó er hægt að hugga sig við að rástími er kl. 8.48 í fyrramálið (kl. 6.48 að íslenskum tíma!) þannig að það má búast við góðum skammti af golfi á morgun.
Það sem einkenndi daginn í dag var að ég þekkti ótrúlega marga í Leifsstöð í dag. Allir áttu það sammerkt að vera á leiðinni í golf, flestir voru á leiðinni til Spánar en aðrir voru á leiðinni til Svíþjóðar eða Lúxemborg.
Það fyrsta sem gert var við komuna til Islantilla var að heilsa upp á Enrique á hótelbarnum og panta hjá honum tvöfaldan gin í fanta lemon sem er afar svalandi drykkur. Ekki veitir af í öllum hitanum.
Það hefur verið skorað á mig að birta hér einhverjar tölur yfir skor manna í ferðinni. Mér finnst það lítið mál þó ég geti ekki lofað daglegum fréttum af gangi máli. Það væri eflaust ágætis tilbreyting frá stöðugum fregnum af fylgi stjórnmálaflokkanna í skoðanakönnunum. Eitt af því góða við Islantilla er að hér er enginn að hugsa um pólitík, hér er það golfið sem á hug allra...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 27. apríl 2007
Blómlegri Bolungarvík
Mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar ég las Moggann í gær. Þar var m.a. auglýsing frá SPRON sem bar yfirskriftina "Blómlegri dalir" þar sem hálf síðan var lögð undir fallega mynd frá Bolungarvík. Þar var Hóllinn okkar í aðalhlutverki en einnig mátti sjá Hólsána og sóleyjar þar í kring auk sjálfrar Hólskirkju sem skartar ætíð sínu fegursta á fögrum sumardögum.
Ég velti fyrir mér í framhaldinu hvaða augum gestir líta Bolungarvík, er þetta blómleg byggð eða algjört krummaskuð? Í mínum augum er Bolungarvík frábært bæjarfélag sem getur þó alltaf orðið betra. Í augum gesta virðist sem Bolungarvík sé blómleg byggð - ég vona að heimamenn taki undir það og hafi trú á samfélaginu okkar. Það er lykillinn að blómlegri Bolungarvík í framtíðinni.
En að öðru... í fyrramálið held ég til Islantilla á Spáni þar sem ég ætla að spila golf í góðra vina hópi næstu 10 dagana. Ég vonast til að geta fært ykkur ferskar fréttir af gangi mála að kvöldi hvers dags... en ég lofa engu.
Kærar kveðjur úr Kópavoginum...
...p.s. það er gott að búa í Kópavogi en það er miklu betra að búa í Bolungarvík!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)