Islantilla - Dagur þrjú

Ég lærði mikið á golfvellinum í dag. Fyrst og fremst áttaði ég mig á því að slæm ákvarðanataka getur skipt sköpum í golfinu. Góð ráð frá hinum reynslumikla Sigurði Albertssyni bættu spilamennskuna mína þó það dyggði ekki til þess að ég brilleraði í dag.

Eftir að hafa verið á golfbíl fyrsta daginn var kominn tími til að ganga í dag. Ég gekk 18 holur í hitanum og það tók verulega á enda er Islantilla völlurinn erfiður fyrir gangandi kylfinga vegna mikils hæðarmismuns og langra vegalengda milli teiga. Ég hef líklega ekki gengið jafn mikið á Spáni frá því að ég gekk frá diskótekinu í Lepe til Islantilla fyrir rösku ári síðan.

Ég spilaði 4. holuna á 6 höggum í dag en 4 högganna voru með pútternum. Það var samt ekki svo gott að ég hafi verið á 2 höggum inn á grini heldur var ég út í skógi þegar kom að því að taka þriðja höggið. Það er nefnilega stundum nauðsynlegt að halda boltanum niðri þegar slegið er út á milli trjána og þá koma pútterinn og driverinn oft að góðum notum. En slíkt var einnig upp á teningnum á 5. braut en þar átti ég fullkomið upphafshögg, þráðbeint högg sem endaði þó fyrir framan tré. Það voru 150 metrar að grini og ljóst að ég gæti ekki náð að lyfta boltanum yfir tréð. Því tók ég driverinn upp og náði að rúlla boltanum alveg upp að gríni - reyndar endaði hann í bunkernum vinstra megin við flötina en það kom ekki að sök, ég átti gott högg inn á flötina og reddaði mér á skolla.

Ég var víst búinn að lofa skorum hér í dag, því miður var erfitt að fá menn til að skila inn skortkortum - líklega vegna of hárra talna því mig grunar að enginn hafi verið í tveggja stafa tölu dag. Einn fugl kom þó í dag en hann kom í hlut Svenna.

Á morgun er 50 ára afmælismót Ríkharðs Hrafnkelssonar en hann er formaður Golfklúbbsins Mostra í Stykkishólmi. Að þessu sinni er leikinn 4 manna Texas Scramble og mér skilst að ég sé í sigurstranglegu liði þar sem liðstjórinn minn er 12 ára gamall Borgnesingur, Bjarki Pétursson, sem er mjög efnilegur kylfingur. Bjarki er með 12 í forgjöf og var klúbbmeistari í Borgarnesi á siðasta ári og er til alls líklegur á Islantilla í ár. Við munum spila til sigurs á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband