Sunnudagur, 18. mars 2007
Heimilisstörfin og orlof húsmæðra
Eftir að hafa þurft að dveljast heima í nokkra daga vegna veikinda var mér farið að leiðast að geta ekki gert eitthvað gagn. Ég tók mig því til og þreif húsið hátt og lágt um helgina og kórónaði dugnaðinn með kökubakstri. Þrátt fyrir að mér þyki nokkuð tl þess koma að vera duglegur í húsverkunum eru þetta einungis venjuleg störf húsmæðra, þeim finnst ekkert tiltökumál að sinna slíkum verkum á degi hverjum. Ég ber mikla virðingu fyrir húsmæðrum, þær eiga lof skilið fyrir ómælt vinnuframlag á heimilum þessa lands í gegnum tíðina.
Í framhaldi af orðum mínum hér að ofan um heimilisstörfin má geta þess að til er nokkuð sem heitir orlof húsmæðra en til slíkra orlofa greiða sveitarfélög árlega að lágmarki 100 krónur á hvern íbúa í sveitarfélaginu. Þannig greiðir til að mynda Bolungarvíkurkaupstaður rúmlega 90 þúsund krónur á ári til orlofa húsmæðra. Þó svo að þetta sé ekki há fjárhæð í rekstrarreikningi bæjarfélagsins fannst mér ástæða til að ræða þennan lið sérstaklega í sambandi við fjárhagsáætlunargerðina hjá okkur í desember.
Mér fannst sérstakt að bæjarfélagið væri að leggja fjármuni í orlof húsmæðra því ég sá engan lið þar sem fjármunir voru lagðir í orlof húsfeðra. Á tímum háværar umræðu um jafnrétti kynjanna og breyttrar verkaskiptingu á heimilum finnst mér skrítið að ekki væri veitt fjármunum til orlofs beggja kynja.
Yfirstandandi þingi er nýlokið og því ekki hægt að breyta lögum nr. 53/1972 um orlof húsmæðra að sinni en ég vænti þess að þeir þingmenn sem kjörnir verða til setu á Alþingi nú í maí taki þessi til endurskoðunar sem allra fyrst.
Fyrsta skrefið væri að breyta heiti laganna yfir í "lög um orlof húsmæðra og húsfeðra". Þá þyrfti að breyta nokkrum lagagreinum til að gæta jafnréttis kynjanna, til dæmis væri ekki úr vegi að kveða á um að í orlofsnefndum skuli eftir fremsta megni hafa jöfn hlutföll kynjanna. Það þarf einnig að breyta 6. grein laganna þar sem í stað "Sérhver kona..." kæmi "Sérhver karl eða kona..." Sömu sögu er að segja af 7. greininni en þær leiðréttingar skýra sig sjálfar.
Ég vil sem sagt að jafnréttis sé gætt frá báðum hliðum, það sem einungis hefur verið karla verði einnig kvenna og það sem einungis hefur verið kvenna verði einnig karla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 18. mars 2007
Örnefnasögur - Morðingjamýri
Það eru til margar sögur á bakvið örnefni í landi Bolungarvíkur eða hins forna Hólshrepps. Sumar þessara örnefnasagna hafa áður birst á www.vikari.is og verða aftur birtar hér. Einhvers staðar stendur að góð vísa sé aldrei of oft kveðin og mér finnst það eiga við í þessu tilviki. Fyrsta örnefnasagan er uppáhaldssagan mín - Morðingjamýri.
Neðan undir Hnjúkum er mýrarblettur sem áður var mjög blautur og djúp kelda eða dý í honum miðjum. Þegar ránsmennirnir komu að mýrinni, lögðu þeir þegar hiklaust yfir hana og vissu sér enga hættu búna af því. En er þeir komu að dýinu, sem var stærra og dýpra en þeir höfðu ætlað, misstu þeir kúna niður í það. Reyndu þeir þá að ná henni upp úr, en þá tókst ekki betur til en svo, að þeir sukku sjálfir í dýið ásamt kúnni og festust svo í leirleðju að þeir gátu með engu móti losað sig. Sigu þeir æ dýpra niður í leðjuna unz þeir voru komnir í kaf og létu þar líf sitt. Rættist þannig spá ekkjunnar, að þeim mundi lítið lán verða að verknaði sínum. En mýrin heitir síðan Morðingjamýri.
Nú er mýri þessi þurr orðin. Var hún ræst fram, niður í djúpa laut, sem er niður undan henni, og þurrkuð upp. Og um skeið var tekinn þar upp mór.
Sunnudagur, 18. mars 2007
Blogg á bb.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 18. mars 2007
Ferðasaga í máli og myndum
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18. mars 2007
Skatturinn
Þessa dagana er hinn árlegi tími skattframtala. Á undanförnum árum hefur orðið jákvæð þróun í því hve mikið af upplýsingum er forskráð á framtölin en slíkar forskráningar eiga að auðvelda almenningi að gera skattaskýrsluna. Það er gott og vel en samfara þessari þróun hafa skattayfirvöld staðið í átaki í því að minnka útsendan pappír. Það hljómar ef til vill vel en mér finnst orðið full langt gengið í þeim efnum hjá skattinum.
Við höfum alist upp við að fá sjálf skattframtölin send í pósti, framan af voru skattframtölin fyllt út og send skattayfirvöldum með undirskrift viðkomandi aðila. Síðar gafst okkur tækifæri á að fylla skattframtölin út á netinu, það var kærkominn valmöguleiki fyrir marga og í framhaldinu gátu þeir sem skiluðu rafrænt valið um hvort þeir vildu fá skattframtöl send á næsta ári.
Á sama tíma komu til svokallaðir veflyklar sem úthlutað var til netskila. Fyrst í stað var úthlutað nýjum veflykli á hverju ári en síðar gat almenningur búið sér til varanlega veflykla að eigin vali. Gulrótin var að með varanlegu veflykli gæti viðkomandi nálgast ítarlegri upplýsingar um sín mál á þjónustusíðu Ríkisskattstjóra.
Fyrir ári síðan virðist sem skattayfirvöld hafi teygt sig aðeins og langt í tengslum við rafrænu skilin. Þá var ákveðið að allir þeir sem skiluðu skattframtali rafrænt skyldu ekki fá sent framtalseyðublöð í ár - þar var ekkert val í boði. Jafnframt var ákveðið að senda þeim sem væru með varanlegan veflykil ekki nokkurn skapaðan hlut í tengslum við framtalsskilin í ár.
Þau vandamál sem strax hafa komið upp eru til dæmis:
- Varanlegir veflyklar falla í gleymsku - venjulegur borgari þarf aðeins einu sinni á ári að nota veflykilinn og er því mjög auðvelt að gleyma slíkum lykilorðum sem notuð er sjaldan. Þetta kostar óþarfa umstang sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir.
- Einstaklingur vill hætta að telja fram rafrænt - það eru ekkert allir sem hafa aðgang að tölvu, ég hef til dæmis gert framtölin fyrir foreldra mína undanfarin ár en nú vilja þau e.t.v. sjá um þessi mál sjálf og þau vilja telja fram upp á gamla mátann. En eins og er virðist það vera torsótt.
Þessi vandamál hefði verið hægt að leysa auðveldlega með því að senda öllum eintaklingum bréf með upplýsingum um gildandi veflykla auk þess að senda þeim sem þess óskuðu framtalseyðublöðin árituð í pósti. Reyndar er þetta í mínum huga sjálfsögð krafa sem almenningur á að gera til skattayfirvalda, á þeim bæ á að gera allt sem hægt er til að auðvelda okkur framtalsskilin.
Ég var einn af þeim sem fékk ekki einn einasta snepil frá skattayfirvöldum vegna framtalsskila í ár, ef ég væri ekki að vinna í faginu væri allt eins líklegt að ég myndi gleyma að telja fram og þá væru góð ráð dýr. Það má bæta því við þetta að skattayfirvöld hafa til þessa ekki séð ástæðu til að minna fólk á það eigi eftir að skila framtali áður en að álagningu kemur. Almenningur á að skila framtölum 21. mars og fagaðilar hafa frest til loka maí mánaðar. Að þeim tíma liðnum ætti að vera ljóst hverjir eiga eftir að skila framtali. Þá væri eðlilegt að skattayfirvöld sendu út áminningu á alla sem ættu eftir að telja fram og gefa fólki kost á að bregðast við áður en til álagningar kemur í lok júli.
Að lokum er ekki úr vegi að segja frá bréfi sem einn einstaklingur mér tengdur fékk frá skattinum um daginn. Þar var verið að tilkynna um veflykil - þó ekki varanlegan - og var ávarpið þannig: "Kæri viðskiptavinur..." Ég hef aldrei vitað til þess að almenningur kaupi vörur eða þjónustu af skattayfirvöldum og því er ekki hægt að tala um viðskiptavini í því sambandi. Hingað til hefur orðið "skattþegn" verið nota þá sem telja þurfa fram til skatts á Íslandi. Ég neita því alfarið að vera viðskiptavinur skattsins, en ef svo væri vildi ég helst af öllu fá að beina viðskiptum mínum annað þar sem í boði væri lægri skattar og betri þjónusta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Játningar
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)