Miðvikudagur, 31. desember 2008
Þú ert orðinn alltof feitur!
Eitt kvöldið á aðventunni lá ég upp í sófa og horði á kreppufréttir í sjónvarpinu. Prinsessan á heimilinu kom þá inn í stofu, settist til fóta mér og sagði í sinni barnslegu einlægni: Þú ert orðinn alltof feitur! Ég tók mér örlítinn umhugsunarfrest en sagði svo við barnið: Þetta er alveg rétt hjá þér, ég er orðinn alltof feitur og þarf að fara að gera eitthvað í mínum málum. Núna stend ég frammi fyrir því að það er síðasti dagur í sukki í dag því átakið byrjar á morgun. Þá hefst nýtt ár með nýju upphafi. Nú á að taka matarræðið í gegn og mæta vel og reglulega í ræktina. Eftirlitið og aðhaldið verður einnig til staðar því einu sinni í viku verður þyngd og ummál tekið til skoðunar.
Fyrr í dag heimsótti ég foreldra mína og mamma var að sjálfsögðu ánægð með fyrirætlanir mínar á nýja árinu. Hún sagði að ég væri heppinn að geta unnið mig útúr vandræðum mínum, það væri ekki allir svo heppnir. Á sama andartaki varð mér einmitt hugsað til foreldra minna sem hafa um árabil barist við ólæknandi sjúkdóma og gefa ekkert eftir í þeirri baráttu. Mamma hefur t.a.m. verið í stöðugri lyfjameðferð vegna krabbameins í um 3 ár og pabbi hefur lifað með Parkisonveikinni í um áratug. Dugnaður þeirra hefur verið með eindæmum og aldrei hafa þau fallið í þá gryfju að vorkenna sjálfu sér eða að verið bitur út í þá sem hafa það betra. Þau eru sannar hetjur í mínum augum.
Það eru víst orð að sönnu að ég er heppinn að fá vinna mig út eigin vandræðum og lækna sjálfan mig af offitunni. Ég ætla að leggja hart að mér, vera duglegur, og ná góðum árangri. Ég ætla ekki að láta krepputalið og efnishyggjuna ná heljartökum á mér heldur ætla ég að einbeita mér að því að koma heilsunni í gott horf þannig að mér líði sem allra best í faðmi fjölskyldunnar. Ef það tekst þá verð ég eflaust sönn hetja í augum prinsessunnar litlu.
Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka góð samskipti á árinu sem er að líða.
Athugasemdir
Gott hjá þér Baldur. Gangi þér vel á nýju ári.
Helgi Jónsson, 1.1.2009 kl. 03:14
Flott hjá þér Baldur, ég veit að ef þú setur þér markmið þá muntu ná þeim, hef fulla trú á þér.
Benni Sig (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 19:20
skemmtilega orðað hjá þér,, að hafa tækifæri til að vinna sig út úr vandamálunum sínum, það fá ekki allir tækifæri til þess. Gleðilegt ár
Halla Signý Kristjánsdóttir, 1.1.2009 kl. 22:52
Flott hjá þér. Sammála þér með foreldra þína. Það ættu allir að taka þau til fyrirmyndar.
Gleðilegt ár og gangi þér vel.
Anna Svandís (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 00:10
Flottur pistill og góðir punktar.
Gleðilegt ár.
Torfi Jóhannsson (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 18:18
Mér finnst þú svara barninu rosalega vel.
Góður pistill hjá þér.
Dagný Kristinsdóttir, 4.1.2009 kl. 22:01
Með betri greinum sem ég hef lesið, stutt, skýr og skorinort. Þetta er þörf ábending fyrir okkur hin sem miklum allt fyrir okkur, hluti sem auðvelt er að vinna sig út úr, á meðan þeir, sem búa við hin raunverulegu vandamál, kvarta ekki.
Jómmi (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 12:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.