Þriðjudagur, 2. september 2008
Frekja
Þar sem ég er nýgræðingur í barnauppeldi þá er ég alltaf að uppgötva nýja og skemmtilega hluti. Nú er ég aðeins farinn að læra inn á frekjuköstin og hvernig eigi að bregðast við þeim. Þegar barnið vill t.d. vaka fram eftir á kvöldin eða neitar að borða kvöldmatinn setur það stundum fram ýmsar misjafnlega gáfulegar hótanir sem eiga að tryggja að maður láti undan vilja þess. Í fyrstu lét ég yfirleitt undan enda vildi ég ekki vera vondi pabbinn en það dugði ekki til því það komu bara fram nýjar og nýjar óskir til að uppfylla. Að lokum áttaði ég mig á því að þetta var bara vítahringur sem ég varð að komast út úr. Þá fór ég að prufa að standa fastur á mínu fór að láta hótanirnar sem vind um eyru þjóta. Og viti menn, það bar góðan árangur. Núna er ég bara vondi pabbinn í smá stund og morguninn eftir er ég aftur orðinn besti pabbi í heimi. Það að fá að takast á við frekjuköstin í gegnum barnauppeldið hefur líka kennt mér að sjá svipaða hluti hjá fullorðna fólkinu í kringum mig. Reynslan af barnauppeldinu á vonandi eftir að koma að góðum notum þegar bregðast þarf við frekjuköstum fullorðna fólksins.
Athugasemdir
Bara vondir foreldrar, eiga vel uppalin börn. Góðu foreldrarnir eiga börnin sem hegða sér illa og valta yfir allt og alla. Ein með reynslu
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.9.2008 kl. 02:17
Þegar ég var lítill fannst mér ég eiga slæma foreldra því ég mátti ekki gera allt sem ég vildi. Núna finnst mér þau hins vegar hafi staðið sig prýðilega í foreldrahlutverkinu og stend ég í mikilli þakkarskuld við þau því með "vonsku" sinni ólu þau mig vel upp.
Baldur Smári Einarsson, 2.9.2008 kl. 09:16
Mér segist svo hugur að hér sé um metafórík að ræða og hér sé átt við að einhverjir hagi sér illa í samfélaginu í kringum Baldur. Mér er spurn hver er núna frekur og hver var frekur og hvort ekki sé best að bregðast alltaf eins við meintri frekju - ekki bara stundum......
Ferðafélagi til Liverpool (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 14:04
Ég veit ekki hvað metafórík er en mig grunar hvað ferðafélagi minn er að meina með orðum sínum. Ferðafélaginn þekkir mig líka ágætlega og veit að ég hef of oft látið vaða yfir mig með frekjugangi. En það er ekki þar með sagt að maður eigi að láta slíkt viðgangast um aldur og ævi enda er eðlilegt að maður læri af reynslunni.
Baldur Smári Einarsson, 2.9.2008 kl. 21:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.