Sunnudagur, 15. apríl 2007
Islantilla 2007
Það eru ekki nema tæpar tvær vikur í að ég haldi í enn eina golfferðina til Islantilla sem er smábær í Andalúsíu á Spáni. Á síðustu þremur árum hef ég fimm sinnum sótt Islantilla heim og nú er ég að fara þangað í sjötta skiptið. Flestar ferðanna hafa verið farnar undir merkjum Svarta gengisins svokallaða sem er hópur vaskra bolvískra kylfinga.
Vorferðirnar til Islantilla eru alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá meðlimum Svarta gengisins, ferðirnar eru iðulega pantaðar í nóvember og er þá strax byrjað að telja niður dagana til brottfarar. Fyrir kylfinga eru golfferðir mesta skemmtun sem hægt er að hugsa sér, þetta eru algjörar draumaferðir sem sérhver kylfingur ætti að leyfa sér að fara í einhvern tímann á lífsleiðinni.
Dæmigerður dagur á Islantilla hefst með morgunverði, að honum loknum er haldið á æfingasvæðið þar sem nokkrar fötur af boltum eru slegnar til að tryggja að sveiflan verði í lagi þegar haldið verður á fyrsta teig. Milli klukkan 9 og 10 á morgnana eru allir ræstir út á golfvöllinn og ræður þá oft tilviljun hverjir verða golffélagarnir yfir daginn. Eftir 18 holur er stefnan tekin á klúbbhúsið þar sem skorkortin eru yfirfarin og síðbúinn hádeigisverðir snæddur - sumir fá sér reyndar einn kaldan við þetta tækifæri og oftar en ekki drekka þá sigurvegarar dagsins á kostnað þeirra sem lutu í lægra haldi fyrir þeim. Við spilum alltaf 9 holur til viðbótar - stundum 18 - seinni partinn en að þeim loknum er haldið á hótelbarinn þar sem gengið er á gin-birgðir hótelsins. Næst á dagskrá er kvöldverðurinn en að honum loknum er kvöldinu svo varið á hótelbarnum þar sem spjallað er um golf auk þess sem íslensk lög eru sungin - við misjafna hrifningu annarra gesta hótelsins. Fjörið stendur fram eftir kvöldi en allir eru þó komnir í háttinn um miðnætti þar sem lúin bein eru hvíld fyrir átök næsta dags.
Það eru aðeins 11 dagar til brottfarar - þetta eiga eftir að verða langir dagar, svo mikil er tilhlökkunin hjá mér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.