Færsluflokkur: Bloggar

Virkjum Glámu

Þakrennuvirkjun á Glámuhálendinu er nokkuð sem vit er í. Þetta yrði að öllum líkindum umhverfisvænasta virkjun landsins sem myndi um leið tryggja Vestfirðingum stöðuga orku til frambúðar. Helgi Jóns segir m.a. þetta um Glámuvirkjun:

"Á Glámuhálendinu er gnægð lítilla vatna sem Orkubú Vestfjarða gerði á sínum tíma áætlanir um að virkja með svokallaðri þakrennu aðferð. Þetta er umhverfsvæn aðferð og hefur ekki í för með sér mikla spillingu umhverfis eins og t.d Kárahnjúkavirkjun og virkjanirnar í Þjórsá. Þessi virkjun á Glámu gæti gefið 75-85 MW sem gæti dugað vestfirðingum fyrir öllu því rafmagni sem notað er á Vestfjörðum öllum, um ókomna framtíð. Með þessu yrði líka til stöðugleiki í afhendingu rafrmagns til notenda, og gæti þar með orðið til þess að hægt væri að bjóða erlendum aðilum ódýra og vistvæna orku til sölu, t.d með hýsingu netþjónabúgarða og vistun gagnageymsla. Enginn staður á Íslandi væri betur til þess fallinn þar sem loftslag er frekar kallt og auðvelt að kæla slíka starfsemi niður með minni tilkostnaði. Með þess konar atvinnustarfsemi gæti skapast 50- 70 varanleg störf fyrir tæknimenntað fólk sem og aðra ásamt afleiddum störfum sem gætu orðið 10-20 til viðbótar. Þess konar starfsemi fylgir engin mengun og náttúran fengi að njóta sín án sjónmengunar sem t.d olíuhreinsunarstöð óneitanlega myndi valda svo ekki sé talað um loftmengun sem af slíkri stöð yrði."

Þetta er auðvitað ekki spurning - við eigum að drífa í því að virkja Glámu.


Ratsjárstofnun

Nú er lag að flytja Ratsjárstofnun til Bolungarvíkur. Í gær var öllum starfsmönnum stofnunarinnar sagt upp störfum og meiriháttar breytingar boðaðar þar á bæ. Sjaldan eða aldrei hefur ríkisstjórninni boðist jafn gott tækifæri til að rétta hlut Bolungarvíkur þegar kemur að tilfærslu opinberra starfa milli landshluta. Við megum ekki gleyma því að með uppsögnum gærdagsins hafa í það heila 11-12 opinber störf verið lögð niður hjá hinu opinbera í Bolungarvík og færð suður á bóginn. Og er þá einungis átt við störf hjá umræddri Ratsjárstofnun. Nú er rétti tíminn til að færa þess störf aftur til Bolungarvíkur því þar eiga þau réttilega heima.

Prinsessan

Íris Embla

Hún Íris Embla er prinsessan á mínu heimili. Hún vefur húsbóndanum ætíð um fingur sér og finnst ekkert leiðinlegt að láta hann stjana aðeins við sig. Íris Embla er 3 ára gömul og var að byrja á leikskólanum Glaðheimum í Bolungarvík þar sem tekið var vel á móti henni. Íris er skýr og kraftmikil stelpa sem veit fátt skemmtilegra en að sparka í bolta í Lautinni góðu sem verið hefur leiksvæði krakkanna í hverfinu frá því að ég man eftir mér. Henni finnst líka gaman að syngja og kann rosalega mörg lög utan af.

 


Út með hatrið - inn með ástina

Það geta allir tekið til sín orð Páls Óskars í laginu "Allt fyrir ástina". Í texta lagsins eru þessi einföldu skilaboð: Út með hatrið - inn með ástina. Boðskapurinn á við alla daga ársins - ekki bara í viku ástarinnar.

 


Beitning í Bolungarvík

Ég rakst á skemmtilegt myndband á vef eins Moggabloggara um daginn. Í myndbandinu er fylgst með bolvískum beitningarmönnum við vinnu sína. Svona er lífið við höfnina í Bolungarvík sumarið 2007.


Sveitakeppni GSÍ

Um helgina fer fram Sveitakeppni Golfsambands Íslands. Keppt er í 4 deildum í karlaflokki og í ár ber svo við að 4. deildin er haldin á Tungudalsvelli á Ísafirði. Golfklúbbur Bolungarvíkur mætir að sjálfsögðu til leiks en sveit klúbbsins féll úr 3. deild á síðasta ári. Ég geri ráð fyrir að sveit GBO verði í baráttu um að komast aftur upp í 3. deild að þessu sinni.

Sveit GBO er að þessu sinni skipuð þeim Rögnvaldi Magnússyni, Gunnari Má Elíassyni, Jóni Steinari Guðmundssyni, Weera Khiansanthia, Elíasi Jónssyni og Þórði Vagnssyni en Guðbjartur Flosason er liðstjóri að þessu sinni. Ég óska þeim alls hins besta og vona að þeir leiki sitt besta golf um helgina og tryggi þannig klúbbnum okkar sæti í 3. deild að ári.


Vestfirskir sleikipinnar

Afmælisbarn dagsins - Bolvíska stálið - hefur ritað tvær frábærar færslur á vef Vestfirskra sleikipinna að undanförnu. Önnur þeirra fjallar um ævintýri bolvíska þyrluflugmannsins Jens Þórs Sigurðssonar en hin færslan er um sérsveitarmanninn Ólaf Örvar Ólafsson sem bjó á æskuárum sínum í húsi númer 13 við Völusteinsstræti í Bolungarvík.


Forseti... eða hvað?

Blaðamenn hins virta tímarits Mannlífs virðast hafa misstigið sig í því að klína titli á Soffíu Vagnsdóttur bæjarfulltrúa í Bolungarvík. Í frétt blaðsins er Sossa sögð vera forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur en hið rétta er að það er Anna Guðrún Edvardsdóttir sem ber þennan virðulega titil. Ég velti því fyrir mér hvort fleiri staðreyndavillur leynist í skrifum blaðsins um menn og málefni.

Hesteyri

Annars fjallar frétt Mannlífs um árlega kjötsúpuferð á Hesteyri, ég hef einu sinni farið í slíka ferð og hafði gaman af. Kjötsúpan hennar Binnu er alltaf góð og náttúrufegurðin í Jökulfjörðunum alltaf einstök.

Hesteyri

Kappakstur er dauðans alvara

Enn og aftur er ég að verða vitni að því að kappakstur er stundaður innanbæjar hérna í  Bolungarvík. Það virðist sem ákveðnir ökumenn noti báðar akreinar Aðalstrætisins í "spyrnu" og keppa þannig í því hvor sé á hraðskreiðari bíl. Stuttu áður en ökuþórar kvöldsins geystust í gegnum miðbæinn á yfir 100 kílómetra hraða áttu börn leið yfir götuna - það þarf ekki mikið til að stórslys verði við slíkar aðstæður.

Ég hef áður minnst á þennan glæfraakstur sem stundaður er hér á aðalgötu bæjarins á kvöldin. Það er eins og að síðan löggæslan færðist alfarið inn á Ísafjörð hafi umferðareftirliti lögreglunar farið aftur hér í bænum, í það minnsta eru lögreglubílar sjaldséðir á götum bæjarins þessa dagana.

Ég veit hvaða bílar það voru sem óku á ógnarhraða eftir Aðalstrætinu í kvöld en ég ætla ekki að gefa upp hverjir það voru að svo stöddu. Hins vegar skora ég á lögregluna að láta sjá sig oftar í Bolungarvík en það eitt að lögreglan sé sýnileg á götum bæjarins getur komið í veg fyrir að ökumenn freistist til að haga sér með þessum glæfralega hætti.


Olían mun gera okkur ríka

Sveitarstjórnarmenn hér vestra keppast nú við að lýsa skoðunum sínum á fyrirhugaðri olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og sýnist sitt hverjum. Ég ætla að verða eftirbátur þeirra í þetta skiptið og bjóða þess í stað upp á heitasta lagið á skemmtistöðunum í dag.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband