Færsluflokkur: Bloggar

Apar og hlutabréf

Eru apar jafngóðir og sérfræðingar á fjármálamarkaðinum? Nokkurn veginn svona hljóðar fyrirsögn fréttar á Vísir.is í dag. Þar segir m.a. "Api með bundið fyrir augun [var] látinn kasta pílu í dart-kringlu með nöfnum félaga í kauphöllinni í New York. Í ljós kom að hann var næstum jafngóður og fjármálasérfræðingar í að velja þau félög sem síðan stóðu sig vel á markaðinum." Í fréttinni segir að þetta komi fram í nýrri bók prófessorsins Burton Malkiel "A Random Walk Down Wall Street."

Þetta eru orð að sönnu að því frátöldu að bókin er ekki ný heldur kom út árið 1973 og var meðal annars mælt með henni sem lesefni í fjármálakúrsum í Háskóla Íslands fyrir um 10 árum síðan. Eins og gefur að skilja er þessi bók vel geymd í bókaskápnum mínum og bíður þess að verða lesin.


Blátt áfram

Jólaseríurnar hjá mér í ár eru að mestu bláar líkt og í fyrra. Mér finnst blái liturinn mjög svalur og passar vel við hvítan snjóinn sem nú hylur jörð. Prinsessan á heimilinu fær þó að hafa sitt herbergi í rauðbleikum lit sem tónar vel við önnur húsgögn í herberginu. Það er við hæfi að smella inn einni mynd af prinsessunni, henni Írisi Emblu og Einari Halldórssyni bróðursyni mínum.

IMG_6172

 


Rauðir dagar

Það er ekki öfundsvert að vera á hlutabréfamarkaði á Íslandi þessa dagana, nær allar tölur rauðar og úrvalsvísitalan lækkar með degi hverjum. Ég örvænti ekki og hef þá trú að markaðirnir fari fljótlega að rétta úr kútnum.

Stjórnmálaflokkur í samkeppni við einkaaðila

Samfylkingin á Ísafirði opnaði nýjan vef sinn, www.skutull.is , með pompi og prakt fyrir nokkru síðan. Það var engin önnur en formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem ýtti fleytunni úr vör. Markmið Samfylkingarinnar með rafrænni útgáfu af Skutli er að fjölga valkostum í fjölmiðlum á Vestfjörðum sem þýðir einfaldlega að Samfylkingin ætlar í samkeppni við aðra vefmiðla á svæðinu.

Fyrir hönd fyrirtækis míns, Grundarhóls sf, sem rekur www.vikari.is tek ég slíkri samkeppni fagnandi enda veit ég að samkeppni er af hinu góða en einokun og fákeppni er af hinu illa. Lögmál markaðarins munu að lokum ráða því hvernig einstökum aðilum vegnar á þessu sviði og þá munu þeir hæfustu lifa af.

Hér að framan tók ég fram að það væri stjórnmálaflokkurinn Samfylkingin sem stæði að baki vefnum www.skutull.is en mér virðist sem forsvarsmenn vefsins reyni að sverja slíkt af sér. Því er að minnsta kosti haldið fram að vefurinn sé vestfirskur þjóðmálavefur sem sé ekki háður neinum stjórnmálaflokki og að fréttamat og fréttaskrif stjórnist eingöngu af áhuga og metnaði þeirra sem að vefnum standa.

Það er mjög ánægjulegt að fólk í pólitík vilji flytja góðar fréttar frá sinni heimabyggð - ég hef gert slíkt hið sama í rúmlega 4 ár og held að mér hafi tekist að vera nokkuð hlutlægur þegar pólitík hefur komið við sögu. Ég á ekki von á öðru en að aðstandendur Skutuls verði hlutlægir í umfjöllun sinni um málefni líðandi stundar og mig grunar að innkoma Skutuls á markaðinn veiti t.d. Bæjarins besta (bb.is) og svæðisútvarpi RÚV kærkomið aðhald varðandi fréttaflutning af svæðinu.

Hitt er annað mál að ef ég hefði staðið í sporum aðstandenda www.skutull.is þá hefði ég farið aðrar leiðir til að tryggja óhæði og hlutleysi vefsins. Í fyrsta lagi þá hefði mér aldrei dottið í hug að nota nafnið "Skutull" eða nokkra skírskotun í málgagn Samfylkingarinnar. Í öðru lagi hefði ég ekki notað rauða punktinn sem er merki Samfylkingarinnar í valmynd vefsins. Í þriðja lagi hefði ég ekki notað rauða lit Samfylkingarinnar í allar fyrirsagnir á vefnum. Í fjórða lagi hefði ég sleppt því að birta rafrænar útgáfur (pdf) af málgagni Samfylkingarinnar á vefnum. Í fimmta lagi hefði ég ekki búið til sér flokk í "Tenglum" sem tileinkaður er Samfylkingunni (að vísu tómur sem stendur). Útlitslega er engin tilraun gerð til þess að undirstrika óhæði og hlutleysi Skutuls og að mínu mati er þar um mikil mistök að ræða hjá aðstandendum vefsins.

Það er eitt sem ég á erfitt með að skilja í viðbrögðum bæjarráðs Ísafjarðarbæjar við beiðni Skutuls um auglýsingastyrk og það er að bærinn vilji eingöngu styðja við bakið á stærsta vefmiðlinum sem starfandi er í sveitarfélaginu. Um leið er vísað í að sveitarfélagið styðji ekki við bakið á þeim áhugamönnum sem halda úti svæðisbundnum fréttasíðum á borð við www.thingeyri.is  svo eitthvað sé nefnt. Að sjálfsögðu eiga bæjaryfirvöld að styðja við bakið á þessum svæðisbundnu fréttasíðum.

Bolungarvíkurkaupstaður hefur stutt við bakið á www.bb.is með birtingu valdra frétta á heimasíðu sinni auk þess sem bæjarfélagið er með auglýsingu á vef bb.is. Einnig get ég upplýst að vefurinn www.vikari.is hefur notið stuðnings frá Bolungarvíkurkaupstað, bæði á síðasta kjörtímabili þar sem minn stjórnmálaflokkur var í meirihluta sem og á núverandi kjörtímabili þar sem ég sit í minnihluta bæjarstjórnar.

Að lokum vil ég óska Samfylkingunni á Ísafirði til hamingju með Skutuls-vefinn og ég vona að þar verði fluttar margar góðar fréttir frá Vestfjörðum. Ég vil einnig nota tækifærið og benda félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum á Ísafirði að stofna sinn eigin fréttavef til mótvægis við Samfylkinguna.


París er borg elskenda

Ég er nýkominn úr menningarferð til Parísar. Ferðin var frábær enda ekki við öðru að búast þegar maður ferðast með jafn góðu fólki og vinnufélagarnir eru. Það ætti engum að leiðast í París því þar er óendanlega margt merkilegt að skoða, hvort sem um er að ræða sögulegar byggingar eða söfn af ýmsu tagi.

Þar sem ferðin var stutt þá var ekki hægt að gera allt sem stefnt var að í ferðinni. Þó náðum við að fara upp í Eiffel turninn, skoða Sigurbogann, Bastillu torgið, Notre Dame kirkjuna, Louvre safnið og höllina í Versölum, svo eitthvað sé nefnt. Einnig fórum við á kabarett og rúsínan í pysluendanum var auðvitað rómantískur kvöldverður um borð í báti sem sigldi eftir Signu.

Baldur og Harpa í París

Myndin hér að ofan sýnir okkur Hörpu í Eiffel turninum með Parísarborg í baksýn.


Fjármálaráðstefna

Ég er staddur í borg óttans þar sem ég mun sitja Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu. Þar eru mörg forvitnileg erindi á dagskrá og má þar nefna kynningu á afkomu sveitarfélaga árið 2006 þar sem spurt er "Hvert stefnir?", kynningu á niðurstöðum skýrslu um áhrif samdráttar í þorskveiðum á sveitarfélögin, erindi um fjármálareglur sveitarfélga og ýmislegt fleira sem vonandi verður bæði fróðlegt og gagnlegt.

Á þessari ráðstefnu verður maður ef til vill svo heppinn að komast að því hvað felst í "ójafnri jöfnun" sem það mun vera aðferðafræði sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga virðist aðhyllast þessa dagana. Það virðist nefnilega vera þannig að "það eru allir jafnir en sumir eru jafnari en aðrir".


Vantraust

Þessi frétt á bb.is vekur upp ýmsar spurningar. Í fréttinni er því m.a. haldið fram að ef Innheimtustofnun sveitarfélaga yrði flutt til Ísafjarðar þá gæti flutningurinn haft neikvæð áhrif á innheimtuárangur stofnunarinnar. Þetta er mat starfshóps sem skipaður var um flutninginn (líklega innan Sambands íslenskra sveitarfélaga) og telur hópurinn einungis fært að flytja 6-8 störf til Ísafjarðar. Þá kemur fram að Sigurgeir Sigurðsson (Seltjarnarnesi), formaður stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélga, telur að ekki sé vænlegt að flytja nein störf til Ísafjarðar þar sem slíkt gæti riðlað starfsemi stofnunarinnar verulega og haft slæm áhrif á innheimtuárangur hennar. Ekki það að stofnunin hafi hingað til getað hrópað húrra yfir innheimtuárangri sínum. 

Að mínu mati er Samband íslenskra sveitarfélaga með þessu einfaldlega að lýsa yfir vantrausti á landsbyggðina. Sambandið segir: "Ykkur er ekki treystandi til að standa ykkur jafnvel og höfuðborgarbúar". Og þetta kemur frá samtökum sveitarfélga á Íslandi.

Þessar yfirlýsingar koma mér reyndar ekkert sérstaklega mikið á óvart. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur, eftir því sem ég best veit, gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að flytja fá störf út á land en þegar kemur að því að flytja störf á vegum Sambandsins út á land þá er eins og slíkt sé ómögulegt. Nú stendur Sambandið því frammi fyrir ákveðinni prófraun, þetta er spurning um að standast prófið eða falla á því.

Það er þó ef til vill til lausn á vandanum ef málið er að Ísfirðingum sé ekki treystandi fyrir þessu gulleggi Sambandsins. Lausnin er að flytja afganginn af Innheimtustofnun sveitarfélga til Bolungarvíkur. Þannig mætti nýta orkuna sem felst í hrepparígnum milli þessara byggðarlaga til að bæta innheimtuárangur stofnunarinnar.

Að lokum er rétt að skora á stjórn Sambands íslenskra sveitarfélga að sýna kjark og gott fordæmi fyrir ríkisvaldið og flytja Innheimtustofnun sveitarfélaga í heilu lagi til Vestfjarða.


Jól í skókassa

Hér á Völusteinsstrætinu var kvöldinu varið í að útbúa jólagjafir fyrir „Jól í skókassa" sem er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að tilteknir hlutir séu í hverjum kassa. Hægt er að fræðast meira um „Jól í skókassa" á heimasíðunni www.skokassar.net .

Víkari.is

Það styttist í að ný útgáfa af www.vikari.is fari í loftið. Nýi vefurinn verður mikið flottari og betri en sá sem þjónað hefur Bolvíkingum í rúm 4 ár. Þó má ekki búast við að vefurinn verði gallalaus enda má alltaf gera gott betra.

Gjaldþrot EG

Það eru ekki nema rúmlega 14 ár síðan fyrirtækið Einar Guðfinnsson hf var tekið til gjaldþrotaskipta, að mig minnir að kröfu Landsbanka Íslands. Eins og kom fram í fréttum í gær er ekki enn búið að ljúka skiptum á þrotabúinu en skiptastjórinn telur að því verki munu ljúka um næstu áramót. Það sem vekur athygli mína er að skiptastjórinn segir að þrotabúið eigi 15 milljónir króna í bankainnistæðum sem munu að öllum líkindum renna til ríkisins.

Lengi hafa gengið sögur um að Einar Guðfinnsson hf hafi í raun ekki verið gjaldþrota heldur hafi Landsbanki Íslands þvingað félagið í þrot. Sömu sögur segja að EG hafi átt fyrir skuldum sínum og 15 milljón króna afgangur í þrotabúi rennur vissum stoðum undir það.

Burt séð frá öllum samsæriskenningum er ljóst að sá kvóti sem var á skipum félagsins (Dagrúnu ÍS og Heiðrúnu ÍS) auk mikillar hlutabréfaeignar væri mikils virði í dag og ef fyrirtækið hefði fengið að lifa aðeins lengur eru miklar líkur á að það hefði náð að rétta úr kútnum líkt og önnur fyrirtæki sem voru í svipaðri stöðu á þessum tíma.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband