Olían mun gera okkur ríka

Sveitarstjórnarmenn hér vestra keppast nú við að lýsa skoðunum sínum á fyrirhugaðri olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og sýnist sitt hverjum. Ég ætla að verða eftirbátur þeirra í þetta skiptið og bjóða þess í stað upp á heitasta lagið á skemmtistöðunum í dag.

 


Forgjafarlækkun

Í golfi er notast við mælikvarða sem er kallaður "forgjöf" til að meta getu einstakra kylfinga. Flestir byrja með 36 í forgjöf og eftir því sem menn verða betri í golfi þá lækkar forgjöfin. Fyrir helgina var ég með 19.8 í forgjöf en núna er ég kominn í 19.0 og tel mig eiga nokkuð inni til frekari lækkunar. Markmiðið fyrir sumarið var að komast niður í 15 en það er ennþá langt í land að það náist.

Björgum Vestfjörðum

Þessa dagana fer her manna um landið undir því yfirskini að það ætli að bjarga Íslandi. Þar eru Vestfirðir væntanlega ekki undanskildir. Þess vegna vona ég að þessir aðilar ætli í raun að bjarga Íslandi en ekki aðeins að mótmæla álverum og orkuverum. Mér finnst eðlilegt að spyrja þetta fólk hvað það ætli að gera til að bjarga Vestfjörðum. Við vitum að sjávarþorpin á Vestfjörðum eiga verulega erfitt uppdráttar þessa dagana líkt og flest önnur smærri samfélög á Íslandi. Ef bjarga á Íslandi þá þarf um leið að bjarga þessum samfélögum, það liggur í hlutarins eðli. Í það minnsta ef við ætlum að halda landinu í byggð. 

Hvernig skyldi samtök á borð við Saving Iceland ætla að bjarga Vestfjörðum? Kannski að trúðanámskeið verði bjargráð þeirra.

Golfhelgin mikla

Það er nóg um að vera í golfinu hér fyrir vestan um helgina. Kambsmótið víðfræga á Ísafirði er á morgun og golfmótið okkar hjá Endurskoðun Vestfjarða í Bolungarvík á sunnudag. Ég er að sjálfsögðu skráður til leiks á báðum stöðum og vænti góðrar spilamennsku um helgina.  

Það sem af er sumri hef ég lítið látið sjá mig á golfvöllum landsins og er þar um að kenna (eða réttara sagt því að þakka) breytingum á fjölskylduhögum mínum en eins og margir vita þá gekk ég út fyrr á þessu ári og þarf nú að sinna konu og barni. Því hefur golfið eðlilega færst aftar á forgangslistann hjá mér.


Óshlíðargöng tilbúin eftir 2 ár?

Samgönguráðherra vill gera allt sem í hans valdi stendur til að flýta vinnu við Óshlíðargöng ef marka má frétt bb.is um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Áður var stefnt að því að Óshlíðargöng yrðu tilbúin sumarið 2010 en nú segir sagan að reynt verði að klára göngin fyrir árslok 2009. Nú er bara að vona að framkvæmdir hefjist sem allra fyrst.

Vissir þú... að það er alltaf sól og blíða í Bolungarvík?

Sumarið hefur verið mjög sólríkt hér í Bolungarvík og þess vegna er lítið bloggað þessa dagana. Það er nóg af góðum fréttum úr Víkinni og meðal annars hefur heyrst að íbúar bæjarfélagsins séu að slá öll met í skattgreiðslum til Ríkissjóðs. Það eru fleiri gleðileg tíðindi héðan að vestan því innan fárra mánaða verður byrjað á jarðgöngum undir Óshyrnu en sú framkvæmd mun hafa það í för með sér að allir Íslendingar geta í framtíðinni ekið til Bolungarvík án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að fá stórgrýti á bíla sína.

Það er hugur í Bolvíkingum þessa dagana og til marks um það er verið að gera sundlaugargarð með tileyrandi vatnsrennibraut við Íþróttamiðstöðina Árbæ. Einnig vilja bæjarbúar gera upp menningarhúsið sitt og ef nægt fjármagn fæst til verksins mun Félagsheimili Bolungarvíkur skarta sínu fegursta innan fárra ára. Af fleiri góðum verkum sem koma til framkvæmda á næstunni má nefna snjóflóðavarnargarð sem verja mun byggðina í Bolungarvík og miklar endurbætur á hafnarmannvirkum.

Sólin skín glatt á okkur Bolvíkinga í dag og við erum öll í góðu skapi eftir vel heppnaðan Markaðsdag. Vonandi eruð þið hin líka í sólskinsskapi í dag.


Ný Bolungarvík?

Björgmundur segir í bloggi sínu að nú sé að myndast nýr byggðakjarni á Suðurnesjum sem mun fljótlega verða jafn stór og Bolungarvík. Þarna er fyrrum herstöð breytt í háskólaþorp og á nokkrum vikum ætla um 700-800 manns að setjast þar að. Þetta er að sjálfsögðu gott framtak en ég velti því fyrir mér hvort hægt væri að gera svipaða hluti annars staðar á landinu. "Gamla Bolungarvík" getur til dæmis auðveldlega bætt við sig 700-800 íbúum á næstu árum - hvort sem það væri í tengslum við uppbyggingu innan menntageirans eða annarra atvinnugreina.

Í frétt mbl.is um "Nýju Bolungarvík" segir auk þess að í þessu 700 til 800 manna samfélagi verði um 200 börn. Þessir íbúar þurfa alls kyns þjónustu á borð við leikskóla, grunnskóla, íþróttamiðstöðvar, tónlistarskóla, heilbrigðisþjónustu, verslanir og ýmsa persónulega þjónustu. Allir þessir innviðir eru nú þegar til staðar í sjávarþorpum á borð við "Gömlu Bolungarvík". Af hverju ekki að nýta sér það?


Heitur reitur

Lítill fugl hvíslaði því að mér að í dag opnaði fyrsti "heiti reiturinn" í Bolungarvík og er hann staðsettur í hinu fornfræga Einarshúsi. Heitir reitir (e. Hot Spots) er ókeypis þráðlaust internetsamband sem Vodafone býður gestum veitinga- og kaffihúsa víða um landið. Bolvíkingar geta því sötrað og sörfað í heita reitnum við Einarshúsið í veðurblíðunni í dag.

Kærkomin rigning

Aldrei þessu vant er ég feginn rigningunni. Nú fær golfvöllurinn okkar vætu sem kemur í veg fyrir að hann þorni upp. Eitt sumarið var slík þurrkatíð hér vestra að það kom ekki dropi úr lofti í fleiri vikur. Það hafði í för með sér að það þurfti að vökva öll grín, alla teiga og flestar brautir nær allan sólarhringinn. Á mesta þurrkatímanum þurfti jafnvel að kalla á slökkviliðið til að vökva golfvöllinn. Vætan er líka kærkomin fyrir túnið heima, undanfarna daga hef ég þurft að vökva nýlagt torfið frá morgni til kvölds en núna fær grasið náttúrulega vökvun og verður grænna fyrir vikið. Að lokum styttir þó upp og þá nær sólin að brjótast fram úr skýjunum. Ef það væri hægt að gefa veðurguðunum einhver góð ráð um hvernig sumarveðrið ætti að vera þá væri mitt draumaveður þannig að það rigndi bara á nóttiuni en það væri sól og blíða á daginn.


Víkari.is

Það er ekki hægt að segja annað en að sú ákvörðun mín að ráða fréttaritara fyrir vefinn minn, www.vikari.is , hafi reynst mér happaspor. Undanfarnar vikur hefur verið stöðug aukning í heimsóknafjölda og stefnir í að júnímánuður verði sá allra besti til þessa. Það virðist sem fastir liðir á borð við Víkara vikunnar, Vinsælast í Víkinni, Vísnahorn Víkara og Virkjum Víkara njóti vaxandi vinsælda auk þess að fréttir frá Bolungarvík eiga alltaf fastan hóp lesenda.

Ef heimsóknar tölur síðastliðinna mánaða eru skoðaðar kemur í ljós að daglegar heimsóknir eru nærri þrefallt fleiri en fyrir ári síðan og nærri tvöfallt fleiri en fyrir hálfu ári síðan. Síðastliðin vika gaf til að mynda hátt í 800 heimsóknir að meðaltali á dag. Svipaða sögu er að segja af fjölda flettinga eða öðrum þeim mælikvörðum sem notaðir eru mæla aðsókn af heimasíðum.

Nú stendur til að Víkarinn fái loksins andlitslyftingu með tilheyrandi breytingum. Mér þætti vænt um að fá sendar tillögur að breytingum og/eða viðbótum á netfangið baldur@vikari.is . Svo er kommentakerfið líka alltaf opið. Allar tillögur er vel þegnar þó ekki sé hægt að lofa að þær komi allar til framkvæmda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband