Hitaveitugull og mótvægisaðgerðir

Það var góður dagur í Samgönguráðuneytinu í dag en þar var sveitarfélögum úthlutað jólagjöfum. Tilefnið að þessu sinni voru mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á aflaheimildum og auðvitað fékk bærinn minn Bolungarvík góðan jólapakka eða heilar 8,7 milljónir króna. Það kemur sér nú vel hjá bláfátæku sveitarfélaginu nú á þessum krepputímum. Við Bolvíkingar þökkum að sjálfsögðu kærlega fyrir þetta höfðinglega framlag úr Ríkissjóði.

Ég hugsa líka hlýtt til þeirra sem fengu stærstu jólagjafirnar að þessu sinni en það voru Grindavík og Vestmannaeyjar. Þetta eru að sjálfsögðu miklir útgerðarbæir sem hljóta að eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og þá veitir þeim nú ekki af rausnarlegum framlögum úr Ríkissjóði. Grindavík fékk sem sagt stærsta pakkann í ár eða 35 milljónir króna og Vestmannaeyjar komu næst með tæpar 25 milljónir króna.

En þegar betur er að gáð þá eru þessi sveitarfélög ekki bláfátæk eins og Bolungarvíkurkaupstaður.

Það er rétt að rifja upp nokkurra vikna gömul ummæli bæjarstjóra þessara sveitarfélaga.

Elliði Vignisson segir í viðtali við mbl.is 24. október síðastliðinn að Vestmannaeyjabær hvergi að slá af í framkvæmdum og frekar að bæta í en hitt - þeir eru ekki beinlínis á kúpunni þar á bæ. Þeir sem hafa kynnt sér ársreikninga þeirra Eyjamanna komast líklega að því að sveitarfélagið átti 4 milljarða króna inn á bankabók í upphafi þessa árs

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir upplýsir í viðtali við Víkurfréttir 21. október síðastliðinn að Grindavíkurbær hafi verið með 4 milljarða króna inn á bók hjá Landsbankanum en hafi millifært 2 milljarða af þeirri fjárhæð yfir í Sparisjóð Keflavíkur. Þar segir hún að "nú sé komið hitaveitugull í Sparisjóðinn". Ársreikningur Grindavíkurbæjar staðfestir þessir tölur því þar kemur fram að Grindavíkurbær átti um 4,5 milljarða króna á bankabók við upphaf þessa árs.

Ég veit ekki hvort það er viðeigandi að tala um réttlæti eða ranglæti í þessu sambandi en mér finnst eitthvað bogið við að mótvægisaðgerðir sem þessar skili sér best til þeirra sem þarfnast þeirra akkúrat ekki neitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þalð má nú ekki gleyma því að þið fenguð nú Orkubúsgull en eruð bara búnir að eyða því.

Eyleifur (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 22:16

2 Smámynd: Baldur Smári Einarsson

Já því skotsilfri var að mestu varið til niðurgreiðslu skulda sveitarfélagsins. En á sama tíma nutum við ekki ríkisframlaga á borð við þær mótvægisaðgerðir sem hér er rætt um.

Baldur Smári Einarsson, 10.12.2008 kl. 22:39

3 Smámynd: Baldur Smári Einarsson

Svo að það fari ekki á milli mála þá er ég ekki að gagnrýna að þessi ágætu sveitarfélög hafi selt hitaveitur sínar og fengið peninga í hendur til að nýta í þágu íbúanna. Það er bara hið besta mál. Það sem ég er að gagnrýna er með hvaða hætti Ríkið útdeilir peningum til sveitarfélaga.

Baldur Smári Einarsson, 10.12.2008 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband