Færsluflokkur: Íþróttir

Ódrengilegir Svíar

Leikmenn sænska landsliðsins í fótbolta fá líklega ekki verðlaun fyrir háttvísi (Fair Play) á knattspyrnuvellinum eftir framkomu þeirra í landsleiknum við Íslendinga í gær. Undanfarinn að fimmta marki Svía í leiknum var ansi sérstakur og var atburðarrásin eitthvað á þessa leið:

Varnarmaður Íslendinga vinnur boltann í eigin vítateig en fær boltann í hendina. Sænsku leikmennirnar heimta vítaspyrnu og svo virðist sem dómarinn bendi á vítapunktinn til merkis um að víti hafi verið dæmt. Leikmenn beggja liða sjá það og varnarmaður íslenska liðsins sendir boltann laust í áttina að vítapunktinum. Boltinn hrekkur fyrir fætur sænsks leikmanns sem sendir hann á samherja sinn sem er staðsettur fyrir framan mark Íslendinga. Sá leikmaður sendir boltann auðveldlega í netið hjá Íslendingum sem reyndu ekki með neinum hætti að stöðva þessa "sóknartilburði" Svíanna. Niðurstaðan var að fimmta mark Svía gegn Íslendingum leit dagsins ljós.

Þegar ég sá upptökuna af þessu Svíamarki rifjaðist upp fyrir mér atvik sem átti sér stað í leik hjá enska knattspyrnufélaginu West Ham fyrir nokkrum árum. Þar sýndi Paulo Di Canio mikinn drengskap með því að stoppa leik - þrátt fyrir að vera í upplögðu marktækifæri - vegna þess að hann sá að markvörður andstæðinganna lá meiddur í grasinu. Di Canio hefði auðveldlega geta skorað mark og fagnað ógurlega líkt og Svíarnir gerðu í gær en hann var maður að meiri og stöðvaði sjálfur leikinn því hann taldi það ekki í anda knattspyrnunnar að notfæra sér meiðsli markvarðarins.

Það má vel vera að íslenska liðið hafi spilað illa í gær og átt niðurlægingu skilið en sú framkoma Svía að notfæra sér það að Íslengingar töldu að leikurinn hafði verið stöðvaður var afar ódrengileg og þeim sjálfum til minnkunar.

 


Leiðin til Aþenu

Liverpool og AC Milan eigast við í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í Aþenu á morgun. Fyrir tveimur árum áttust sömu lið við í Istanbul og þá stóð Liverpool uppi sem sigurvegari í einum magnaðasta úrslitaleik sögunnar. AC Milan á nú harma að hefna og án efa verður hér um að ræða leik ársins í fótboltanum. Ég er ekkert alltof bjartsýnn fyrir leikinn en vona auðvitað að mínir menn í Liverpool fari með sigur af hólmi.


Fyrsta golfmót sumarins

Það er komið að fyrsta golfmóti sumarins hér í Bolungarvík en Vormót Golfklúbbs Bolungarvíkur fer fram á Syðridalsvelli á sunnudaginn. Mér finnst vorið heldur kalt hér fyrir vestan enda er ég orðinn vanur því að spila golf í spænsku vorblíðunni. Á sunnudaginn verða leiknar 18 holur í Texas Scramble og það er aldrei að vita nema ég láti sjá mig þar ef ég fæ góðan meðspilara.

Islantilla 2007

Það eru ekki nema tæpar tvær vikur í að ég haldi í enn eina golfferðina til Islantilla sem er smábær í Andalúsíu á Spáni. Á síðustu þremur árum hef ég fimm sinnum sótt Islantilla heim og nú er ég að fara þangað í sjötta skiptið. Flestar ferðanna hafa verið farnar undir merkjum Svarta gengisins svokallaða sem er hópur vaskra bolvískra kylfinga.

Vorferðirnar til Islantilla eru alltaf mikið tilhlökkunarefni hjá meðlimum Svarta gengisins, ferðirnar eru iðulega pantaðar í nóvember og er þá strax byrjað að telja niður dagana til brottfarar. Fyrir kylfinga eru golfferðir mesta skemmtun sem hægt er að hugsa sér, þetta eru algjörar draumaferðir sem sérhver kylfingur ætti að leyfa sér að fara í einhvern tímann á lífsleiðinni.

Dæmigerður dagur á Islantilla hefst með morgunverði, að honum loknum er haldið á æfingasvæðið þar sem nokkrar fötur af boltum eru slegnar til að tryggja að sveiflan verði í lagi þegar haldið verður á fyrsta teig. Milli klukkan 9 og 10 á morgnana eru allir ræstir út á golfvöllinn og ræður þá oft tilviljun hverjir verða golffélagarnir yfir daginn. Eftir 18 holur er stefnan tekin á klúbbhúsið þar sem skorkortin eru yfirfarin og síðbúinn hádeigisverðir snæddur - sumir fá sér reyndar einn kaldan við þetta tækifæri og oftar en ekki drekka þá sigurvegarar dagsins á kostnað þeirra sem lutu í lægra haldi fyrir þeim. Við spilum alltaf 9 holur til viðbótar - stundum 18 - seinni partinn en að þeim loknum er haldið á hótelbarinn þar sem gengið er á gin-birgðir hótelsins. Næst á dagskrá er kvöldverðurinn en að honum loknum er kvöldinu svo varið á hótelbarnum þar sem spjallað er um golf auk þess sem íslensk lög eru sungin - við misjafna hrifningu annarra gesta hótelsins. Fjörið stendur fram eftir kvöldi en allir eru þó komnir í háttinn um miðnætti þar sem lúin bein eru hvíld fyrir átök næsta dags.

Það eru aðeins 11 dagar til brottfarar - þetta eiga eftir að verða langir dagar, svo mikil er tilhlökkunin hjá mér.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband