Efling atvinnulífs á Vestfjörðum - Skattstofan

Á fundi í bæjarráði Bolungarvíkur í morgun kynnti ég tillögur sem aðal- og varabæjarfulltrúar D-listans í bæjarstjórn Bolungarvíkur hafa sent inn til nefndar um eflingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Tillögurnar sem um ræðir eru viðbót við áður framkomnar hugmyndir sem settar voru fram sameiginlega af forráðamönnum sveitarfélaga á Vestfjörðum nýverið og fleiri góðar tillögur sem fram hafa komið í fjölmiðlum.

Fyrsta tillagan snertir eflingu Skattstofunnar í Vestfjarðaumdæmi og er svohljóðandi:

"Skattstjórinn í Vestfjarðaumdæmi (SV), er stofnun sem vinnur úr skattframtölum einstaklinga og fyrirtækja á Vestfjörðum.  Ætla verður að þar sé unnið eftir sömu lögum og reglum og annarsstaðar á landinu.  Þar er því til staðar þekking til að vinna úr framtölum hvaðan sem er á landinu.

Því er lagt til að Skattstofan í Vestfjarðaumdæmi taki að sér aukin verkefni.  Verkefnin verði færð frá Skattstjóranum í Reykjavík (SR).  Stefnt verði að því að strax á þessu ári verði verkefni SV tvöfölduð að umfangi og starfsmönnum fjölgað í samræmi við það.  Á næstu fjórum árum verði stefnt að því að færa alla vinnu vegna skattframtala einstaklinga frá SR til SV.

Ef upp koma hugmyndir um að gera landið að einu skattaumdæmi og vinna öll skattframtöl á einum stað, þá verði sú starfsemi höfð á Ísafirði og í nágrenni.

Ljóst má vera að þetta þýðir breytingar fyrir starfsmenn SR og því nauðsynlegt að huga að því að þeir gangi fyrir í önnur störf sem stofnað er til á vegum ríkisins í Reykjavík.  Það mun þó auðvelda tilfærsluna að skv. könnun Samtaka atvinnulífsins þá er starfsmannavelta í opinbera geiranum nálægt 10% á ári.

Slík starfsemi gæti stutt við væntanlegan Háskóla Vestfjarða á Ísafirði, þar sem vel mætti hugsa sér að koma á fót námi í skattarétti.  Starfsmenn gætu þar með átt þátt í að byggja upp það nám við væntanlegan Háskóla Vestfjarða.

Vissulega fylgir því kostnaður að færa til verkefni.  Á það ber þó að líta að við slíkan flutning losnar húsnæði á dýrasta svæði á Íslandi.  Sala á slíku húsnæði gæti því greitt kostnað við flutninginn og jafnvel meira til."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband