Sunnudagur, 25. janúar 2009
Minni kvenna
Mér var boðið á Þorrablótið sem haldið var hér í Bolungarvík í gær og að sjálfsögðu þáði ég það boð eiginkonu minnar. Á Þorrablótinu var mér falið það hlutverk að flytja "Minni kvenna" að lokinni veglegri skemmtidagskrá nefndarkvenna. Ræðan mín var svohljóðandi:
Ágætu þorrablótsgestir
Ég get ekki ímyndað mér að það sé hægt að toppa þetta bolvíska þorrablót. Þetta er örugglega stórasta þorrablót í heimi.
Þvílík skemmtiatriði. Þvílíkar kræsingar. Þvílíkar guðaveigar. Og síðast en ekki síst, þvílíkar bolvískar konur!
Fyrir hönd bolvískra karla vil ég þakka nefndarkonum fyrir frábæra skemmtun hér í kvöld. Ég dáist að því hve mikill metnaður er lagður í skemmtiatriðin og alla umgjörð þorrablótsins. Við hljótum að vera heppnustu karlmenn í heimi að eiga svo framtakssamar konur.
Ég verð að viðurkenna að það er svolítið skrítið en jafnframt mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í kvöld. Það er ekki nema eitt ár síðan að ég fékk fyrst að fara á Þorrablótið og þá skemmti ég mér konunglega. Þetta blót slær því fyrra við og ég get fullvissað ykkur um að ég hefði fyrir löngu síðan verið búinn að ná mér í konu ef ég hefði vitað hverslags skemmtun ég væri að missa af.
Þessa dagana er mikið talað um "Nýja Ísland" sem á að byggjast á breyttum forsendum og nýjum reglum. Það þorir hins vegar varla nokkur maður í dag að minnast á að við þurfum "Nýja Þorrablótið" - enda væri slíkt algjörlega út í hött. Við höfum séð það hér í kvöld að gengi bolvískra kvenna fellur ekki í takt við hlutabréfavísitölur eða gengi krónunnar. Þvert á móti, gengisvísitala bolvískra kvenna stígur jafnt og þétt og er raunávöxtun þeirra sú allra besta í heiminum. Við getum fengið "Nýtt Ísland" en gamla góða þorrablótið okkar verða að vera á sínum stað í tilverunni.
Mér er víst ætlað að tala um konur hér í kvöld, það er merkilegt hvað ég get verið lengi að koma mér að efninu. Það er eins og ég sé ennþá lítill drengur en þá þorði ég ekki að ræða um konur, horfa á konur - hvað þá að tala við þær. Það mætti halda að ég hafi verið hræddur við konur, því ég roðnaði og fölnaði á víxl og kom varla upp orði í návist þeirra. En núna er öldin önnur og ég nýt þess að vera umvafinn konum. Hvort sem er á heimilinu, í vinnunni eða í ræktinni. Ég gæti ekki lifað án þeirra.
Við karlmenn elskum konur og tilvera okkar væri litlaus án þeirra. Sannkallað líf án lita. Ást okkar á konum kviknar strax við fæðingu og mæður elska drengina sína langt fram á fullorðinsaldur. Stundum er það reyndar svo að þær eru ekki alveg tilbúnar að láta drengina sína af hendi til annarra kvenna. Þetta var nú samt ekkert þannig með mig, ég held að mamma hafi nú verið búin að fá nóg af mér eftir þessi 30 ár sem hún var búin að fæða mig og klæða.
Að lokum gerðist það þó að glæsileg ísfirsk kona varð á vegi mínum. Og þar datt ég aldeilis í lukkupottinn. Ég ætla að trúa ykkur fyrir því að hún Harpa mín er svo æðisleg að það mætti halda að hún væri bolvísk. Hún þrífur húsið, eldar matinn, þvær þvottinn, tekur til, vaskar upp, býr um rúmið - listinn er næstum ótæmandi. Eins og góðri eiginkonu sæmir er Harpa orðin algjörlega ómissandi á heimilinu. Ég veit ekki hvar ég væri staddur ef hennar nyti ekki við.
Mig langar að ljúka máli mínu með því að vitna í kveðskap Páls Ólafssonar:
Læt ég fyrir ljósan dag
ljós um húsið skína
ekki til að yrkja brag
eða kippa neinu í lag
heldur til að horfa á konuna mína.
Nú langar mig að biðja karlana í salnum að lyfta glösum til heiðurs konum. Að lokum stígum við á stokk og syngjum Fósturlandsins Freyja.
Athugasemdir
þú hefur verið í sælu,,vímu" vinur sæll....og þá sjá menn sýnir
Katrín, 25.1.2009 kl. 20:28
Baldur!! ef hún Harpa frænka mín fær ekki lengri lista en þetta, þá bara....... þrífa, vaska upp, búa um rúm. Var þér ekki hent út á þorrablótinu? ég bara spyr,,
hvað með, vel máli farin, heiðarleg, hæfileikarík, námsfús, falleg, vel ættuð oogggggg, ma ma ma... jæja kallinn ég skal fyrirgefa þér þú hefur bara ekki fengið nægjan tíma til að segja allt,, eða hvað?
Halla Signý Kristjánsdóttir, 25.1.2009 kl. 21:41
Þetta var alveg frábært hjá þér Baldur. þú komst þessu vel til skila og vaktir mikla kátínu hjá fólki og til þess er leikurinn gerður ekki satt svo var hann Gummi svo góður með ljósið heheheh
Gunna GummaHafsa (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.