Mánudagur, 17. desember 2007
Veðrið
Þegar fátt er um umtalsefni getur verið gott að tala um veðrið. Hér í Bolungarvíkur hefur verið skrítið veður í dag. Fyrir kvöldmat var þreyfandi bylur en eftir kvöldmat var grenjandi rigning með tilheyrandi vatnsflaumi á götum bæjarins. Til dæmis var Vitastígurinn sem ólgandi fljót þegar ég rölti niður í Einarshús á aðalfund Golfklúbbs Bolungarvíkur í kvöld. Þá segja fjölmiðlar frá aurskriðu sem lokaði Hnífsdalsvegi í kvöld og vegfarendum er ráðið frá því að keyra veginn um Óshlíð vegna hættu á aurskriðum. Á þessum árstíma eigum við frekar von á því að snjóflóð ógni umferð um Óshlíðarveg en svona er nú veðurfarið orðið skrítið hjá okkur. Klukkan 7 í kvöld var 1 stigs hiti hér í Bolungarvík en nú klukkan 11 er 12 stiga hiti - það er ekki eðlilegt ástand á þessum árstíma.
Aðalfundur Golfklúbbs Bolungarvíkur fór fram í kvöld og þar var Guðbjartur Flosason kjörinn formaður. Ég er þó enn viðloðandi stjórn klúbbsins en mun sitja sem varaformaður næsta árið. Þórður Vagnsson var kjörinn ritari og Guðrún D Guðmundsdóttir gjaldkeri. Meðstjórnendur verða Arnar Smári Ragnarsson, Páll Guðmundsson og Unnsteinn Sigurjónsson. Afkoma GBO var góð á árinu 2007 en klúbburinn var með góðan hagnað á starfsárinu, á dágóða bankainnistæðu og er algjörlega skuldlaus.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.