Föstudagur, 16. nóvember 2007
Stjórnmálaflokkur í samkeppni við einkaaðila
Fyrir hönd fyrirtækis míns, Grundarhóls sf, sem rekur www.vikari.is tek ég slíkri samkeppni fagnandi enda veit ég að samkeppni er af hinu góða en einokun og fákeppni er af hinu illa. Lögmál markaðarins munu að lokum ráða því hvernig einstökum aðilum vegnar á þessu sviði og þá munu þeir hæfustu lifa af.
Hér að framan tók ég fram að það væri stjórnmálaflokkurinn Samfylkingin sem stæði að baki vefnum www.skutull.is en mér virðist sem forsvarsmenn vefsins reyni að sverja slíkt af sér. Því er að minnsta kosti haldið fram að vefurinn sé vestfirskur þjóðmálavefur sem sé ekki háður neinum stjórnmálaflokki og að fréttamat og fréttaskrif stjórnist eingöngu af áhuga og metnaði þeirra sem að vefnum standa.
Það er mjög ánægjulegt að fólk í pólitík vilji flytja góðar fréttar frá sinni heimabyggð - ég hef gert slíkt hið sama í rúmlega 4 ár og held að mér hafi tekist að vera nokkuð hlutlægur þegar pólitík hefur komið við sögu. Ég á ekki von á öðru en að aðstandendur Skutuls verði hlutlægir í umfjöllun sinni um málefni líðandi stundar og mig grunar að innkoma Skutuls á markaðinn veiti t.d. Bæjarins besta (bb.is) og svæðisútvarpi RÚV kærkomið aðhald varðandi fréttaflutning af svæðinu.
Hitt er annað mál að ef ég hefði staðið í sporum aðstandenda www.skutull.is þá hefði ég farið aðrar leiðir til að tryggja óhæði og hlutleysi vefsins. Í fyrsta lagi þá hefði mér aldrei dottið í hug að nota nafnið "Skutull" eða nokkra skírskotun í málgagn Samfylkingarinnar. Í öðru lagi hefði ég ekki notað rauða punktinn sem er merki Samfylkingarinnar í valmynd vefsins. Í þriðja lagi hefði ég ekki notað rauða lit Samfylkingarinnar í allar fyrirsagnir á vefnum. Í fjórða lagi hefði ég sleppt því að birta rafrænar útgáfur (pdf) af málgagni Samfylkingarinnar á vefnum. Í fimmta lagi hefði ég ekki búið til sér flokk í "Tenglum" sem tileinkaður er Samfylkingunni (að vísu tómur sem stendur). Útlitslega er engin tilraun gerð til þess að undirstrika óhæði og hlutleysi Skutuls og að mínu mati er þar um mikil mistök að ræða hjá aðstandendum vefsins.
Það er eitt sem ég á erfitt með að skilja í viðbrögðum bæjarráðs Ísafjarðarbæjar við beiðni Skutuls um auglýsingastyrk og það er að bærinn vilji eingöngu styðja við bakið á stærsta vefmiðlinum sem starfandi er í sveitarfélaginu. Um leið er vísað í að sveitarfélagið styðji ekki við bakið á þeim áhugamönnum sem halda úti svæðisbundnum fréttasíðum á borð við www.thingeyri.is svo eitthvað sé nefnt. Að sjálfsögðu eiga bæjaryfirvöld að styðja við bakið á þessum svæðisbundnu fréttasíðum.
Bolungarvíkurkaupstaður hefur stutt við bakið á www.bb.is með birtingu valdra frétta á heimasíðu sinni auk þess sem bæjarfélagið er með auglýsingu á vef bb.is. Einnig get ég upplýst að vefurinn www.vikari.is hefur notið stuðnings frá Bolungarvíkurkaupstað, bæði á síðasta kjörtímabili þar sem minn stjórnmálaflokkur var í meirihluta sem og á núverandi kjörtímabili þar sem ég sit í minnihluta bæjarstjórnar.
Að lokum vil ég óska Samfylkingunni á Ísafirði til hamingju með Skutuls-vefinn og ég vona að þar verði fluttar margar góðar fréttir frá Vestfjörðum. Ég vil einnig nota tækifærið og benda félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum á Ísafirði að stofna sinn eigin fréttavef til mótvægis við Samfylkinguna.
Athugasemdir
Sæll Baldur. Ég þakka hlý orð í garð Skutuls.is.
Þú verður að skoða skutul betur, því engan rauðan punkt er þar að finna - heldur fallegan rauðan kjálka. Ekki get ég heldur séð það að tenglasafnið sé tileinkað Samfylkingunni sérstaklega, sama hvað ég reyni. Varðandi rauðan litinn, þá er hann afskaplega fallegur og er ekki með vísan í Samfylkinguna frekar en Glitni... t.d. hef ég ekki heyrt neinn gera athugasemd við að bb.is sé í bláum ljóma, en það er nú annað mál.
Þetta er rétt hjá þér með samkeppnina. Hún er af hinu góða og þá sérstaklega í fjölmiðlun.
Annars var gleðilegt að Ingibjörg Sólrún hafi getað opnað vefinn - hún er utanríkisráðherra okkar allra.
Arna Lára Jónsdóttir, 16.11.2007 kl. 18:46
Sæl Arna Lára.
Rauða punktinn er að finna þegar þú ferð með músina yfir "Valmynd" ofarlega í vinstra horni vefsins, þar eltir merki Samfylkingarinnar músarbendilinn upp og niður valmyndina.
Ég sagði ekki að tenglasafnið væri tileinkað Samfylkingunni heldur að einn af nokkrum undirflokkum í tenglasafninu hefði verið eyrnamerktur Samfylkingunni. Þegar ég skrifaði færsluna í gærkvöldi var sá flokkur tómur - núna er hann horfinn. I wonder why.
Frá opnun Skutuls-vefsins hafa aðstandendur hans eytt miklu púðri í að reyna að sannfæra netverja um að vefurinn sé frjáls og óháður. Það sem stendur upp úr er einfaldlega, af hverju var ekki meira púðri eytt í að hafa vefinn þannig útlítandi að ekki væri hægt að bendla hann svo auðveldlega við Samfylkinguna?
Baldur Smári Einarsson, 16.11.2007 kl. 20:46
Það er spurning sem þú færð sjálfsagt ekki svar við Baldur. Það er alveg sama hvað þau rembast við að þvo Samfylkinguna af síðunni það tekst ekki svo glatt. Ég skil heldur ekki hvers vegna þau viðurkenna ekki bara að þetta er undirsíða Samfylkingarinnar eins og skín í gegn.
Ingólfur H Þorleifsson, 17.11.2007 kl. 08:18
Ekki skil ég þetta þras um þennan nýja vef, skutull.is Í hvað heimi lifir þú Baldur ef þú telur að enginn nema þú sem ert á kafi í pólitík, geti skrifað fréttir án þess að blanda pólitík í málið, eða eru það bara sjálfstæðismenn sem hægt er að teysta í fréttaskrifum. Hvernig færð þú það út Ingólfur að þessi nýi vefur sé undirsíða Samfylkingarinnar þótt fólk úr þeim flokk standi að síðunni. Annars kemur mér það ekkert á óvart að bæjarstjórn Ísafjarðar vilji ekki auglýsa eða styrkja þennan vef og í raun ætti það gleðja þá sem standa að þessum vef, því íhaldið á Ísafirði er svo siðlaust að t.d. krafðist bæjarstjóri þess á sínum tíma að fá að ritskoða allt efni á Bæjarins besta ef fjalla átti um Ísafjarðarbæ og var það ástæðan fyrir að Halldór Jónsson hætti á því blaði og flutti úr bænum.
Jakob Falur Kristinsson, 18.11.2007 kl. 16:24
Jakob, þú segir: "Í hvað heimi lifir þú Baldur ef þú telur að enginn nema þú sem ert á kafi í pólitík, geti skrifað fréttir án þess að blanda pólitík í málið, eða eru það bara sjálfstæðismenn sem hægt er að teysta í fréttaskrifum. "
Þú misskilur mig, ef þú lest aftur skrif mín um eigin reynslu af sviði fjölmiðlunar þá sagði ég orðrétt "Ég á ekki von á öðru en að aðstandendur Skutuls verði hlutlægir í umfjöllun sinni um málefni líðandi stundar ". Í hvaða heimi lifir þú ef þú skilur þessi orð á þann veg að enginn nema ég geti skrifað fréttir án þess að blanda pólitík í málið?
Baldur Smári Einarsson, 18.11.2007 kl. 16:59
Ég biðst afsökunar, ég tók ekki eftir þessari setningu um aðstandenda Skutuls, aðeins að þú værir hlutlægur í þínum skrifum. Mín mistök.
Jakob Falur Kristinsson, 18.11.2007 kl. 17:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.