Miðvikudagur, 7. nóvember 2007
Flótti unga fólksins
Á dögunum kom út fróðleg skýrsla um áhrif aflasamdráttar í þorski á fjárhag sveitarfélaga. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um íbúaþróun á nokkrum stöðum á landsbyggðinni síðastliðin 10 ár. Þar er sérstaklega horft til þess hve mikið íbúum yngri en 40 ára hefur fækkað á tímabilinu og þar koma í ljós skuggalegar tölur.
Í skýrslunni er Bolungarvík ekki tekin sérsktlega fyrir en ég gerði mína eigin útreikninga á íbúaþróun síðustu 10 ára í Bolungarvík. Þar kemur í ljós að Bolvíkingum hefur fækkað um 191 á tímabilinu eða um 17,5%. Ef aðeins er horft til aldursflokksins yngri en 40 ára þá er fækkunun þar 209 manns eða heil 29,4% - það er einfaldlega kallað hrun. Af þessu leiðir að Bolvíkingum 40 ára og eldri hefur fjölgað um 18 á þessum 10 árum sem þýðir 4,7% fólksfjölgun í aldurshópnum.
Þessi þróun er grafalvarlegt mál og öllum má vera ljóst að slík íbúaþróun mun á endanum ganga frá viðkomandi sveitarfélögum. Ég ætla að leyfa mér að birta stuttan kafla úr fyrrgreindri skýrslu þar sem fjallað er um þessa íbúaþróun.
Unga fólkið fer ýmist í skóla sem eru annars staðar á landinu eða fær vel launað vinnu á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Að námi loknu er það fátt sem dregur fólk aftur til heimahaganna. Ástæða þess er bæði það að fá störf við hæfi eru í boði og einnig að þjónusta er takmörkuð. Eldra fólkið er bundið traustari böndum við heimaslóðir. Þar kann átthagatryggð að ráða nokkru en einnig kann að skipta máli að þetta fólk hefur komið sér upp húsnæði sem lítið fengist fyrir miðað við jafnstórt húsnæði á Reykjavíkursvæðinu. Hröð fækkun ungs fólks veldur því að búast má við að fólki haldi áfram að fækka á þessum stöðum á komandi árum. Að því kemur að fólki á vinnualdri fer að fækka mjög hratt. Sífellt færri verða eftir til að standa undir rekstri bæjarfélaganna og borga skuldir þeirra.
Það þarf að stöðva flótta ungs fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Flóttinn verður ekki stöðvaður nema að til komi umfangsmiklar samstilltar aðgerðir. Samgöngur og fjarskipti þurfa að vera í sama klassa og á höfuðborgarsvæðinu og ungu fólki þarf að standa til boða margvísleg tækifæri í eigin heimabyggð. Þar þurfa til dæmis að vera til staðar tækifæri til menntunar, tækifæri til afþreygingar auk góðra atvinnutækifæra.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:58 | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Baldur Smári. Ég var að velta því fyrir mér í sambandi við vikari.is hvort það sé ekki hægt að græja myndirnar með fréttunum þannig að hægt sé að stækka þær. Bara smella á þær þá birtast þær stærri. Er eitthvað hægt að gera í því?
Sigurvin Guðmundsson, 12.11.2007 kl. 17:32
Sæll Sigurvin.
Því miður býður núverandi vefstjórnarkerfi Vikari.is ekki upp á að stækka myndir. Þessa dagana er verið að hanna nýjan vef fyrir mig og þá munu allar myndir fá að njóta sín.
Baldur Smári Einarsson, 14.11.2007 kl. 16:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.