Vantraust

Þessi frétt á bb.is vekur upp ýmsar spurningar. Í fréttinni er því m.a. haldið fram að ef Innheimtustofnun sveitarfélaga yrði flutt til Ísafjarðar þá gæti flutningurinn haft neikvæð áhrif á innheimtuárangur stofnunarinnar. Þetta er mat starfshóps sem skipaður var um flutninginn (líklega innan Sambands íslenskra sveitarfélaga) og telur hópurinn einungis fært að flytja 6-8 störf til Ísafjarðar. Þá kemur fram að Sigurgeir Sigurðsson (Seltjarnarnesi), formaður stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélga, telur að ekki sé vænlegt að flytja nein störf til Ísafjarðar þar sem slíkt gæti riðlað starfsemi stofnunarinnar verulega og haft slæm áhrif á innheimtuárangur hennar. Ekki það að stofnunin hafi hingað til getað hrópað húrra yfir innheimtuárangri sínum. 

Að mínu mati er Samband íslenskra sveitarfélaga með þessu einfaldlega að lýsa yfir vantrausti á landsbyggðina. Sambandið segir: "Ykkur er ekki treystandi til að standa ykkur jafnvel og höfuðborgarbúar". Og þetta kemur frá samtökum sveitarfélga á Íslandi.

Þessar yfirlýsingar koma mér reyndar ekkert sérstaklega mikið á óvart. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur, eftir því sem ég best veit, gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að flytja fá störf út á land en þegar kemur að því að flytja störf á vegum Sambandsins út á land þá er eins og slíkt sé ómögulegt. Nú stendur Sambandið því frammi fyrir ákveðinni prófraun, þetta er spurning um að standast prófið eða falla á því.

Það er þó ef til vill til lausn á vandanum ef málið er að Ísfirðingum sé ekki treystandi fyrir þessu gulleggi Sambandsins. Lausnin er að flytja afganginn af Innheimtustofnun sveitarfélga til Bolungarvíkur. Þannig mætti nýta orkuna sem felst í hrepparígnum milli þessara byggðarlaga til að bæta innheimtuárangur stofnunarinnar.

Að lokum er rétt að skora á stjórn Sambands íslenskra sveitarfélga að sýna kjark og gott fordæmi fyrir ríkisvaldið og flytja Innheimtustofnun sveitarfélaga í heilu lagi til Vestfjarða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband