Gjaldþrot EG

Það eru ekki nema rúmlega 14 ár síðan fyrirtækið Einar Guðfinnsson hf var tekið til gjaldþrotaskipta, að mig minnir að kröfu Landsbanka Íslands. Eins og kom fram í fréttum í gær er ekki enn búið að ljúka skiptum á þrotabúinu en skiptastjórinn telur að því verki munu ljúka um næstu áramót. Það sem vekur athygli mína er að skiptastjórinn segir að þrotabúið eigi 15 milljónir króna í bankainnistæðum sem munu að öllum líkindum renna til ríkisins.

Lengi hafa gengið sögur um að Einar Guðfinnsson hf hafi í raun ekki verið gjaldþrota heldur hafi Landsbanki Íslands þvingað félagið í þrot. Sömu sögur segja að EG hafi átt fyrir skuldum sínum og 15 milljón króna afgangur í þrotabúi rennur vissum stoðum undir það.

Burt séð frá öllum samsæriskenningum er ljóst að sá kvóti sem var á skipum félagsins (Dagrúnu ÍS og Heiðrúnu ÍS) auk mikillar hlutabréfaeignar væri mikils virði í dag og ef fyrirtækið hefði fengið að lifa aðeins lengur eru miklar líkur á að það hefði náð að rétta úr kútnum líkt og önnur fyrirtæki sem voru í svipaðri stöðu á þessum tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Valið á víst að hafa staðið á milli Alla ríka á Eskifirði og EG , en EG varð því miður fyrir valinu en fyrirtækið hefði pottþétt náð að plumma sig ef það hefði fengið að tóra aðeins lengur en því var fórnað til að senda ákveðin skilaboð út í samfélagið.

Páll Guðmundur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 17:14

2 identicon

Já elsku karlinn minn svona unnu þínir menn þá og gera en þann daginn í dag.

Á þessum árum voru Hornfirðingar í vandræðum með KASK og bjuggu til félag sem hét  Borgey til að bjarga útgerð Kaupfélagsins ekki var hægt að láta það klikka.

Fyrir þá sem vilja vita þá var það Ásgrímur Halldórsson sem byggði upp KASK og sonur hans var ráðherra þegar EG var sett á hausinn.

Endilega skoðið hvernig Borgey þróaðist en  það félag er uppistaðan í Skinney/Þinganes í dag sem er líka partur af S HÓPNUM svokallaða (Dóri sá um sína)

Kannski var þenslan svona mikil hjá bolvíkingum þá eins og okkar ágæta ríkisstjórn virðist halda núna.

Ég persónulega er orðin svolítið pirraður á þessum endalausu árásum hins opinbera á  sjávarútvegin  í hvert einasta skipti sem víkarar rífa sig upp þá kemur högg frá hinu opinbera (Það virðist vera last að vera duglegur í dag)

Hvernig er það Baldur Smári eru engir vestfirðingar sem geta haft áhrif í sjálfstæðisflokknum svona til þess að koma þeim í skilning um að það sé fleira til en bankar og bankastjórar.  

Magnús Már Jakobsson (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 10:47

3 identicon

Ég held ég fari rétt með að tveir af þremur bankastjórum Landsbankans á þeim tíma hafi verið vestfirðingar: Sverrir Hermannsson og Halldór Guðbjarnarson. Ég er þó ekki alveg með ættfræðina á hreinu.

Kristján Jónsson (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband