Víkin kæra, Víkin mín

Það var ljúft að koma heim frá Spáni í gær eftir að hafa stundað golfíþróttina af kappi í sólinni á Islantilla í um vikutíma. Árangurinn í golfinu var misjafnt og má með sanni segja að mér hafi gengið betur með sumar holur en aðrar.

Þrátt fyrir margar góðar tilraunir varð fuglinn aðeins einn í þessari ferð og kom hann á 27. holu - þótt ótrúlegt megi virðast þar sem 27. holan er talin ein af þremur erfiðistu holum vallarins. Höggin á þessari 404 metra löngu par 4 holu urðu sem sagt þrjú, það fyrsta var um 250 metra langt "misheppnað" upphafshögg sem hafnaði rétt vinstra megin við brautina. Annað höggið var með 4 járni og stöðvaðist boltinn minn fyrir framan flötina vinstra megin. Þar sem boltinn minn var nokkuð fyrir utan flötina velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að vippa inn á flötina eða pútta að holunni. Úr varð að ég tók upp pútterinn og ætlaði að freista þess að tryggja parið. Svo skemmtilega vildi til að púttið heppnaðist fullkomlega, boltinn rúllaði ákveðið um 30 metra leið og stefndi allan tímann á pinnann. Það urðu svo mikil fagnaðarlæti hjá mér þegar boltinn datt ofan í holuna.

Síðasta holan sem ég spilaði á Islantilla í ár varð mér einnig eftirminnileg. Þetta var 18. holan og spilaðist hún þannig: Upphafshöggið var um 240 metra langt og hafnaði hægra megin í brautinni. Þá tók ég upp fleygjárnið (pitcing wedge) og ætlaði að freista þess að setja boltann inn á flötina. Það vildi ekki betur til en svo að boltinn hafnaði á steinsteyptum göngustíg vinstra megin við flötina, þaðan skoppaði boltinn hátt upp í loftið og endaði flugið í hótelgarðinum, nánar til tekið fyrir framan barinn. Þar sem boltinn var "out of bounds" eða utan vallar þurfti ég að slá annan bolta frá sama stað, þessi bolti fékk sviðað flug en stöðvast þó á flötinni um 15 metra frá holu. Það er skemmst frá því að segja að ég setti púttið niður og endaði því holuna á skolla. Ég gat varla fengið betri endi á þessari frábæru golfferð.

En það er alltaf jafn gott að koma aftur heim til Bolungarvíkur eftir ferðalög um fjarlæg lönd. Þegar ég ók inn í bæinn í gær komu þessar ljóðlínur upp í hugann á mér:

Víkin kæra, Víkin mín,
við þig hef ég tryggðir bundið,
hafið fríða, fjöllin þín,
fegurst þegar sólin skín.
Eilíft vara áhrif þín,
æ það hef ég betur fundið.
Víkin kæra, Víkin mín,
við þig hef ég tryggðir bundið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú þarft að fara að kenna mér golf...mér skylst að ef ég ætla í businessinn þá verður maður að kunna golf :)
Hefði eiginlega átt að læra þetta áður en ég fór hingað út til miami! Það er einhver staður hérna í fylkinu sem heitir "mötul bíts" hehe sem er víst alveg ómissandi. Ég læt mér nægja rússíbanana í Orlando þessa helgi ;)

Sólskinskveðjur,
Erna "litla" frænka

Erna (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 03:56

2 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Sæll Baldur Smári.  Ég spilaði Water Edge völlin í dag með met árangri.  Í grenjandi rigningu en óskaplega notalegt.  Við félagarnir úr sendráðinu spilum golf alla laugardaga.  Laumum okkur reyndar stundum á driving range í miðri viku.  Ég hef sett mér það sem takmark að ná góðum tökum á golfíþróttinni þann tima sem ég verð á Sri Lanka.

Gunni Þ. 

Gunnar Þórðarson, 20.10.2007 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband