Mánudagur, 11. júní 2007
Framkvæmdagleði
Það stendur til að helluleggja allar gangstéttir við Völusteinsstræti í sumar og af því tilefni ákvað ég að nota tækifærið og taka lóðina hjá mér í gegn. Þegar ég keypti hús númer 13 við götuna í fyrra sá ég strax að það þyrfti að taka til hendinni í garðinum. Þar sem ég á ættir mínar að rekja til manna sem eru þekktir fyrir hafa snyrtilegt og fallegt í kringum sig get ég ekki hugsað mér að vera eftirbátur þeirra á því sviði.
Nú eru hafnar framkvæmdir hjá mér, búið er að rífa niður steypta girðingarveggi sem voru fyrir framan og til hliðar við húsið. Stétt sem var bakvið húsið er líka horfin, sem og snúrustaurar og fúinn sólpallur sem var greinilega kominn til ára sinna. Í dag verður lokið við að slétta undirlag lóðarinnar og í framhaldinu kemur nýr jarðvegur áður en torf verður lagt yfir allt saman. Þá verður bílastæðið stækkað og hellulagt og það kemur ný stétt frá götunni að húsinu. Síðar kemur sólpallurinn og einhver blómabeð svo eitthvað sé nefnt.
Þegar ég fór í vinnuna í morgun var unnið á fullu í lóðinni eins og þessi mynd ber með sér.
Athugasemdir
Hlakka til að sjá útkomuna;) líst vel á þetta.
sigga (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 22:32
Það er aldeilis tekið til hendinni. Góður !!!
Guðbjörg (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.