Fimmtudagur, 3. maí 2007
Islantilla: Dagur sjö
Dagurinn í dag var alveg magnaður og ég var að brillera í golfinu. Í morgunsárið héldum við yfir landamærin til Portúgal og tókum þar 18 holur á Quinta da Cima golfvellinum. Ég lék á 96 höggum - 72 með forgjöf - og fékk 36 punkta, þ.a. ég var alveg við það að lækka mig í forgjöf.
Quinta da Cima golfvöllurinn þykir erfiður sökum þess hve langur hann er en hann er þó frekar flatur þannig að hann er auðveldur yfirferðar. Þá eru óteljandi sandgryfjur á vellinum, líklega um 7-10 að meðaltali á hverri braut. Grínin eru með miklu landslagi auk þess að vera mjög hröð en mér finnst alltaf spennandi að spila við slíkar aðstæður.
Ég spilaði fyrri 9 holurnar á 49 höggum en hóf seinni 9 með miklum látum, fékk fyrst par, svo skolla og loks fugl á 12. holu sem er 450 metra löng par 5 hola. Þriðji fuglinn í ferðinni er sem sagt kominn í hús. Skorið á seinni 9 var 47 högg og hefði vel getað orðið lægra ef ég hefði ekki misst taktinn á síðustu þremur holunum.
Eftir frægðarförina til Portúgals voru leiknar 9 holur (10-18) hér á Islantilla. Mér gekk bölvanlega til að byrja með og var kominn með 22 högg eftir aðeins 3 holur. Síðustu 6 holurnar lék ég á 26 höggum (3 pör og 3 skollar) og endaði því á 48 höggum. Skorið er allt að batna hjá mér og gefur það mér góðar vonir fyrir golfsumarið á Íslandi.
Á morgun verður svokölluð "hjóna-, para- og hommakeppni" en þar verður leikinn hefðbundinn Texas Scramble. Að sjálfsögðu stefni ég á sigur á morgun og ætla að leggja mig allan fram til að svo geti orðið.
Að lokum get ég glatt ykkur með því að ég er loksins að taka einhvern lit hérna úti í sólinni. Liturinn er þó ekkert sérstaklega brúnn en ég get allavega sagt að bláa höndin sé heldur betur farin að roðna.
Athugasemdir
Ég sé að það hreinlega rignir upp í nefið á þér af einskæru monti yfir eigin velgengni í golfinu. Ég bið þig þó að verða ekki of rauður í sólinni því blái liturinn fer þér svo afskaplega vel.
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir , 3.5.2007 kl. 22:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.