Miðvikudagur, 2. maí 2007
Islantilla: Dagur fimm
Golfið var upp á sitt besta hjá mér í gær, það gekk eiginlega allt upp hjá mér. Drævin voru í flestum tilfellum yfir 200 metrana og þar að auki þráðbein og á braut. Það er nefnilega mikilvægt að hitta brautirnar hér á Islantilla því annars er maður bara út í skógi. Járnahöggin og stutta spilið eru að batna og púttin eru alveg í lagi.
Ég gekk 27 holur í gær og er farinn að sjá að ég spila mikið betur gangandi heldur en þegar ég er á golfbíl. Fyrstu 18 holurnar í gær voru Texas Scramble holukeppni sem gekk mjög vel og vannst 3/2. Við spiluðum 19.-27. holu og 1.-9. holu og gerði ég út um leikinn með fugli (þar sem ég átti öll höggin sjálfur) á 6. holu þar sem við komumst 3 holum yfir, svo féll 7. holan og þá var sigurinn í höfn.
Síðustu 9 holurnar (10.-18. hola) voru leiknar í punktakeppni. Ég held að þar hafi ég spilað minn besta hring á Islantilla til þessa en ég var á 44 höggum eða 20 punktum. Skorið samanstóð af 3 skrömbum, 3 skollum, 2 pörum og einum fugli sem kom á 17. holu.
Ég fékk sem sagt tvo fugla í dag og þar með er öðru markmiði ferðarinnar náð, nú á ég aðeins eftir að spila 18 holur á innan við 100 höggum. Ef spilamennskan verður í sama klassa og í gær er næsta víst að ég nái því markmiði.
Pistilinn byrjaði á umfjöllun um leik Liverpool og Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildinnar og er við hæfi að enda á sömu nótum. Það er skemmst frá því að segja að leiknum lauk með glæsilegum sigri Liverpool og því munu strákarnir frá Bítlaborginni leika um Evrópumeistaratitilinn við annað hvort Manchester United eða AC Milan sem eigast einmitt við í kvöld. Ég mun halda með Manchester United í kvöld en það er ekki á hverjum degi sem slíkt gerist. Ástæðan er ekki sú að ég telji að Man.Utd. sé auðveldari andstæðingur en AC Mílan, heldur að það verður mikið skemmtilegra að vinna erkifjendurnar frá Manchester heldur en súkkulaðistrákana frá Mílanó. Hins vegar væri mér alveg sama fyrir hvoru liðinu við myndum tapa.
Það er nóg komið af monti frá mér í dag og þessi pistill orðin nógu langur. Það rignir hér í dag og er golfvöllurinn lokaður a.m.k. fram að hádegi. Þetta eru engar smáskúrir eins og við þekkjum fyrir vestan heldur er hér um að ræða svokallað skýfall eða hellidemba. Ég er frekar svartsýnn á að okkur verði hleypt út á völlinn í dag. Á morgun er á dagskránni að fara til Portúgals og spila á Quinta de Cima golfvellinum - vonandi verður þá búið að stytta upp.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.