Bæjarmálin

Á heimasíðu Bolungarvíkurkaupstaðar má sjá lista yfir nýjustu fundirgerðir nefnda á vegum bæjarfélagsins. Frá því 27. mars síðastliðinn hafa 7 fundir komist þar á blað og sat ég 6 þeirra, 4 fundi bæjaráðs og sinn fundinn hvor hjá umhverfismálaráði og bæjarstjórn. Einhver gæti haldið að þettta væri merki um að ég væri áhrifamikill innan stjórnkerfis bæjarins en að mínu mati er þetta einungis merki um að lítið sé um fundarhöld hjá öðrum nefndum bæjarins.

Hér að neðan má sjá hvenær síðasti skráður fundur er hjá einstökum nefndum og ráðum.

  • Atvinnumálaráð: 6. mars 2007
  • Bæjarráð: 17. apríl 2007
  • Bæjarstjórn: 29. mars 2007
  • Félagsmálaráð: 26. febrúar 2007
  • Fræðslumálaráð: 28. febrúar 2007
  • Hafnarstjórn: 27. mars 2007
  • Húsnæðisnefnd: 10. janúar 2007
  • Íþrótta- og æskulýðsráð: 23. janúar 2007
  • Landbúnaðarnefnd: 24. janúar 2007
  • Menningarráð: 22. mars 2007
  • Umhverfismálaráð: 10. apríl 2007

Það er einnig greinilegt að sumar nefndir á vegum bæjarfélagsins funda sjaldan. Það vekur upp þá spurningu hvort ekki sé rétt að fækka nefndum innan bæjarkerfisins. Til gamans má geta þess að um 5% íbúa Bolungarvíkur eru aðalmenn í nefndum og ráðum á vegum bæjarfélagins. Það er ótrúlega hátt hlutfall og jafngildir því að ég Reykjavík sæti nærri 6 þúsund manns í nefndum og ráðum á vegum borgarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Atli Magnússon

Áður en hægt er að hefja umræðu um fækkun nefnda finnst mér nauðsynlegt að erindisbréf nefndanna væri til. Veistu hver staðan er á því máli Baldur?

Jón Atli Magnússon, 22.4.2007 kl. 21:13

2 Smámynd: Baldur Smári Einarsson

Með stöðuna á erindisbréfum verðurðu að spyrja þitt fólk í meirihlutanum... boltinn er hjá þeim í því máli.

Í fyrrasumar þótti ekki nauðsynlegt að erindisbréf nefnda væru fyrir hendi þegar gerðar voru breytingar á nefndakerfi bæjarins enda er verksvið nefnda skilgreint í bæjarmálasamþykktinni. Þar var fjölgað í tveimur nefndum án sýnilegrar ástæðu, þ.e. ekki var um að ræða breytingu á verksviði nefndanna.

Burt séð frá tilvist erindisbréfa get ég ekki séð að það sé neinum til góðs að stoppa umræðu um breytingar á nefndum og ráðum í bæjarfélaginu. Ef við viljum framþróun þá ber okkur skylda til að vera gagnrýnin á okkur sjálf og leita leiða til að gera hlutana betur en áður.

Að mínu mati getur fækkun nefnda skilað aukinni skilvirkni í stjórnkerfinu auk þess sem slíkar breytingar geta lækkað stjórnunarkostnað hjá sveitarfélaginu.

Baldur Smári Einarsson, 23.4.2007 kl. 02:26

3 Smámynd: Jón Atli Magnússon

Ég tel það ekki sambærilegt að fækka/fjölga í nefndum og að leggja þær niður. Ef leggja á nefnd niður verður, að mínu mati, verksvið nefndarinnar að vera á hreinu. Varla eru þau svo á hreinu og skilgreind í bæjarmálasamþykktinni því ráðist var í það verkefni að gera erindisbréfin.

Ef færa á verkefni af einni nefnd yfir á aðrar þarf það að vera skýrt hvað fer yfir á hvaða nefnd. Það stöðvar ekkert framþróun að gera hlutina vel og skipulega.

Ég hef prófað að taka sæti í nefnd það sem erindisbréfin voru/eru ekki til. Ég þurfti að lesa erindisbréf nefnda á heimasíðu annara bæja til að fá yfirsýn yfir hvað gæti tilheyrt nefndinni og hvað ekki. Ég held, eftir þá reynslu, að það geti ekki annað en aukið skilvirkni nefndanna að hafa verksvið þeirra betur skilgreint en nú er.

Vel má vera að stjórnsýslan yrði skilvirkari með færri nefndum en skilvirknin verður aldrei mæld í fjölda funda né í að hafa alltaf sama fólkið á fundum, það er næsta víst.

Jón Atli Magnússon, 23.4.2007 kl. 10:09

4 identicon

Ég er sammála Jóni Atla að það þurfi ekki endilaga að fara saman virkni nefnda og fjöldi funda.

Ég var formaður Menningarráðs Bolungarvíkur á síðasta kjörtímabili við fengum erindisbréfið eftir tæp þrjú ár en létu það ekki stoppa okkur í þeim verkefnum sem undir menningarmál féllu hverju sinni, settum okkur ákveðin verkefni og markmið í þeim og unnum út frá því.

Ég er nokkuð sáttur við okkar störf þennan tíma en það er svo sem annara að  dæma  hvernig til tókst.

Ég tel eðlilegt að taka nefndarskipulag bæjarstjónar  til skoðunar þó ekki væri nema vegna þess að færa má  fyrir því rök að í vissum tilfellum skarast verksvið nefnda, og þó ekki væri nema af þeim sökum er nauðsynlegt að fara yfir skipulagið.

 Ég vil fá sem flesta til að leggja hönd á plóginn í því verki að gera góðan bæ betri en það má þó ekki vera á kostnað skilvirkrar stjórnsýslu.

Gunnar Hallsson (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 17:24

5 identicon

Þar sem ég er nú varaformaður í nefnd (Félagsmálaráði) þá má ég til með að láta aðeins í mér heyra varðandi þessa umræðu. 

Er það ekki rétt skilið hjá mér að sveitafélagið greiðir aðeins fyrir þá fundi sem haldnir eru af tiltekinni nefnd? Þannig að "enginn fundur = engin útgjöld" fyrir sveitafélagið? Ég sé því ekki að fækkun nefnda myndi hafa í för með sér sparnað fyrir Bolungarvíkurbæ. Væntanlega myndu mál þeirrar nefndar sem felld yrði niður færast yfir á aðra nefnd sem síðan þyrfti að funda og því ólíklegt að fækkun nefnda hefði teljandi sparnað í för með sér. Hvað skilvirknina varðar þá túlka ég skilvirkni t.d. á þann hátt að e-r utanaðkomandi sendir bréf til tiltekinnar nefndar, hún fundar hið fyrsta um málið, tekur í framhaldinu niðurstöðu (og/eða vísar málinu áfram) og sendir viðkomandi einstaklingi svar eins fljótt og auðið er. Ég veit því ekki heldur hvernig fækkun nefnda myndi leiða til þess að þetta ferli myndi einfalda málið eða taka eitthvað styttri tíma. En hitt er annað mál að skilvirkni er hugtak sem hægt er að túlka á ýmsa vegu og því get ég ekki fullyrt hvað það varðar.  

Vissulega er gott að vera gagnrýninn í hugsun og taka mál reglulega til endurskoðunar og mats, en hitt er annað mál að  það er nú engin nýlunda að einstaka nefndir innan Bolungarvíkurbæjar fundi sjaldan. Þegar flett er í gegnum yfirlit fundagerða á vef Bolungarvíkurbæjar má sjá að sumar nefndir funda reglulega, aðrar sjaldan og sumar nánast aldrei. Ef bara væri litið á fjölda funda, en ekki innihald þessarra fundagerða má ætla að ansi margar nefndanna væru óþarfar og ætti bara að þurrka út. Til dæmis fundaði Umhverfismálaráð aðeins fimm sinnum allt árið 2005! Ef menn hefðu á þeim tíma hugsað sem svo að þessi tiltekna nefnd hefði greinilega ekkert að gera fyrst hún fundaði svona sjaldan og það ætti því bara að henda henni út af lista - þá væri nú eitthvað illa farið fyrir aðalskipulagi bæjarins sem þessi umrædda nefnd sinnir af miklum dugnaði þessa dagana! Eins varðandi Hafnarstjórn. Sú nefnd fundaði bara 1x allt árið 2001, sama gildir um árið 2002, tók svo "slurk" árið 2003 og fundaði þá fjórum sinnum, bætti svo við einum fundi árið 2004 (eða fimm fundir talsins það árið), datt svo aftur niður árið '05 og fundaði aðeins einu sinni. Árið '06, rétt fyrir Sveitastjórnakosningar voru svo þrír fundir hjá nefndinni (sem mér skilst að hafi mestmegnis fjallað um ógreiddar skuldir er tengdust Hafnarstjórn, ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það - en málefnið tengdist amk ekki þjónustuþegum nefndarinnar að því er mér skilst - hálffúlt fyrir sveitafélagið að þurfa að spreða í svoleiðis fundi finnst mér). Síðan þá hefur Hafnarstjórn haldið fjóra fundi til viðbótar. Ég held nú samt að engum manni detti í hug að þurrka Hafnarstjórn út.  Eða hvað, eru hafnarmálin kannski ekkert svo mikilvæg í þessum mikla og sögufræga útvegsbæ fyrst Hafnarstjórn fundar svona sjaldan? Er þessi nefnd kannski bara úrelt eins og margir vilja láta varðandi t.d. landbúnaðarnefnd. Nei, ég held að málið sé nú kannski ekki alveg svo einfalt. 

Ég vil taka það fram að með þessum upplýsingum að ofan er ég ekki að reyna að koma höggi á D-listann, en ég vil hinsvegar benda á að ekki er endilega allt sem sýnist í þessum málum og þó svo að sumar nefndir fundi e.t.v. ekki oft þá er tilefnið heldur ekki alltaf til staðar. Auðvitað getur vel verið að einstaka nefndir mættu funda oftar, skila niðurstöðum sínum fyrr frá sér o.s.frv. en á heildina litið sýnist mér samt að fundum einstaka nefnda fari fjölgandi frekar en hitt sem segir mér að annað hvort hafi verið of sjaldan fundað hér áður fyrr eða eftirspurnin sé einfaldlega orðin meiri Ég held að fjöldi funda ætti ekki að fara eftir því hvaða fólk situr í nefndinni, né heldur hvaða flokkur sé í meirihluta heldur einfaldlega eftir eftirspurn og málefnum líðandi stundar. Fyrir nokkrum árum var e.t.v. ekki þörf á jafn mörgum fundum hjá Umhverfismálaráði og núna og því eðlilegt að fundir séu haldnir oftar. Sama gildir um Landbúnaðarnefnd. Þó svo að nefndin fundi e.t.v. ekki oft þá getur vel verið að eftir nokkur ár verði brjálað að gera hjá þeim líkt og hjá Umhverfismálaráði nú.

Án þess að ég vilji nefna neinar sérstakar nefndir, þá er auðvitað þarft mál að skoða reglulega hvort hægt sé að sameina einhverjar þeirra í eina en slík vinna á ekki að byggjast á fjölda funda heldur erindisbréfum sem hefðu að mínu mati átt að vera tilbúin fyrir MÖRGUM árum og þarf virkilega að fara að klára að útbúa.En þar til erindisbréf hafa verið útbúin og útgefin - þá held ég að bíða eigi með umræðu um fækkun nefnda hjá sveitarfélögum. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir er síðan hægt að leggjast yfir það hvað hver og ein nefnd á að vera að gera og í framhaldinu er síðan hægt að taka ákvörðun um hugsanlegar sameiningar nefnda. 

En það er nú einu sinni bara þannig að eðli málsins samkvæmt funda sumar nefndir bara sjaldan, ekkert endilega óþarflega sjaldan heldur bara í samræmi við málin sem koma á borð viðkomandi nefndar. Eru ekkert að funda of oft og eru þ.a.l. að spara Bolungarvíkurbæ stórfé. Segjum t.d. að það væru gerðar kröfur á allar nefndir að funda amk einu sinni í mánuði, jafnvel án tilefnis. Það þætti mér óeðlilegt og væri síður en svo sátt við að peningar sveitafélagsins færu í slíkt óþarfa bruðl.

En jæja - læt þetta duga í bili, þetta er allavega mín skoðun á þessu máli.

Kveðja úr borginni,

Ilmur Dögg

Ilmur Dögg (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 17:43

6 Smámynd: Dagný Kristinsdóttir

Vissulega ætti að skoða það að fækka nefndum. Algjör óþarfi að eyða þessum peningum sem til eru í nefndarsetu nefnda sem ekki er þörf á.

En voru það ekki þínir félagar Baldur sem settu þessar nefndir á koppinn?  Eða hefur þeim fjölgað sl. ár?

Dagný Kristinsdóttir, 24.4.2007 kl. 17:47

7 Smámynd: Dagný Kristinsdóttir

Jæja Ilmur svaraði mér, sá ekki svarið hennar fyrr en eftir á.

Dagný Kristinsdóttir, 24.4.2007 kl. 17:48

8 Smámynd: Baldur Smári Einarsson

Takk fyrir allar athugasemdirnar, það er gott að það séu skiptar skoðanir á þessu máli.

Fyrst til að svara Dagný þá liggur það í hlutarins eðli að forverar mínir í Sjálfstæðisflokknum lögðu drögin að því stjórnkerfi sem við búum við í dag í Bolungarvík enda hafði sá flokkur verið í forystu í stjórnun sveitarfélagsins í nokkra áratugi. Nefndum hefur líklega ekki fjölgað undanfarin ár en hins vegar var nefndarmönnum í tveimur nefndum fjölgað síðasta sumar.

Ég veit ekki hvort ég snerti viðkvæmar taugar hjá einhverjum þegar ég sagði að sumar nefndir funduðu sjaldnar en aðrar. Sumar nefndir þurfa að funda sjaldnar en aðrar og það er ekkert athugavert við það ef ekkert fundarefni er til staðar. Húsnæðisnefnd fundaði t.d. oft á þeim tíma þegar mikið var um tilboð í íbúðir í eigu nefndarinnar, nú er hins vegar lítil hreyfing á þeim markaði og því sjaldan fundað.

Baldur Smári Einarsson, 25.4.2007 kl. 00:35

9 Smámynd: Baldur Smári Einarsson

Mér finnst eðlilegt að við ræðum um hvernig stjórnsýslunni í bæjarfélaginu er háttað, við þurfum að skoða hvað við getum gert betur og hvernig við getum aukið tekjurnar og dregið úr kostnaði.

Það er rétt að minna á að bæjarfélagið stendur illa fjárhagslega, áætlanir gera t.d. ráð fyrir yfir 50 milljón króna tapi á þessu ári - það er nærri 60 þúsund krónur á hvern bæjarbúa. Skuldir bæjarfélagsins eru nærri 900 millj.kr. sem er um 1 millj.kr. á hvern bæjarbúa og þær lækka ekki á meðan sveitarfélagið er rekið með tapi. Við verðum því að leita allra leiða til að bæta rekstur sveitarfélagsins og fækkun nefnda er ein þeirra hugmynda sem vert er að skoða í því sambandi.

Baldur Smári Einarsson, 25.4.2007 kl. 01:19

10 Smámynd: Dagný Kristinsdóttir

Alveg sammála þér Baldur. Ef rekstur bæjarins á að skána  þarf að leita allra leiða til að svo gerist. Að byrja á toppnum finnst mér hljóma ágætlega. 

Dagný Kristinsdóttir, 25.4.2007 kl. 10:47

11 identicon

Að sjálfsögðu er hægt að skoða nefndarfyrirkomulag. Sú staðreynd að 5% bæjarbúa sitji í nefndum er að ég held bara ágætt. Það að bera sig saman við höfuðborgarsvæðið er ekki réttmætt, ég meina það sitja hvað....7 í bæjarstjórn í Bolungarvík en rúmlega helmingi fleiri í Reykjavík....ef við eigum að bera okkur saman við Reykjavík með nefndarstörf og fækka nefndum eða nefndarmönnum þá þyrfti að sama skapi að taka til í bæjarstjórninni og fækka þar einnig. Ég held að þetta hafi verið furðulega orðað Baldur....að fækka í nefndum gengur ekki endilega og að leggja nefndir niður fer ílla við opna stjórnsýsluhætti. Sameining er gott hugtak og vel væri hægt að sameina nefndir. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ekki myndi ég vilja búa í bæjarfélagi þar sem sætu 3 í bæjarstjórn og 4 nefndir með 3 nefndarmenn hver. Æ það er gott að benda fólki á að það þarf að vinna vinnuna sína eða þ.e hlutina sem það tekur að sér en í svona litlu bæjarfélagi er oft sama fólkið sem nennir og gefur sig í nefndarstörf eða aðra fundarsetu og því á einnig að fagna því að fólk gefi sig í þetta,sbr einnig ykkur sem eruð í bæjarstjórn sama hvar í flokki þið standið (mér finnst oft umræða hér í bæ vera ansi brennimerkt hvoru megin hver og einn situr...afsakið en það eru allir í leið að einu markmiði þ.e að gera Bolungarvík gott samfélag). Það er frábært að vita af góðu fólki sem leggur alúð og dugnað í að halda merkjum Bolungarvíkur sem hæst og gera samfélagið okkar sem best. Ég tek allavega ofan fyrir ykkur. Og Baldur minn...þú ert jákvæður í eðlisfari og ættir því að eiga auðvelt með að benda á jákvæða hluti...annars líst mér vel á þessa bloggsíðu. takk fyrir mig

Pálína Jóhanns (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 00:23

12 Smámynd: Baldur Smári Einarsson

Takk fyrir commentið Pálina.

Það er stundum þannig að maður þarf að taka sterkt til orða til að hreyfa við fólki. Ég gerði það í þessu tilfelli og mér sýnist að það hafi skilað góðum árangri.

Fækkun/sameining nefnda þýðir til dæmis ekki að einhverjir málaflokkar verði útundan heldur getur sú staða alveg eins komið upp að viðkomandi málaflokkum verði betur sinnt en áður. Það gæti til að mynda átt við þar sem verksvið nefnda hafa skarast eins og Gunnar Halls benti á.

Í kosningabaráttunni fyrir ári síðan var m.a. talað um nauðsyn breytinga, að það væri t.d. kominn tími til að einhverjir aðrir en Sjálfstæðismenn héldu um stjórnartaumana í bænum. Niðurstöður kosninganna leiddu til þess að nýir aðilar tóku við stjórn. Ég átti satt að segja von á að það yrði eitt fyrsta verkefni nýrra valdhafa að endurskoða nefndaskipulag bæjarins með það fyrir augun að breyta áherslum í stjórnkerfinu og gera það einfaldara og ódýrara - skilvirkara. Það þætti mér jákvætt skref fram á við. En það er ekki öll nótt úti enn og ég vænti þess að þessi umræða fari víðar og að það fari svo að lokum að menn öðlist kjarkinn til að breyta.

Baldur Smári Einarsson, 26.4.2007 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband