Sunnudagur, 1. apríl 2007
Fiskistofa til Bolungarvíkur?
Ég skil vel að Hafnfirðingar vilji ekki hafa stórt og ljótt álver í bæjarfélaginu sínu. Mér finnst það líka bera vott um hugrekki að þora að hafna auknum störfum og auknum tekjum bæjarfélagsins af slíkri starfssemi. Í gær kom sem sagt í ljós að það er ekki eftirspurn eftir álveri meðal íbúa Hafnarfjarðar. En framboðið af nýjum álverum virðist vera nægt ef marka má áhyggjur umhverfisverndarsinna. Þá virðist líka vera ljóst að það er eftirspurn eftir álverum hjá íbúum annarra bæjarfélaga á Íslandi. Þar hafa meðal annars verið nefnd bæjarfélögin Húsavík og Reykjanesbær. Eins og á öðrum sviðum hlýtur framboðið að elta eftirspurnina uppi.
Þar sem Hafnfirðingar virðast vera áhugasamir um að kjósa um framtíð einstakra vinnustaða í bæjarfélaginu er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvort Fiskistofa gæti ekki verið næst á dagskrá. Það er þekkt að eitt síðasta verk Hafnfirðingsins Árna M. Mathiesen í starfi sjávarútvegsráðherra hafi verið að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Það er ekki víst að allir Hafnfirðingar hafi verið ánægðir með þessa ákvörðun ráðherra - væri þá nokkuð úr vegi að leyfa þeim að kjósa um hvort þeir vilji þessa starfssemi Fiskistofu í bæjarfélaginu? Ef Hafnfirðingar vilja ekki Fiskistofu þá get ég fullvissað ráðamenn um að Bolvíkingar myndu taka við starfsemi Fiskistofu fegins hendi.
En það er líklega ekki hægt að ætlast til að Hafnfirðingar láti frá sér gullmola á borð við Fiskistofu, starfsemi Fiskistofu telst ekki til stóriðju og mengar umhverfið ekkert. Það er nefnilega svoleiðis starfssemi við þurfum til Bolungarvíkur því Vestfirðir hafa jú gefið sig út fyrir að vera stóriðjulaus landshluti. Við Bolvíkingar getum ekki tekið við álveri en við getum tekið við Fiskistofu - og hvar annars staðar en í elstu verstöð landsins ætti Fiskistofa betur heima?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Facebook
Athugasemdir
Hvaðan kom sú yfirlýsing, þ.e. um stóriðjulausa Vestfirði? Hefði ekki átt að kjósa um slíka yfirlýsingu í ljósi þess að stóriðja okkar Vestfirðinga hefur hingað til falist í fiskveiðum á fengsælum fiskimiðum? Þegar stórt er spurt......
Katrín, 1.4.2007 kl. 19:28
Kata, ég vona að þú takir viljann fyrir verkið í þessum svörum mínum:
1. Yfirlýsingin um stóriðjulausa Vestfirði kom sennilega fram á vettvangi sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum, e.t.v. fjórðungsþingi.
2. Stóriðja er orkufrekur iðnaður. Fiskveiðar geta því ekki talist stóriðja. Oft er notað líkingamál þar sem einhver atvinnuvegur er sagður "stóriðja" einhverra byggðarlaga en þá er átt við að sá atvinnuvegur sé mikilvægur byggðarlaginu.
3. Yfirlýsingin um stóriðjulausa Vestfirði er viljayfirlýsing sem hefur ekkert formlegt gildi. Eftir því sem ég best veit er staðreyndin sú að Vestfirðingar nota meiri orku en þeir framleiða og stórvirkjanir virðast ekki vera mögulegar í fjórðungnum. Því er tæknilega ekki hægt að starfrækja stóriðju á Vestfjörðum. Þarf þá að kjósa um stóriðjulausa Vestfirði?
Baldur Smári Einarsson, 1.4.2007 kl. 20:11
Takk Baldur minn fyrir svörin. Einhvern tímann var talað um að Orkubúið myndi virkja á Ströndum að mig minnir í Ófeigsfirði. Velti því fyrir mér hvort það sé út af borðinu eða hvort það væri ekki ráð að skoða það betur í ljósi þess að við notum meiri orku en framleiðum. Fiskiveiðum líkt við stóriðju er líkingamál en það angra mig að kvótakerfið skuli hamla okkur Vestfirðingum að nýta þau mið sem eru hér fyrir utan. En einhvers konar iðnað eða ígildi hans þurfum við hingað vestur ef fiskurinn dugar ekki lengur til. Hvað med gagnabankana/stöðvar sem ráðgert er að setja niður hér á Íslandi, gæti ekki eins og einn slíkur verið staðsettur hér á Vestfjörðum? Eða er dreifikerfi Orkubúsins ekki nógu stöðugt?
Fyrirgefðu hvað þetta er orðið langt en það er að mörgu að hyggja
Katrín, 1.4.2007 kl. 21:23
Katrín, bara svona til upplýsinga þá sá ég einhvernsstaðar að virkjun í Hvalá í Ófeigsfirði yrði um 300GWh en t.a.m. Búrfellsvirkjun er 2TWh eða 2000GWh. Hún myndi því aldrei duga ein og sér.
Til þess að fá netþjónabú vestur þarf að hringtengja ljósleiðarann, annars myndi ekki nokkur heilvita maður setja niður netþjónabú á Vestfjörðum.
Jón Atli Magnússon, 1.4.2007 kl. 23:23
þá vindum okkur í það að hringtengja ljósleiðarann...eru ekki að koma kosningar og menn í atkvæðaleit út um allar grundir og krummavíkur?? svo verða menn heilvita
Katrín, 1.4.2007 kl. 23:30
sælir ágætir Bolvíkingar - ég vil fá að leggja orð í belg varðandi Fiskistofu. Fiskistofu er verið að koma upp á Ísafirði og vænlegast er nú fyrir Vestfirðinga að slást ekki um þá fáu brauðmola sem þó fara vestur. Ég hef hinsvegar í samstarfi við nafna minn hjá Náttúrstofu Vestfjarða lagt til 16 ný stöðugildi við þá stofnun - Já SEXTÁN og verð margfeldi áhrifin auðvitað meiri með þeim verkefnum sem þær stöður skapa. OG ´NAVE er jú í Bolungarvík. Þessi vinna er komin í hendur Einars K. Guðfinnssonar og nefndarinnar. Þetta gerðum við í okkar frítíma og ekki á síðum dagblaðanna. Vonandi skilar þetta einhverju og það hlýtur að vera næsta skref að þú Baldur Smári hringir í Einar og fylgir þessu eftir. Bestu kveðjur, Þorleifur.
Þorleifur Ágústsson, 2.4.2007 kl. 10:27
Þorleifur þetta eru frábærar fréttir. Vonandi kemst þetta á koppinn, þú átt heiður skilinn fyrir þetta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.4.2007 kl. 11:01
Pistillinn um Fiskistofu til Bolungarvíkur var skrifaður að vissu leyti í tilefni gærdagsins... 1. apríl, þannig að það var nú ekki full alvara í þessu Ég notaði Bolungarvík sem dæmi í stað Ísafjarðar þar sem EKG er Bolvíkingur líkt og ÁMM er Hafnfirðingur.
En ég mun fylgja eftir öllum góðum hugmyndum varðandi eflingu atvinnulífs á Vestfjörðum, svo framarlega sem ég veit um hvað þær snúast.
Baldur Smári Einarsson, 2.4.2007 kl. 12:22
Merkilegt Þorleifur. En hvað meinar þú með að tillögurnar hafi verið unnar í ykkar frítíma en ekki á síðum dagblaðanna?
Og svo að síðustu þá er það reynsla margra mætra karla og kvenna að tillögur sem settar eru í hendur sjálfstæðismanna eiga það til að týnast og koma aldrei fram. Svo er einnig um fundarboð. En nú ertu búinn að koma vitneskjunni um tillögurnar á prent og hver veit nema þær skili sér
Katrín, 2.4.2007 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.