Færsluflokkur: Enski boltinn

Stórleikur í kvöld

Liverpool og Chelsea eigast við í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Ég á von á að mínir menn frá Bítlaborginni mæti baráttuglaðir til leiks og jarði þetta Chelsea lið í eitt skipti fyrir öll. Það ætti engum að koma á óvart að Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea hefur vælt mikið undan meiðslum sinna manna í fjölmiðlum undanfarna daga. Það er hluti af sálfræðistríðinu sem er sett upp fyrir hvern leik og er tilgangurinn m.a. að freista þess að andstæðingarnir vanmeti Chelsea liðið. Það er viss óróleiki í mér fyrir þennan leik en ef Liverpool nær að halda hreinu á Stamford Bridge í kvöld er ég nokkuð viss um að það dugi til þess að komast í úrslitaleikinn í Grikklandi.

Rauðu djöflarnir

Ég verð að hrósa liðmönnum Manchester United fyrir frammistöðuna gegn Roma fyrr í kvöld þar sem þeir tóku Ítalana hreinlega í nefið. Það var meistarabragur á Man.Utd. í kvöld og ótrúlegt að hugsa til þess að leikur í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar skuli hafa farið 7-1. Um miðjan seinni hálfleik fékk ég símtal frá Liverpool manni sem var staddur á Old Trafford og það má með sanni segja að stemmningin þar var frábær.

Aðdáendur Rauðu djöflana... til hamingju með glæstan sigur í kvöld. Aðdáandi Roma fær hins vegar samúðarkveðjur...


Liverpool á sigurbraut

Sigurganga Liverpool í Meistaradeildinni í fótbolta heldur áfram. Í kvöld voru það liðsmenn PSV Einhoven sem máttu þola 3-0 tap fyrir Liverpool á heimavelli. Mörk Liverpool í leiknum skoruðu þeir Steven Gerrard, John Arne Riise og Peter Crouch. Það er við hæfi að láta mynd af hinum rauðhærða Riise fylgja með þessari færslu.

John Arna Riise


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband