Færsluflokkur: Bolungarvík
Mánudagur, 19. mars 2007
Bolvískar skjámyndir
Ég á ansi margar myndir frá Bolungarvík í safni mínu. Í myndasafninu "skjámyndir" má finna fjórar myndir sem hægt er að nota sem skjámyndir. Ég set inn fleiri myndir síðar ef áhugi fyrir hendi.
Mánudagur, 19. mars 2007
Örnefnasögur - Snjólfsgjá
Tveir menn voru á ferð í hríðarveðri á Skálavíkurheiði. Villtust þeir þar og lentu upp á Heiðarfjall. Fóru þeir lengi inn eftir fjallinu, en vissu ekki hvar þeir fóru. Loks komu þeir þar að er gil eitt mikið gekk niður frá fjallsbrúninni. Ræddu þeir nú hvort þeir skyldu freista þess að fara niður gilið, eða leita annars niðurgöngu, en kom ekki saman um hvað gera skyldi. Annar þeirra, sem Snjólfur er nefndur sagði þá: "Öll gil liggja niður". Settist hann svo á staf sinn á gilbrúninni og renndi sér niður. Kom hann niður og bjargaðist til byggða. Félagi hans, sem ekki vildi fylgja honum eftir, kom aldrei fram. Gil þetta heitir síðan Snjólfsgjá og er spölkorn fyrir innan Grjótleiti á Stigahlíð.
Sunnudagur, 18. mars 2007
Örnefnasögur - Morðingjamýri
Það eru til margar sögur á bakvið örnefni í landi Bolungarvíkur eða hins forna Hólshrepps. Sumar þessara örnefnasagna hafa áður birst á www.vikari.is og verða aftur birtar hér. Einhvers staðar stendur að góð vísa sé aldrei of oft kveðin og mér finnst það eiga við í þessu tilviki. Fyrsta örnefnasagan er uppáhaldssagan mín - Morðingjamýri.
Morðingjamýri
Tveir menn höfðu farið í ránserindum fram í Tungudal. Komu þeir þar að bæ er einstæðingsekkja ein bjó. Eina kú átti hún og ekki annað gripa. Að þessum bæ réðust ránsmennirnir. Leystu þeir út kúna ekkjunnar og ætluðu að halda af stað með hana. Kom þá ekkjan þar að, bannaði þeim að taka kúna og reyndi að ná henni úr höndum þeirra. Kvað hún þeim myndi hefnast fyrir ef þeir rændu þessum eina grip hennar. Hvorki vildu þeir blíðkast við bænir hennar, né heldur sinna banni hennar, en í þess stað hótuðu þeir henni hörðu ef hún reyndi að tefja þá. Þegar konan samt sem áður gerði allt sem hún gat til þess að verja eign sína, báru þeir á hana vopn og veittu henni banasár. Síðan héldu þeir leiðar sinnar með kúna, niður með hlíðinni áleiðis til sjávar.
Neðan undir Hnjúkum er mýrarblettur sem áður var mjög blautur og djúp kelda eða dý í honum miðjum. Þegar ránsmennirnir komu að mýrinni, lögðu þeir þegar hiklaust yfir hana og vissu sér enga hættu búna af því. En er þeir komu að dýinu, sem var stærra og dýpra en þeir höfðu ætlað, misstu þeir kúna niður í það. Reyndu þeir þá að ná henni upp úr, en þá tókst ekki betur til en svo, að þeir sukku sjálfir í dýið ásamt kúnni og festust svo í leirleðju að þeir gátu með engu móti losað sig. Sigu þeir æ dýpra niður í leðjuna unz þeir voru komnir í kaf og létu þar líf sitt. Rættist þannig spá ekkjunnar, að þeim mundi lítið lán verða að verknaði sínum. En mýrin heitir síðan Morðingjamýri.
Nú er mýri þessi þurr orðin. Var hún ræst fram, niður í djúpa laut, sem er niður undan henni, og þurrkuð upp. Og um skeið var tekinn þar upp mór.
Neðan undir Hnjúkum er mýrarblettur sem áður var mjög blautur og djúp kelda eða dý í honum miðjum. Þegar ránsmennirnir komu að mýrinni, lögðu þeir þegar hiklaust yfir hana og vissu sér enga hættu búna af því. En er þeir komu að dýinu, sem var stærra og dýpra en þeir höfðu ætlað, misstu þeir kúna niður í það. Reyndu þeir þá að ná henni upp úr, en þá tókst ekki betur til en svo, að þeir sukku sjálfir í dýið ásamt kúnni og festust svo í leirleðju að þeir gátu með engu móti losað sig. Sigu þeir æ dýpra niður í leðjuna unz þeir voru komnir í kaf og létu þar líf sitt. Rættist þannig spá ekkjunnar, að þeim mundi lítið lán verða að verknaði sínum. En mýrin heitir síðan Morðingjamýri.
Nú er mýri þessi þurr orðin. Var hún ræst fram, niður í djúpa laut, sem er niður undan henni, og þurrkuð upp. Og um skeið var tekinn þar upp mór.