Baldur Smári Einarsson

Ég er þrítugur Bolvíkingur, sonur Einars Hálfdánssonar og Guðríðar Benediktsdóttur. Ég er yngstur í barnahópnum en systkini mín eru Hálfdán, Benedikt, Halldór Grétar og Anna. 

Ég er viðskiptafræðingur að mennt og útskrifaðist með cand.oecon gráðu af reikningshalds- og endurskoðunarsviði viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands vorið 2001. Ég útskrifaðist sem dux scholae frá Framhaldsskóla Vestfjarða (nú Menntaskólinn á Ísafirði) vorið 1996. Grunnskólanám stundaði ég við Grunnskóla Bolungarvíkur og naut þar leiðsagnar margra góðra kennara.

Ég starfa hjá Endurskoðun Vestfjarða ehf í Bolungarvík en hef áður unnið hjá Sparisjóð Bolungarvíkur, Bolungarvíkurkaupstað, Einari Guðfinnssyni hf og Vagni Hrólfssyni heitnum en hjá honum steig ég mín fyrstu skref í launaðri vinnu.

Ég sit í bæjarstjórn Bolungarvíkur fyrir hönd D-lista Sjálfstæðismanna. Samhliða því að vera bæjarfulltrúi sit ég í bæjarráði og umhverfismálaráði. Áður hef ég verið varabæjarfulltrúi og varamaður í atvinnumálaráða og íþrótta- og æskulýðsráði svo eitthvað sé nefnt.

Ég sit í stjórn Mímis, félags ungra sjálfstæðismanna í Bolungarvík, og var formaður þess félags um nokkurra ára skeið. Þá hef ég setið í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélagana í Bolungarvík og gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfin fyrir Sjálfstæðisflokkinn í gegnum árin.

Ég er formaður Héraðssambands Bolungarvíkur en undir HSB heyra Ungmennafélag Bolungarvíkur og Golfklúbbur Bolungarvíkur þar sem ég gegni einnig formennsku. Innan raða GBO hef ég einnig verið varaformaður og ritari. Þá er ég félagi í Lionsklúbbi Bolungarvíkur og gegndi þar starfi gjaldkera um tveggja ára skeið.

Ég er gallharður stuðningsmaður knattspyrnufélagsins Liverpool en styð Skagamenn í íslenska boltanum - í neðri deildum á þó UMFB hug minn og hjarta. Barcelona er í uppáhaldi á Spáni og AC Milan á Ítalíu.

Ég er borinn og barnfæddur Víkari og hef búið í Bolungarvík alla mína ævi að frátöldum fjórum vetrum í Reykjavík á háskólaárunum. Mér líkaði lífið í höfuðborginni illa og vil frekar búa í kyrrlátum smábæ heldur en skarkala borgarinnar. Því kýs ég búsetu á landsbyggðinni fram yfir borgarlífið.

Ábyrgðarmaður skv. Þjóðskrá: Baldur Smári Einarsson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband