Föstudagur, 26. október 2007
Gjaldþrot EG
Það eru ekki nema rúmlega 14 ár síðan fyrirtækið Einar Guðfinnsson hf var tekið til gjaldþrotaskipta, að mig minnir að kröfu Landsbanka Íslands. Eins og kom fram í fréttum í gær er ekki enn búið að ljúka skiptum á þrotabúinu en skiptastjórinn telur að því verki munu ljúka um næstu áramót. Það sem vekur athygli mína er að skiptastjórinn segir að þrotabúið eigi 15 milljónir króna í bankainnistæðum sem munu að öllum líkindum renna til ríkisins.
Lengi hafa gengið sögur um að Einar Guðfinnsson hf hafi í raun ekki verið gjaldþrota heldur hafi Landsbanki Íslands þvingað félagið í þrot. Sömu sögur segja að EG hafi átt fyrir skuldum sínum og 15 milljón króna afgangur í þrotabúi rennur vissum stoðum undir það.
Burt séð frá öllum samsæriskenningum er ljóst að sá kvóti sem var á skipum félagsins (Dagrúnu ÍS og Heiðrúnu ÍS) auk mikillar hlutabréfaeignar væri mikils virði í dag og ef fyrirtækið hefði fengið að lifa aðeins lengur eru miklar líkur á að það hefði náð að rétta úr kútnum líkt og önnur fyrirtæki sem voru í svipaðri stöðu á þessum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 25. október 2007
Landsbyggðarskatturinn
Það er rétt hjá formanni LÍÚ að auðlindagjald á sjávarútveg er hreinn og klár landsbyggðarskattur. Fyrir utan að skatturinn er aðeins innheimtur af atvinnustarfsemi sem er að mestu leyti á landsbyggðinni þá er verið að skattleggja sjávarútveginn umfram aðrar atvinnugreinar í landinu.
Formaður Samfylkingarinnar lýsti því ítrekað yfir á fundi sem ég sat með henni í sumar að það væri algjört "prinsipp" að innheimta auðlindagjald af sjávarútvegi. Ef innheimta auðlindagjalds er svo mikið grundvallaratriði þá liggur beinast við að innheimta það af nýtingu annarra náttúruauðlinda, svo sem virkjun fallvatna og jarðvarma að ógleymdu heita vatninu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. október 2007
Feel The Hard Rock
Það er gott að hafa breiðan tónlistarsmekk. Í ræktinni í dag var villta hliðin á mér alls ráðandi en í kvöld var diskur með fallegum sálmasöng í græjunum. Sálmasöngurinn var með hinni sænsku Carolu sem mun einmitt halda jólatónleika í Grafarholtskirkju 20. desember næstkomandi. En rokkið í ræktinni í dag kom meðal annars frá hinum ungversku Hardrox sem eiga eitt heitasta lagið í Evrópu í dag, Feel The Hard Rock (Up To No Good).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 18. október 2007
Víkin kæra, Víkin mín
Það var ljúft að koma heim frá Spáni í gær eftir að hafa stundað golfíþróttina af kappi í sólinni á Islantilla í um vikutíma. Árangurinn í golfinu var misjafnt og má með sanni segja að mér hafi gengið betur með sumar holur en aðrar.
Þrátt fyrir margar góðar tilraunir varð fuglinn aðeins einn í þessari ferð og kom hann á 27. holu - þótt ótrúlegt megi virðast þar sem 27. holan er talin ein af þremur erfiðistu holum vallarins. Höggin á þessari 404 metra löngu par 4 holu urðu sem sagt þrjú, það fyrsta var um 250 metra langt "misheppnað" upphafshögg sem hafnaði rétt vinstra megin við brautina. Annað höggið var með 4 járni og stöðvaðist boltinn minn fyrir framan flötina vinstra megin. Þar sem boltinn minn var nokkuð fyrir utan flötina velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að vippa inn á flötina eða pútta að holunni. Úr varð að ég tók upp pútterinn og ætlaði að freista þess að tryggja parið. Svo skemmtilega vildi til að púttið heppnaðist fullkomlega, boltinn rúllaði ákveðið um 30 metra leið og stefndi allan tímann á pinnann. Það urðu svo mikil fagnaðarlæti hjá mér þegar boltinn datt ofan í holuna.
Síðasta holan sem ég spilaði á Islantilla í ár varð mér einnig eftirminnileg. Þetta var 18. holan og spilaðist hún þannig: Upphafshöggið var um 240 metra langt og hafnaði hægra megin í brautinni. Þá tók ég upp fleygjárnið (pitcing wedge) og ætlaði að freista þess að setja boltann inn á flötina. Það vildi ekki betur til en svo að boltinn hafnaði á steinsteyptum göngustíg vinstra megin við flötina, þaðan skoppaði boltinn hátt upp í loftið og endaði flugið í hótelgarðinum, nánar til tekið fyrir framan barinn. Þar sem boltinn var "out of bounds" eða utan vallar þurfti ég að slá annan bolta frá sama stað, þessi bolti fékk sviðað flug en stöðvast þó á flötinni um 15 metra frá holu. Það er skemmst frá því að segja að ég setti púttið niður og endaði því holuna á skolla. Ég gat varla fengið betri endi á þessari frábæru golfferð.
En það er alltaf jafn gott að koma aftur heim til Bolungarvíkur eftir ferðalög um fjarlæg lönd. Þegar ég ók inn í bæinn í gær komu þessar ljóðlínur upp í hugann á mér:
Víkin kæra, Víkin mín,
við þig hef ég tryggðir bundið,
hafið fríða, fjöllin þín,
fegurst þegar sólin skín.
Eilíft vara áhrif þín,
æ það hef ég betur fundið.
Víkin kæra, Víkin mín,
við þig hef ég tryggðir bundið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 5. október 2007
Grjóthrun á Óshlíðarveg
Það hefur rignt mikið í dag og þar með eru kjöraðstæður fyrir grjóthrun á Óshlíðarveg. Við slíkar aðstæður aka menn veginn ekki að nauðsynjalausu. Þessa stundina er mikið af stórgrýti á Óshlíðarvegi og þurfa bílar að sviga milli vegarhelminga til að komast leiðar sinnar. Það er ekki að ástæðulausu að okkur Víkara hlakki til að fá jarðgöng sem leysa þennan stórhættulega veg af hólmi.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem sýna dæmi um grjót sem fallið hafa á veginn um Óshlíð á undanförnum árum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. október 2007
Skák og mát
Í kjölfar vel heppnaðs Hraðskákmóts Íslands sem haldið var í Bolungarvík nú í haust hefur áhugi Víkara á skáklistinni aukist svo um munar. Bolvíkingar ætla sér stóra hluti í deildakeppni Skáksambands Íslands og stefna á að koma sér upp í 1. deild nú í haust. Stefnan er sem sagt að keppa á meðal þeirra bestu á næsta ári. Á undanförnum vikum hafa fimm skákmenn gengið til liðs við Taflfélag Bolungarvíkur, tveir þeirra eru erlendir skákmeistarar en hinir þrír eru sterkir íslenskir skákmenn sem eiga rík tengsl við Bolungarvík. Þessi fjölgun skákmanna í Taflfélagi Bolungarvíkur gerir félaginu einnig mögulegt að senda B-sveit til leiks í 4. deild og er það í takt við það sem önnur stærri taflfélög í landinu gera.
Á heimasíðu einni í skákheiminum er þessar upplýsingar að finna um sögu skáklistarinnar í Bolungarvík:
"Skáklíf í Bolungarvík hefur alltaf verið mjög öflugt og þar hefur oft á tíðum verið mekka íslenskrar skáklistar. Íslendingar eru með sterkustu skákmenn í heimi miðað við höfðatölu, en Bolungarvík státar af sterkustu skákmönnum á Íslandi miðað við höfðatölu ! Margir af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar komu þangað á áttunda og níundaáratugnum til vinnu og skákæfinga. Meðal þeirra eru: Jóhann Hjartarson, Elvar Guðmundsson, Róbert Harðarson, Þráinn Vigfússon, Ágúst Sindri Karlsson, Karl Þorsteins, Árni Ármann Árnason, Bjarni Hjartarsson, Þorsteinn Þorsteinsson, Jónas P Erlingsson og Ásgeir Þór Árnason. Ekki er að spyrja af árangri kennslustunda heimamanna á skákferil þeirra !Til þess að viðhalda öflugu skáklífi þarf ötula forsvarsmenn. Þar rís nafn Daða Guðmundssonar hæst, en aðrir sem komið hafa mikið við sögu eru m.a.: Sæbjörn Guðfinnsson, Ólafur Ingimundarsson, bræðurnir Unnsteinn og Magnús Sigurjónssynir og hin síðari ár Magnús Pálmi, Stefán Andrésson og Guðmundur Daðason."
Ég vona að áhuginn á skákinni haldi áfram að vaxa hér í Víkinni og að góður árangur náist í deildakeppninni. Þá er aldrei að vita nema gamlir "efnilegir" skákmenn á borð við mig fari að dusta rykið af spænska leiknum og frönsku vörninni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 28. september 2007
Hola í höggi
David Huggins er magnaður 8 ára gamall kylfingur. Í gær fór hann holu í höggi á golfmóti í Englandi og hélt upp á afrekið með því að kaupa sér gosdrykk. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að þetta er í þriðja skiptið sem þessi ungi kylfingu nær holu í höggi. Á morgun er Bændaglíman víðfræga hérna í Bolungarvík, ég ætla að taka þátt og ef svo ólíklega vildi að ég fari holu í höggi þá vænti ég þess að mér verði boðið upp á eitthvað sterkara en gosdrykk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. september 2007
Fyrsta kílóið farið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 25. september 2007
Engin rækjuvinnsla á norðanverðum Vestfjörðum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. september 2007
Vatnsrennibrautin
Samkvæmt heimildum mínum verður hinn svokallaði sundlaugargaður í Bolungarvík tekinn formlega í notkun á laugardaginn. Þá geta bolvískir sundlaugargestir loksins fengið að renna sér í vatnsrennibrautinni og þykir mér nokkuð ljóst að það muni gleðja ansi marga yngri borgara bæjarins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)