Heimilisstörfin og orlof húsmæðra

Eftir að hafa þurft að dveljast heima í nokkra daga vegna veikinda var mér farið að leiðast að geta ekki gert eitthvað gagn. Ég tók mig því til og þreif húsið hátt og lágt um helgina og kórónaði dugnaðinn með kökubakstri. Þrátt fyrir að mér þyki nokkuð tl þess koma að vera duglegur í húsverkunum eru þetta einungis venjuleg störf húsmæðra, þeim finnst ekkert tiltökumál að sinna slíkum verkum á degi hverjum. Ég ber mikla virðingu fyrir húsmæðrum, þær eiga lof skilið fyrir ómælt vinnuframlag á heimilum þessa lands í gegnum tíðina. 

Í framhaldi af orðum mínum hér að ofan um heimilisstörfin má geta þess að til er nokkuð sem heitir orlof húsmæðra en til slíkra orlofa greiða sveitarfélög árlega að lágmarki 100 krónur á hvern íbúa í sveitarfélaginu. Þannig greiðir til að mynda Bolungarvíkurkaupstaður rúmlega 90 þúsund krónur á ári til orlofa húsmæðra. Þó svo að þetta sé ekki há fjárhæð í rekstrarreikningi bæjarfélagsins fannst mér ástæða til að ræða þennan lið sérstaklega í sambandi við fjárhagsáætlunargerðina hjá okkur í desember.

Mér fannst sérstakt að bæjarfélagið væri að leggja fjármuni í orlof húsmæðra því ég sá engan lið þar sem fjármunir voru lagðir í orlof húsfeðra. Á tímum háværar umræðu um jafnrétti kynjanna og breyttrar verkaskiptingu á heimilum finnst mér skrítið að ekki væri veitt fjármunum til orlofs beggja kynja.

Yfirstandandi þingi er nýlokið og því ekki hægt að breyta lögum nr. 53/1972 um orlof húsmæðra að sinni en ég vænti þess að þeir þingmenn sem kjörnir verða til setu á Alþingi nú í maí taki þessi til endurskoðunar sem allra fyrst.

Fyrsta skrefið væri að breyta heiti laganna yfir í "lög um orlof húsmæðra og húsfeðra". Þá þyrfti að breyta nokkrum lagagreinum til að gæta jafnréttis kynjanna, til dæmis væri ekki úr vegi að kveða á um að í orlofsnefndum skuli eftir fremsta megni hafa jöfn hlutföll kynjanna. Það þarf einnig að breyta 6. grein laganna þar sem í stað "Sérhver kona..." kæmi "Sérhver karl eða kona..." Sömu sögu er að segja af 7. greininni en þær leiðréttingar skýra sig sjálfar.

Ég vil sem sagt að jafnréttis sé gætt frá báðum hliðum, það sem einungis hefur verið karla verði einnig kvenna og það sem einungis hefur verið kvenna verði einnig karla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir

Baldur!! Þú ert miklu betri húsmóðir en ég  Þú átt skilið að komast í gott húsmæðraorlof

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir , 19.3.2007 kl. 00:02

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Athyglisverður punktur Baldur.  Jamm af hverju ekki líka húsfeðra. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.3.2007 kl. 12:08

3 Smámynd: Katrín

Þetta mál var rætt á Alþingi eitt sinn og ég man ekki betur að sjálft Kvenréttindafélag Íslands hafi mótmælt því að hróflað verði við þessum ákvæðnum.  Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að karlmenn séu gjaldgengir þarna líka en hins vegar líkar mér ekki hvernig er farið að misnota þessar ferðir.  Það eru ekki lengur þær efnaminni sem fara í þessar ferðir sem oftast nær eru til útlanda, heldur þær sem meira eiga og bæta húsmæðraorlofinu við allar hinar verslunarferðinar til útlanda.

Katrín, 19.3.2007 kl. 19:34

4 Smámynd: Baldur Smári Einarsson

Ekki veit ég hvaða konur hafa farið í svokölluð húsmæðraorlof í gegnum tíðina en ef Kata hefur rétt fyrir sér þá er erfitt að réttlæta tilvist þessa "orlofssjóðs" yfir höfuð.

En ég vil fyrst og fremst jafnrétti hvað kynin varðar í þessu máli.

Baldur Smári Einarsson, 20.3.2007 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband