Kúkur

Það virðist sem færslan mín frá því í gær um lærdóm minn af barnauppeldi hafi fengið einhverja til að setja fram kenningar um að ég meinti eitthvað annað með orðum mínum en það sem stóð í sjálfum textanum. Þeir sömu fá nú annað tækifæri til að setja fram nýjar kenningar.

Ég var svo "heppinn" að þegar ég byrjaði með Hörpu var Íris Embla hætt að nota bleyju og því hef ég ekki enn lært að skipta á barni. Þessa dagana er 2 ára gamall strákur í pössun hjá okkur og hann er enn á bleyjutímabilinu. Eftir kvöldmatinn sátu börnin fyrir framan sjónvarpið í stofunni og ég hélt að þá fengi ég nú frið til að leggja mig. En því var ekki að skipta, allt í einu bárust óhljóð úr stofunni og ég rauk fram til að kanna hvað væri í gangi. Mér til mikillar undrunar og lítillar gleði hafði strákgreyið fengið niðurgang með þeim afleiðingum að þunnur kúkurinn hafði farið í stofusófann. Þar sem ég hafði nú enga reynslu af bleyjuskiptum stóð ég nú frammi fyrir stórkostlegu vandamáli. Vanmáttur minn var slíkur að það eina sem mér kom til hugar var að kalla eftir hjálp frá Hörpu. Hún reddaði mér auðvitað, náði í drenginn og kom honum í nýja bleyju. Mér tókst nú samt að þrífa sófann sómasamlega, en mikið var ég nú feginn að hafa keypt svartan leðursófa en ekki hvítan sófa úr einhverju tauefni. Lærdómurinn af reynslu kvöldsins er skýr, ég verð að fara að læra að skipta á barni - sérstaklega í ljósi þess að frægasta kosningaloforðið mitt var að fjölga Bolvíkingum.


Frekja

Þar sem ég er nýgræðingur í barnauppeldi þá er ég alltaf að uppgötva nýja og skemmtilega hluti. Nú er ég aðeins farinn að læra inn á frekjuköstin og hvernig eigi að bregðast við þeim. Þegar barnið vill t.d. vaka fram eftir á kvöldin eða neitar að borða kvöldmatinn setur það stundum fram ýmsar misjafnlega gáfulegar hótanir sem eiga að tryggja að maður láti undan vilja þess. Í fyrstu lét ég yfirleitt undan enda vildi ég ekki vera vondi pabbinn en það dugði ekki til því það komu bara fram nýjar og nýjar óskir til að uppfylla. Að lokum áttaði ég mig á því að þetta var bara vítahringur sem ég varð að komast út úr. Þá fór ég að prufa að standa fastur á mínu fór að láta hótanirnar sem vind um eyru þjóta. Og viti menn, það bar góðan árangur. Núna er ég bara vondi pabbinn í smá stund og morguninn eftir er ég aftur orðinn besti pabbi í heimi. Það að fá að takast á við frekjuköstin í gegnum barnauppeldið hefur líka kennt mér að sjá svipaða hluti hjá fullorðna fólkinu í kringum mig. Reynslan af barnauppeldinu á vonandi eftir að koma að góðum notum þegar bregðast þarf við frekjuköstum fullorðna fólksins.


Millifærsla

Þrátt fyrir að ég sé í eðli mínu íhaldssamur þá gerðist sá fáheyrði atburður að ég skipti um vinnu um síðustu mánaðamót. Reyndar segja gárungarnir að ég hafi verið millifærður á milli vinnustaða. En ég stíg sem sagt núna af sviði reikningshalds og endurskoðunar og reyni að fóta mig í  fjármálaheiminum þar sem bókhaldskunnáttan á að fá að njóta sín.


Åst er ekki ást!

Ástin réði ríkjum í sumarfríi fjölskyldunnar í Danaveldi. Ég taldi mig hafi fundið ástina á Jótlandi en eftir samtal við dönskumælandi systur mína komst ég að því að danska orðið Åst þýðir ekki ást. Danska orðið yfir ást er víst kærlighed og hefði ég nú átt að vita það eftir að hafa fengið 9 í dönsku á stúdentsprófi fyrir alltof mörgum árum síðan.

ast

En hvað þýðir annars danska orðið "Åst"?


Eisbaer

Prinsessan á heimilinu er afar forvitin um ísbirni þessa dagana enda hafa slík bjarndýr verið á flestra vörum undanfarna daga. Hún er viss um að ísbirnir séu vænstu skinn og tekur ekki mark á orðum okkar fullorðna fólksins um að ísbirnir geti verið hættulegir. Það dugir henni heldur ekki að horfa á ísbirni í sjónvarpinu, hún vill fá að "sjá þá út um gluggann". Þá rann það upp fyrir mér að við Bolvíkingar eigum auðvitað eitt stykki ísbjörn á náttúrugripasafninu okkar - og auðvitað mun Íris Embla fá að líta hann augum við fyrsta tækifæri.

Íris Embla fær að fara í fyrsta sinn til útlanda núna í vikunni en ferðinni er heitið til Legolands í Danaveldi. Við eigum ekki von á því að mæta ísbjörnum á ferð okkar um Danmörku en gætum  í staðinn yljað okkar við hlusta á þennan gamla techno-smell....


Kappróður - Saman á sjó

Tvær góðar fréttir rak á fjörur mínar í dag og snerta báðar þeirra félaga úr '73 árgangnum í Bolungarvík. Fyrri fréttin var í Mogganum í dag þar sem segir frá því að Guðmundur Hrafn Arngrímsson hafi verið aðalforsprakkinn að stofnun róðrarfélags í Reykjavík en það félag ætlar að hefja kappróður til vegs og virðingar á Íslandi á ný. Hin fréttin kom úr bloggheimum þar sem upplýst var að Karl Hallgrímsson væri maðurinn á bakvið B-vaktina sem er með lag í úrslitum Sjómannalagakeppni Hátíðar hafsins og Rásar 2.

 Báðar fréttirnar rötuðu inn á Víkari.is og þeir sem vilja kynna sér málið frekar geta gert það með því að smella á tenglana hér að neðan.

Hefja kappróður til vegs og virðingar á ný

Bolvískt lag í úrslitum í Sjómannalagakeppni


Lét drauminn rætast

Þegar ég var krakki var margt sem mig langaði að eiga en þar sem ég átti aðhaldssama foreldra þá var ekki látið undan öllum óskum mínum. Einn af æskudraumum mínum var að eignast hljómborð því ég hafði séð hverslags undratæki slíkt hljóðfæri í höndum Jónatans vinar míns. En það er óvíst að hljómborðið hefði orðið undratæki í mínum höndum því Jónatan var og er algjör snillingur þegar kemur að tónlist - en það er allt önnur saga. Nú um páskana lét ég þennan gamla draum rætast og fjárfesti í hljómborði - en hljóðfærið var að vísu ekki ætlað mér heldur litlu prinsessunni  á heimilinu. Ég get samt ekki neitað því að ég hef stolist til að glamra á hljómborðið og svei mér þá ef ég er ekki efni í góðan tónlistarmann.

 

hljombord

 


Disco Lady

Það kennir ýmissa grasa á blogginu hans Kalla Hallgríms. Þar rakst ég meðal annars á tengil á heimasíðu sem veitir upplýsingar um hvaða lög voru í 1. sætinu á Billboard vinsældalistanum á tilteknum tímapunkti. Þar komst ég t.d. að því að lagið "Disco Lady" með Johnny Taylor sat á toppi Billboard listans daginn sem ég fæddist. Þarna var ef til vill tónninn gefinn fyrir framtíðartónlistarsmekk minn sem hefur verið ansi diskó-kenndur í gegnum tíðina. Samt sem áður kannast ég ekkert við lagið "Disco Lady" en þar er kannski á ferðinni óuppgötvað meistaraverk.


50 ára útskriftarafmæli

Í ár eru 50 ár frá því að mamma útskrifaðist frá Samvinnuskólanum í Bifröst. Af því tilefni eru foreldrar mínir nú á leið til Ítalíu til að fagna tímamótunum með skólafélögum mömmu. Það eru líka um 40 ár síðan mamma og pabbi fóru til Ítalíu en þá var ferðinni heitið að Gardavatninu. Myndin hér að neðan var tekin þegar sami útskriftarárgangur hittist að Bifröst til að fagna 10 ára útskriftarafmælinu árið 1968.

Bifröst


Skák og mát

Það er ekki hægt að neita því að skákin er á mikilli uppleið í Bolungarvík þessi misserin. Taflfélag Bolungarvíkur heldur úti góðu barna- og unglingastarfi sem er undir stjórn Rúnars Arnarsonar og Björgvins Bjarnasonar og sveitir TB, sem að mestu leiti eru skipaðar Bolvíkingum (búandi í Víkinni jafnt sem brottfluttum), vinna hvern sigurinn á fætur öðrum í Íslandsmóti skákfélaga.

Nú um helgina barst stórfrétt úr herbúðum Taflfélags Bolungarvíkur þegar tilkynnt var að fjórir íslenskir skákmeistarar hefðu gengið til liðs við taflfélagið. Þarna var um að ræða hinn margreynda stórmeistara Jón L. Árnason og alþjóðlegu meistarana Jón Viktor Gunnarsson, Braga Þorfinnsson og Dag Arngrímsson. Samhliða þessum félagaskiptum var greint frá því að Taflfélag Bolungarvíkur hefði gert tímamótasamninga við þessa þrjá efnilegu alþjóðlegu skákmeistara þar sem þeir eru styrktir næstu 2-3 árin þannig að þeir geti alfarið einbeitt sér að taflmennsku og þar með aukið færni sína í skákinni.

Það er landsþekkt að Bolungarvík var oft á tíðum kölluð Mekka skáklistarinnar á Íslandi og voru margir af bestu skákmönnum landsins skólaðir til í Víkinni. Þar má t.d. nefna Jóhann Hjartarson sem var lengi vel einn allra sterkasti skákmaður landsins. Í þá daga var teflt í Sjómannastofunni í Félagsheimili Bolungarvíkur sem var í raun annað heimili bolvískra skákmanna. Það er því ekki að undra að nú vilji góðir menn nefna nýjan fundarsal á efri hæð Félagsheimilisins "Sjómannastofuna" til heiðurs því merka starfi sem fram hefur farið í gömlu Sjómannastofunni í gegnum tíðina. Ef til vill eiga þá skákmeistarar framtíðarinnar eftir að stíga sín fyrstu skref í átt að meistaratitli í hinni nýju Sjómannastofu Bolvíkinga.

 

TaflBol017

Meðfylgjandi mynd sýnir Guðmund M. Daðason, formann Taflfélags Bolungarvíkur, fyrir miðju ásamt skámönnunum Jóni Viktori Gunnarssyni, Braga Þorfinnssyni, Jóni L. Árnasyni og Degi Arngrímssyni talið frá vinstri.

Nánari upplýsingar um hina nýju félagsmenn Taflfélags Bolungarvíkur:

Jón Loftur Árnason stórmeistari fæddur 13.nóvember 1960.

  • Núverandi skákstig: 2507
  • Heimsmeistari sveina (16 ára og yngri) árið 1977 í Cagnes-sur-Mer í Frakklandi á undan ekki ómerkari manni en Garry Kasparov.
  • Útnefndur stórmeistari árið 1986 Íslandsmeistari 1977, 1982 og 1988.
  • Var í sveit Íslands sem varð í 5.sæti á Ólympíumótinu í Dubai 1986 og 6.sæti í Manila 1992

Jón Viktor Gunnarsson alþjóðlegur meistari fæddur 18.júlí 1980.

  • Núverandi skákstig: 2431
  • Útnefndur alþjóðlegur meistari árið 1998 . Er með einn áfanga að stórmeistaratitli.
  • Íslandsmeistari árið 2000.
  • Tefldi á 1.borði í sveit Íslands 16 ára og yngri sem varð Ólympíumeistari árið 1995.

Bragi Þorfinnsson alþjóðlegur meistari er fæddur 10.apríl 1981.

  • Núverandi skákstig: 2408.
  • Útnefndur alþjóðlegur meistari árið 2003 .
  • Tefldi á 2.borði í sveit Íslands 16 ára og yngri sem varð Ólympíumeistari árið 1995.

Dagur Arngrímsson alþjóðlegur meistari fæddur 14. janúar 1987.

  • Núverandi skákstig: 2392
  • Verður útnefndur alþjóðlegur meistari árið 2008.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband