Þú ert orðinn alltof feitur!

Eitt kvöldið á aðventunni lá ég upp í sófa og horði á “kreppufréttir” í sjónvarpinu. Prinsessan á heimilinu kom þá inn í stofu, settist til fóta mér og sagði í sinni barnslegu einlægni: “Þú ert orðinn alltof feitur!” Ég tók mér örlítinn umhugsunarfrest en sagði svo við barnið: “Þetta er alveg rétt hjá þér, ég er orðinn alltof feitur og þarf að fara að gera eitthvað í mínum málum.” Núna stend ég frammi fyrir því að það er síðasti dagur í “sukki” í dag því “átakið” byrjar á morgun. Þá hefst nýtt ár með nýju upphafi. Nú á að taka matarræðið í gegn og mæta vel og reglulega í ræktina. Eftirlitið og aðhaldið verður einnig til staðar því einu sinni í viku verður þyngd og ummál tekið til skoðunar.  

Fyrr í dag heimsótti ég foreldra mína og mamma var að sjálfsögðu ánægð með fyrirætlanir mínar á nýja árinu. Hún sagði að ég væri heppinn að geta unnið mig útúr vandræðum mínum, það væri ekki allir svo heppnir. Á sama andartaki varð mér einmitt hugsað til foreldra minna sem hafa um árabil barist við ólæknandi sjúkdóma og gefa ekkert eftir í þeirri baráttu. Mamma hefur t.a.m. verið í stöðugri lyfjameðferð vegna krabbameins í um 3 ár og pabbi hefur lifað með Parkisonveikinni í um áratug. Dugnaður þeirra hefur verið með eindæmum og aldrei hafa þau fallið í þá gryfju að vorkenna sjálfu sér eða að verið bitur út í þá sem hafa það betra. Þau eru sannar hetjur í mínum augum.  

Það eru víst orð að sönnu að ég er heppinn að fá vinna mig út eigin vandræðum og lækna sjálfan mig af offitunni. Ég ætla að leggja hart að mér, vera duglegur, og ná góðum árangri. Ég ætla ekki að láta krepputalið og efnishyggjuna ná heljartökum á mér heldur ætla ég að einbeita mér að því að koma heilsunni í gott horf þannig að mér líði sem allra best í faðmi fjölskyldunnar. Ef það tekst þá verð ég eflaust sönn hetja í augum prinsessunnar litlu. 

Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka góð samskipti á árinu sem er að líða.


Hitaveitugull og mótvægisaðgerðir

Það var góður dagur í Samgönguráðuneytinu í dag en þar var sveitarfélögum úthlutað jólagjöfum. Tilefnið að þessu sinni voru mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á aflaheimildum og auðvitað fékk bærinn minn Bolungarvík góðan jólapakka eða heilar 8,7 milljónir króna. Það kemur sér nú vel hjá bláfátæku sveitarfélaginu nú á þessum krepputímum. Við Bolvíkingar þökkum að sjálfsögðu kærlega fyrir þetta höfðinglega framlag úr Ríkissjóði.

Ég hugsa líka hlýtt til þeirra sem fengu stærstu jólagjafirnar að þessu sinni en það voru Grindavík og Vestmannaeyjar. Þetta eru að sjálfsögðu miklir útgerðarbæir sem hljóta að eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og þá veitir þeim nú ekki af rausnarlegum framlögum úr Ríkissjóði. Grindavík fékk sem sagt stærsta pakkann í ár eða 35 milljónir króna og Vestmannaeyjar komu næst með tæpar 25 milljónir króna.

En þegar betur er að gáð þá eru þessi sveitarfélög ekki bláfátæk eins og Bolungarvíkurkaupstaður.

Það er rétt að rifja upp nokkurra vikna gömul ummæli bæjarstjóra þessara sveitarfélaga.

Elliði Vignisson segir í viðtali við mbl.is 24. október síðastliðinn að Vestmannaeyjabær hvergi að slá af í framkvæmdum og frekar að bæta í en hitt - þeir eru ekki beinlínis á kúpunni þar á bæ. Þeir sem hafa kynnt sér ársreikninga þeirra Eyjamanna komast líklega að því að sveitarfélagið átti 4 milljarða króna inn á bankabók í upphafi þessa árs

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir upplýsir í viðtali við Víkurfréttir 21. október síðastliðinn að Grindavíkurbær hafi verið með 4 milljarða króna inn á bók hjá Landsbankanum en hafi millifært 2 milljarða af þeirri fjárhæð yfir í Sparisjóð Keflavíkur. Þar segir hún að "nú sé komið hitaveitugull í Sparisjóðinn". Ársreikningur Grindavíkurbæjar staðfestir þessir tölur því þar kemur fram að Grindavíkurbær átti um 4,5 milljarða króna á bankabók við upphaf þessa árs.

Ég veit ekki hvort það er viðeigandi að tala um réttlæti eða ranglæti í þessu sambandi en mér finnst eitthvað bogið við að mótvægisaðgerðir sem þessar skili sér best til þeirra sem þarfnast þeirra akkúrat ekki neitt.


Hólskirkja í heila öld

Hólskirkja í Bolungarvík átti hundrað ára afmæli í dag. Af því tilefni var boðið upp á glæsilega dagskrá fyrir alla aldurshópa í kirkjunni. Ég er ánægður með að hafa bæði getað mætt á hátíðarguðsþjónustu og aðventukvöld og tel það reyndar skyldu mína sem bæjarfulltrúa að sækja slíka merkisviðburði. Það er skemmst frá því að segja að bæði hátíðarguðsþjónustan og aðventukvöldið tókust mjög vel og eiga sr. Agnes, kirkjukórinn, sóknarnefndin og aðrir þeir sem lögðu hönd á plóg miklar þakkir skilið.

Ég hef alltaf haft sterkar taugar til Hólskirkju enda hef ég átt þar nokkrar af mínum stærstu gleðistundum í lífinu. Þá er það mér líka kært að amma mín, Margrét Halldórsdóttir, var skírð í vígsluathöfn kirkjunnar fyrir hundrað árum. Mér hefur líka alltaf fundist Hólskirkja vera afar falleg kirkja og mér finnst eins og að allar kirkjur ættu að vera eins og hún.

Hólskirkja skartar sínu fegursta á 100 ára afmælinu enda hefur kirkjan gengið í gegnum miklar endurbætur á síðustu árum. Myndin hér að neðan er þó ekki ný en hún verður að duga í þetta skiptið.

 

 


Nýgift

Laugardaginn 8. nóvember vorum við Harpa gefin saman í Hólskirkju í Bolungarvík.  Að athöfninni lokinni var slegið upp veislu í Einarshúsi þar sem brúðhjón og gestir skemmtu sér konunglega.

Harpa og Baldur

 


Taflfélag Bolungarvíkur heldur sigurgöngunni áfram

Taflfélag Bolungarvíkur er núna að keppa á Evrópumóti skákfélaga í Grikklandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Bolvíkingar senda lið til keppni og hefur árangurinn í mótinu til þessa verið hreint stórkostlegur. Eftir 4 umferðir af 7 er bolvíska sveitin í 23. sæti af 64 sveitum með 5 stig og 10 og hálfan vinning. Í 1. umferð tapaði TB fyrir Evrópumeisturunum í Linex Magic frá Spáni, í 2. umferð náðist jafntefli við Litháana í Panevezys Chess Club, í 3. umferð vannst sigur á liðinu CE Le Cavalier Differdange frá Lúxemborg og í 4. umferðinni í dag vann TB litháíska liðið Vilnius Chess-Bridge Club. Á morgun keppir Taflfélag Bolungarvíkur við makedóníska ofursveit (Alkaloid) sem skipuð er 6 stórmeisturum sem eru allir stigahærri en stigahæsti maður Bolvíkinga.

Frekari fréttir af bolvísku skáksveitinni er að finna á heimasíðu Taflfélags Bolungarvíkur en á heimasíðu mótsins má finna nákvæma tölfræði yfir árangur Bolvíkinga á Evrópumótinu.


Rimlar hugans

Fyrir nokkru síðan las ég bókina "Rimlar hugans" eftir Einar Má Guðmundsson. Á góðum stað í bókinni segir Einar Már frá vini sínum Baldri sem hafði yfirgefið konu sína og börn fyrir hana Jane sem var amerískur endurskoðandi af norskum ættum. 

"Jane trúði því að hún hefði verið send til Dalvíkur af yfirnáttúrulegum öflum og Baldur fékk hugljómun, yfirgaf konu og börn, og fylgdi henni eins og mormóni yfir hafið, alla leið til Ameríku. Fyrirtækið hans, Balli, sem framleiddi nuddpotta og beið eftir að vinna markaði í fjarlægum löndum, fór á hausinn, en í það hafði reyndar stefnt um hríð. En það var ekki Baldri að kenna, heldur Byggðastofnun og gott ef ekki Framsóknarflokknum sem stjórnaði Byggðastofnun einsog flestu öðru. Þannnig er það bara þegar við klúðrum hlutunum. Ekkert er okkur sjálfum að kenna."

Mér segir svo hugur að þetta sé ansi oft svona hjá okkur mannfólkinu þegar við klúðrum hlutunum,, við teljum okkur trú um að ekkert sé okkur að kenna og reynum að gera aðra að sökudólgum.


Skákin

Elías bæjarstjóri skoraði á mig að taka þátt í Hraðskákmóti Íslands á laugardaginn. Ég svaraði áskoruninni með því að leggja hann að velli í afar tvísýnni skák. Mér tókst að vinna 4 skákir af 15 í mótinu og hef greinilega ýmsu gleymt frá því ég var í læri hjá Magga Pálma, Stebba Arnalds og Gumma Daða á grunnskólaárunum. Þrátt fyrir að ég sé mjög ánægður með árangurinn þá telur Grímur að ég þurfi að bæta mig í skákinni til að ná sér því hann hafði fengið 7 vinninga af 20 mögulegum á mótinu í fyrra.

Einvígi bæjarstjórans og bæjarfulltrúans


Berjatínsla á sprengjusvæði

Ég á foreldra sem hafa berjatínslu að áhugamáli. Á síðustu helgi voru þau á tína aðalbláber í Óshlíðinni, þ.e. milli Fremra-Óss og Syðridalsvatns, þegar bormenn Bolungarvíkur sprengdu eina af fyrstu hleðslunum í jarðgöngunum sem menn deilir á um hvað eigi að heita. Eins og gefur að skilja var hávaðinn mikill við sprenginguna og á eftir fylgdu miklar drunur í fjöllunum sem umkringja Bolungarvíkina. Að sjálfsögðu brá foreldrum mínum við þessi læti og þegar ég spurðu þau nánar út í atvikið þá sagði pabbi að þetta hefði nú verið allt lagi, jörðin hefði ekkert titrað þrátt fyrir allan hávaðann.

Ég veit að það hafa margir haft áhyggjur af auknu grjóthruni á Óshlíðarveg á meðan á jarðgangaframkvæmdum stendur, en miðað við þessa reynslu foreldra minna þurfa vegfarendur um Óshlíð ekki að óttast aukið grjóthrun.

Ég var að sjálfsögðu viðstaddur þegar Kristján L. Möller samgönguráðherra sprengdi formlega fyrstu hleðsluna í Bolungarvíkurgöngunum og þá var upplifun mín í takt við þetta, mikill hvellur en enginn titringur. Þeir sem gátu ekki mætt til að sjá ráðherrasprenginguna getað notið hennar með því að smella á tengilinn hér að neðan.

http://www.osafl.is/ResourceImage.aspx?raid=1976 

 


Ballerína

Íris Embla fór í sinn fyrsta danstíma í gær. Svo mikil var ánægjan með fyrsta tímann að hún vildi endilega fá að fara í dans á hverjum degi. Ég er að sjálfsögðu himinlifandi með að Íris Embla skuli hrífast af dansi enda hef ég alla tíð haft gaman af dansi og auðvitað danstónlist. Þó verð ég að viðurkenni að kunnátta mín á dansgólfinu er ekki upp á marga fiska - það opinberaðist reyndar bæjarbúum eftirminnilega við 17. júní hátíðarhöldin hér í bæ í sumar.

Það er alveg ljóst að Íris Embla hefur meiri hæfileika en við Harpa á dansgólfinu og til að styðja við áhuga hennar á dansinum var við hæfi að hún fengi klæðnað við hæfi að gjöf frá foreldrunum.

ballerina

Bakkamyndir

Stuttu áður en fartölvan mín lagðist í sumardvala hafði ég fengið nokkrar gamlar skannaðar ljósmyndir frá Halldóri Grétari bróður mínum. Þessar myndir voru úr safni ömmu okkar og afa "á Bökkunum" eins og við sögðum alltaf. Til upplýsingar má geta þess að þau hétu Margrét Halldórsdóttir sem hefði orðið 100 ára á þessu ári og Benedikt Elís Bachmann Jónsson sem var 5 árum eldri en amma. Þess má einnig geta að amma var skírð þegar Hólskirkja var vígð í desember 1908 þannig að hin 100 ára gamla Hólskirkja er mér afar kær.

Sparisjóður Bolungarvíkur er einnig 100 ára á þessu ári og af því tilefni er nú leitað að myndum úr mannlífi Bolungarvíkur síðustu 100 árin. Ég ætla ekki að láta mitt eftir liggja í því sambandi og mun senda inn nokkrar myndir í þeirri von að ég hreppi einhver verðlaun. Þið hin sem eigið gamlar myndir frá Bolungarvík ættuð líka að taka þátt en hægt er að senda myndir á netfangið spbol@spbol.is eða koma með myndirnar í afgreiðslu Sparisjóðsins í Bolungarvík.

Hér að neðan eru tvær myndir úr safni ömmu og afa sem að mér sýnist voru teknar við heimili þeirra að Hafnargötu 120 einhvern tímann í gamla daga.

hafnargata
born
 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband